Maður lendir í því árið 1988 að vera laminn í spað út á götu af tveimur strákum. Fullkomlega óverðskuldað. Hann er laminn svo illa að það tekur hann mörg ár með endurhæfingu og fleiru að ná sér og andlegi skaðinn er varanlegur. Ofbeldismennirnir nást ekki. Það gerist hins vegar árið 2003 að þeir nást. Það kemur fram óyggjandi sönnunargagn og það sem meira er, ofbeldismennirnir þeir viðurkenna glæpinn. Þeir þurfa aðeins að greiða 3 hundruð þúsund í málamyndasekt en enga refsingu þurfa þeir aðra að taka út vegna þess að glæpurinn hafði fyrnst fyrir 5 árum síðan. Svo brútal eru fyrningarlögin kannski ekki í raunveruleikanum…en hvað um það! Þegar inntir eftir viðbrögðum við óréttlætinu segja ofbeldismennirnir borubrattir og samviskulausir ´Hvað ætliði að gera, ha! Hvað ætliði að gera, ha! Þið getið ekkert gert! Þið getið ekkert gert! Lögin eru svona, ha! Það versta við þessa skálduðu dæmisögu, er að ofbeldismennirnir hafa rétt fyrir sér og vita af því. Það er ekkert hægt að gera. Skaðinn er skeður.

Nú er komið að tilefni þessarar samlýkingar. Það skrýtna hefur gerst á undanförnum vikum að Frjálslyndi flokkurinn hefur verið að mælast með metfylgi þrátt fyrir að vera ekki að ´sigra´ neinar rökræður við helstu fylgismenn kvótakerfisins í sjónvarpsþáttum. Hin alþýðlega ímynd forsvarsmanna flokksins og hin réttmæta óánægja landsmanna með kvótakerfið er án efa skýringin á þessu mikla fylgi flokksins. En þrátt fyrir þetta á sér stað einstakt rökræðuegt atferli í umræðuþáttum um kvótakerfið þessa dagana. Fyrir utan snarpa sóknartilburði hjá Gunnari Örlygssyni, frambjóðanda Frjálslyndra stökum sinnum í nokkrum þáttum, hafa aðrir úr þessum hópi og úr öðrum flokkum, verið í pjúra debatlegri varnarstöðu þegar ræða á tillögur um breytingar á kvótakerfinu. Halldór Ásgrímsson, Friðrik J. Arngrímsson og aðrir ´verndarar´núverandi kerfis eru mjög borubrattir í rökræðum um kerfið, sjálfsöryggið uppmálað. Sem er akkúrat það ógeðslega við þetta! Þeir eru í hlutverki ofbeldismannanna í dæmisögunni hér að ofan. Halldór, Friðrik og hinir í liðinu, þeir keppast við að henda fram ´Hvað ætliði að gera, ha! Hvað ætliði að gera, ha! Þið getið ekkert gert! Ætliði að gera þetta, ha! Þið rústið kerfinu, ha!
Það versta er, ef lagaleg og skynsamleg sjónarmið eru höfð í huga: Þeir hafa að mestu leyti rétt fyrir sér. Búið er að hnýta lagalegann rembihnút á hagsmuni innvígðra í kerfinu. Skaðinn er nefnilega skeður og það sem meira er, ábyrgðin er engin. Ojbarasta!

Stóru peningarnir. Alvöru peningarnir. Þeir eru farnir fyrir löngu til kvótagreifanna og fást ekki aftur. Þetta heitir Sokkinn kostnaður. Mikið notað hugtak í viðskiptalífinu og þýðir óafturkræfur kostnaður. T.d. kostnaðurinn við keypta eign sem síðar reynist gagnslaus og ekki er hægt að nýta eða hafa tekjur af með neinum hætti. Löglegur, en þjóðhagfræðilega siðlaus ágóði kvótagreifanna eru þeirra tekjur en okkar fórnarkostnaður. Í þjóðareignarlegum skilningi er því réttmætt að tala um sokkinn kostnað hvað varðar hið sögulega framsal kvótans. Vissulega berast nú samt eitthverjar tekjur frá þessum kvótagreifum til okkar með afleiddum hætti. Þeir kaupa ýmsa þjónustu, borga fólki laun, auka skattveltu og koma þannig peningum sínum í vinnslu í hagkerfinu. EN…. vinnsla þessara peninga í þjóðarþágu er algjörlega háð geðþóttaákvörðunum þeirra. Sem er lykilatriði. Ef arðsemi fjármagnsins er meiri annarsstaðar að mati greifanna, þá fara peningarnir burt. Svo einföld er sú staðreynd. En boðberar brauðmolahagfræðinnar frá Helvíti hunsa yfirleitt svona smotteríssannleik í predikunum sínum.

Ef hið fullkomna réttlæti á að fara fram, þá þarf að koma til hreinræktuð stórfelld eignaupptaka, ekki bara hjá fyrirtækjum heldur hjá einstaklingum líka. Slík eignaupptaka hefði kannski verið valmöguleiki árið 1870. En er það ekki árið 2003. Með þeirri aðgerð yrði óréttlæti beitt til að bæta fyrir annað og stærra óréttlæti. Sögulegar bætur munu þessvegna ekki fara fram. Við getum gleymt því! Velviljaður Guðmundur G. Þórarinsson og kollegar hans hjá Nýju Afli tala mikið um að rangt hafi verið gefið í upphafi og að stokka þurfi spilin upp á nýtt. En innst inni held ég að hann viti að sú aðgerð er óraunhæf. Eiginlega útópísk veruleikafirring.

Aftur að litlu dæmisögunni að ofan. Til þess að maður fái ekki yfir sig ævarandi skömm ósmekklegheita fyrir að líkja Ríkisstjórninni og co. við ótýnda ofbeldismenn skal tekið fram að tilgangur samlýkingarinnar var aðeins sá að gera tilraun til að fanga þessa öskrandi gremju sem er á meðal landsmanna út af kerfinu. Alveg eins og hin öskrandi gremja sem fórnarlambið í dæmisögunni þarf að bæla niður út af refsingarleysinu fyrir glæpinn sem hann varð fyrir. Að sjálfsögðu eru Halldór, Davíð og LÍÚ-klíkan ekki ofbeldismenn. Meira að segja kannski vænstu kallar útávið! En aðgerðir þessara manna og forvera þeirra hafa leitt til eitthverra siðlausustu fjármagnstilfærslna Íslandssögunnar. Samt komast þeir upp með að vera í frekjustöðu í öllum umræðuþáttum um kvótakerfið ´Hvað ætliði að gera, ha! Hvað ætliði að gera, ha! Tilræði við landið!! Ætliði að setja allt á hausinn, ha!´. Viðurstyggilegt, hreint út sagt!

Það skal tekið fram að ýmislegt er hægt að gera og eru tillögur Frjálslyndra sumar hverjar ekki svo slæmar. Framtíðin er ekki algjörlega eyðilögð. Það er hægt með kerfisbreytingum að auka nýliðun eða auðvelda aðgengi manna að atvinnu í greininni. Það er líka hægt með kerfisbreytingum að hvetja til minnkunar á brottkasti. Einnig er hægt að innheimta hóflegt gjald af útgerðunum-og það verður gert. Hinar útfærslulega ólíku tillögur Samfylkingar og Vinstri grænna í fyrningum gætu gert gagn líka. Sérstaklega eru tillögur Vinstri grænna álitlegar. Það er semsagt hægt að setja fallegri, nothæfari og betri plástur á hið ljóta sár kerfisins. En sárið hverfur samt ekki í bráð. Stóru peningarnir eru horfnir úr þjóðareigu og aðeins brotabrot afturkræfir. Reikningsskilin varðandi afleiðingar hinnar heimskulegu útdeilingu kvótans fyrir ca. 20 árum hafa ekki farið fram og munu ekki fara fram.
Ef við göngum út frá því að nútímamaðurinn hafi lært lexíuna um að dreifa skuli áhættu við stórfjárfestingar, þá má gera ráð fyrir að auður núverandi kvótagreifa muni haldast og ávaxtast í framtíðinni. Það veldur því skiljanlegri gremju að hugsa til þess að barnabarnabarn einhvers af stórtækustu kvótagreifunum, það barn verður nokkurnveginn fjárhagslega seif alla sína ævi. Af hverjuSP.M. Jú, vegna þess að langafi þessa barns var svo ´heppinn´að hafa verið fengsæll skipstjóri eða útgerðarmaður í þrjú ár á fyrri hluta 9. áratugar 20. aldarinnar! Ullabjakk!

Eru þetta öfundsýkisorð? Ég held ekki! Að sjálfsögðu er ástandið ekki afkomendum kvótagreifans að kenna. Ekki einu sinni honum sjálfum. Hann græddi eins og lögin leyfðu honum. Afkomendurnir munu eflaust þurfa að vinna fyrir sínu í lífinu og óskar maður þeim að sjálfsögðu velfarnaðar eins og öllum öðrum. En þetta fólk mun alla tíð búa við ákveðið fjárhagslegt öryggisnet sem að flesta aðra skortir. Sem er kannski allt í lagi….. ef ekki væri fyrir hið löglega arðrán sem að baki netinu liggur. Að vísu hafa margir þessara auðmanna ávaxtað sitt pund vel, verið klókir og séðir og duglegir. En það breytir þó ekki þeirri lykilstaðreynd að rótin að þeirra auðæfum er tilkomin vegna óréttmætrar auðlindaskiptingar. Maður verður nefnilega ekki milljarðamæringur á því að leggja fyrir 5 til 10 þúsund krónur á mánuði í 20 ár. Sama hversu séður og duglegur maður er. Þar skilur á milli fjárfestingamöguleika okkar meðaljónanna og kvótagreifanna. Eðli rótar auðæfanna er vont.

Þá að ábyrgðinni. Hvað varðar braskið og framsalið síðustu árin, þá er það fullkomlega aumkunarvert að ´Við- sáum- þetta- bara- ekki- fyrir´afsökunin hefur gert ráðamenn fullkomlega stikkfría í gegnum tíðina. Þessi afsökun hefur alla tíð svínvirkað á fjölmiðla. Aum svör eru því miður flestum fréttamönnum þóknanleg. Ábyrgð framkvæmdarvaldsins er engin. Það ber líka engin ábyrgð ef holótt og vond lög eru sett á í landinu. Sambærilegt dæmi eru lögin um fjármálamarkað og verðbréfaviðskipti. Menn hafa verið að stoppa í holurnar í þeim lögum á undanförnum árum eftir að upp komst um grótesk innherjasukkmál á þjóðarfyllerísárunum ´98 til ´01. Þau mál hlutu reyndar ekkert alvöru opinbert uppgjör. Hanga bara úti í tóminu eins og flest stórmál. Valgerður Sverrisdóttir kann listina að segja: ´Úbbss!! Við sáum þetta ekki fyrir. Taka þarf lögin til endurskoðunar´. Hún veit að með því að segja þessar gylltu setningar er fagráðherra og aðrir sem bera eiga beina ábyrgð, stikkfrí. Þarf ég að segja aftur ullabjakk?

Mikið óskaplega vantar mikið upp á gildi almennilegra rökræðna í hámenntuðu nútímasamfélagi þegar arkitektar eins stærsta arðráns sem fram hefur farið hér á Íslandi komast í blússerandi sóknarstöðu í rökræðum um arðránsmálið. Það er svo sannarlega eitthvað mikið að!

Þakka þeim sem lásu.

Brynjar Jóh.