Eins og alltaf fyrir kosningar spretta fram á varir stuttbuxnastráka ýmsar fullyrðingar sem er ætlað að rýra traust almennings á andstæðingunum.
Nánast undantekningalaust vantar öll rök eða heimildir á bak við þessar fullyrðingar og þó það sé oft ekki mikið mál að hrekja þær þá er það auðveldara, sérstaklega fyrir okkur unga fólkið sem þekkir minna til stjórnmálasögunnar, að bara trúa þeim.


Ein þessara fullyrðinga er á þann veg að Steingrímur J Sigfússon hafi greitt atkvæði gegn lita-útsendingum Sjónvarpsins.


Þegar menn heyra svona fullyrðingu um stjórnmálaleiðtoga flokks sem þeir hyggjast kjósa þá skammast sumir sín fyrir val sitt og fara að efast um það.
Og ef þeir skipta ekki um skoðun þá er ekki ósennilegt að þeir reyni bara að gleyma fullyrðingunni.

En sem betur fer eru ennþá þónokkrir sem taka sér tíma til þess að horfast í augu við fullyrðinguna og beita heibrigðri skynsemi á hana.

Ég skal sýna ykkur hvernig er hægt að taka ofannefnda fullyrðingu.

Nú veit ég persónulega ekkert um þær umræður sem kunna hafa verið um útsendingu Sjónvarpsins 1975 þegar byrjað var að senda út í lit.
Hins vegar á ég bágt með að trúa því að einhver hafi verið á móti litasjónvarpi í sjálfu sér.
Áfram var hægt að nota svarthvítu sjónvarpstækin þó útsendingin væri í lit.
Hitt þykir mér líklegra skipting yfir í lit hafi kostað einhver aukaframlög.

Þar sem peningar vaxa ekki á trjánum þá er aðalhlutverk Alþingis að forgangsraða og ákveða í hvað peningarnir eiga að fara í.

Það er því ekki ósennilegt að einhverjir hafi greitt atkvæði gegn framlags til lita-útsendinga, ekki vegna þess að þeir væru á móti litasjónvarpi heldur vildu þeir frekar nota peningana í eitthvað annað.

En hvert sem deilumálið var þá er það nokkuð víst að þar greiddi Steingrímur J hvorki með né á móti. Því að samkvæmt Alþingisvefnum þá varð hann ekki þingmaður fyrr en 1983 eða 8 árum eftir að hann byrjaði að njóta lita-útsendinga Sjónvarpsins.

Svona, án nokkurrar beinnar þekkingar á málinu en með heilbrigða skynsemi (og netið) að vopni þá sé ég hvað það er lítið að marka þessar fullyrðingar.

En hvers vegna koma svona fullyrðingar fram?
Þurfa hægrimenn að grípa til þess ráðs að ljúga vísvitandi til þess fá góða kosningu eða eru þeir bara hættir að nota heilbrigða skynsemi?