Eins og við vitum öll hefur kosningabaráttan hingað til snúist að miklu leyti um kvótakerfið. Mikill tími hefur farið í að ræða fram og til baka hvað skuli gera ef nokkuð á að gera yfirleitt í kvótamálum. Samfylkingin og Vinstri-grænir hafa komið fram með fyrningaleiðir meðan Frjálslyndir hafa talað fyrir færeyskuleiðinni svokallaðri. Ég ætla ekki að fara út í það að útskýra eða tala mikið um þessar “ólíku” leiðir þeirra, heldur ætla ég að tala um þann ágreining sem að virðist vera kominn upp milli stjórnarandstöðuflokkanna í þessu máli og bent var á í Morgunblaðinu síðastliðin sunnudag. Stjórnarandstöðuflokkarnir reyna allir að telja okkur trú um það að þeirra leið sé sú eina rétta og gagnrýna á sama tíma stefnu hvors annars og segja hana ekki ganga upp. Í sunnudagsmogganum er talað við bæði Steingrím J. Sigfússon og Magnús Þór Hafssteinsson varaformann Frjálslyndaflokksins. Þar gagnrýna þeir báðir tillögur Samfylkingarinnar, Steingrímur segist efast um uppboð aflaheimildanna sem Samfylkingin leggur til en Magnús segir aðferðina ranga því að enn munum við vera í kvótakerfi. Hver fær síðan sjávarútvegsráðuneytið ef þessir flokkar komast til valda? Geta þeir komið sér saman um hvaða leið á að fara í kvótakerfismálum? Maður bara spyr sig.

Ég persónulega tel þessa tillögu ekki ganga upp einfaldlega vegna þess að 92% kvótans er úti á landi. 80% kvótans sem var upprunalega úthlutað hefur verið framseldur með tilheyrandi skuldum og veðsetningu húsa og yfir 90% handhafa kvótans hefur steypt sér í skuldir vegna hans. Þeir sem að hafa kvótann hafa flestir þurft að samþykkja að ganga í gegnum skerðingu aflaheimilda í þeirri trú að sú skerðing gangi til baka þegar að stofnarnir hafi byggt sig nægilega mikið upp. Síðan ætla þessir 3 flokkar að koma og taka kvótann frá þeim áður en skerðingin gengur til baka. Ef þetta fólk hefði vitað af þessu fyrir nokkrum árum síðan haldið þið þá virkilega að þeir hefðu fallist á þessar skerðingar á aflaheimildum. Þeir voru að hugsa til langframa, þeir voru að hugsa um hagsmuni sína í framtíðinni, vinstriflokkarnir hafa klifað á réttlæti í þessari kosningabaráttu, hvar er réttlætið í því að segja við Jón Jónsson á Raufarhöfn sem að hefur steypt sér í skuldir og veðsett húsið sitt til þess að kaupa sér kvóta fyrir trilluna sína. Ekki koma með klisjuna hvar var réttlætið fyrir 20 árum síðan þegar þessu var úthlutað. Svarið einfaldlega spurningunni, hvar er réttlætið fyrir Jón greyið? Stjórnarandstaðan hefur of oft verið látin komast upp með að svara ekki þessari spurningu hingað til.

Greiðum atkvæði með áframhaldandi stöðugleika í sjávarútvegi sem í öðrum atvinnugreinum í kosningunum næstkomandi laugardag. Verum Blátt Áfram, krossum við D.