"Hundraðkalla"auglýsing Samfylkingarinnar Á vafri mínu um hugi.is/stjornmal er auglýsing Samfylkingarinnar um jafnrétti, svokallaða “hundraðkalla”-auglýsingin, harðlega gagnrýnd.

Auglýsingin sýnir 99 svarthvítar myndir af forsætisráðherrum landsins í gegnum tíðina (allt karlar), og svo litmynd af Ingibjörgu við hliðina á þeim.

Markmið auglýsingarinnar (að mínu mati) er að varpa ljósi á það að einungis karlar hafa stjórnað þessu landi frá upphafi, og nú sé loks tækifæri til að breyta Íslandssögunni og kjósa konu sem forsætisráðherra.

Þeir sem segja að auglýsingin sé ómálefnaleg fara með rangt mál, því jafnrétti kynjanna er mjög mikilvægt málefni. Það er staðreynd að konur eru að missa af miklu í launum og tækifærum í þjóðfélaginu. Sem dæmi má nefna könnun sem Jafnréttisráð og Nefnd um efnahagsleg völd kvenna stóðu fyrir, en þar kemur fram að konur hafa aðeins 70% af launum karla á Íslandi, og hjá ríkinu eru konur minna en 23% starfsmanna í stjórnunarstöðum hjá ríkinu.

Þeir sem segja að í auglýsingunni sé verið að hvetja fólk til að kjósa Ingibjörgu <u>bara</u> af því hún sé kona fara líka með rangt mál, því Ingibjörg hefur mun meira til brunns að bera en bara kynferði sitt. Miklu eðlilegra er að líta á verk hennar í þágu jafnréttis kynjanna er hún var borgarstjóri. Þar tókst Ingibjörgu að minnka launamun kynjanna hjá borginni úr 14% niður í 7%, og fjölga konum í stjórnunarstöðum í borginni úr 13% í 50%!

Niðurstaðan er að þetta er frábær og áberandi auglýsing sem bar mikinn árangur, enda réðust Sjálfstæðismenn á þessa auglýsingu eins og þeir gátu í marga daga eftir birtingu hennar, sögðu hana vera mógðun við konur og ómálefnalega (!). Þeir virðast þá ekki líta á jafnrétti kynjanna sem málefni?

Að lokum langar mig að birta svar Ingibjargar við gagnrýni í garð þessarar auglýsingar:

<b>“Ein kosningaauglýsing Samfylkingarinnar þar sem fólki er gert grein fyrir að nú geti það breytt sögunni með því að kjósa konu til forsætisráðherraembættis, hefur verið gagnrýnd þó nokkuð. Gagnrýnin kemur aðallega úr röðum kvenna sem að telja að ekki ætti að veiða atkvæði út á kynferði viðkomandi, eðlilegra sé að kjósa um hæfni einstaklinga. Hverju svarar þú þessari gagnrýni?</b>

Það skiptir máli að konur standi jafnfætis körlum og þeim fjölgi þ.a.l. hvarvetna þar sem ráðum er ráðið. Konur eru ekki síður hæfar til stjórnunarstarfa en karlar en það endurspeglast ekki í valdastofnunum samfélagsins þar sem hlutur þeirra hefur verið fyrir borð borinn allt til þessa dags. Við eigum að velja og kjósa konur til starfa á grundvelli hæfni þeirra og meta þær að verðleikum. Ég er kona með víðtæka reynslu af stjórnmálum og stjórnun og það er á þeirri forsendu sem Samfylkingin býður mig fram til starfa í þágu þjóðarinnar. Karlar hafa farið með forystu í stjórnarráðinu allt til þessa dags, ekki vegna þess að þeir einir kunni og geti heldur vegna þess að stjórnmálaflokkarnir hafa ekki reynst nógu víðsýnir og lýðræðislegir til að hleypa konum að. Þessu vill Samfylkingin breyta”


Heimildir:
<a href=”http://www.femin.is/article.asp?cat_id=0&art_id=1 967”> http://www.femin.is/article.asp?cat_id=0&art_id=1967</a >
<a href=”http://www.visir.is/ifx/?MIval=visir_vidtal&id=52 ”>http://www.visir.is/ifx/?MIval=visir_vidtal&id=52</a