Eyjan okkar góða er á góðri leið að vera kjörinn kostur í augum erlendra fjárfestra. Það þykir sannað hve hagkvæmt það er að fá erlend fyrirtæki til landsins, en slíkt skilar meiri hagvexti til lengri tíma litið sem bætir lífskjör almennings. Í því samhengi er oft gott að líta til nágranna okkar á Írlandi.

Þegar sem best lét í Írlandi var tekjuskattur á fyrirtæki um 10%. Þetta lokkaði til sín fyrirtæki og nú hefur gamla fátæktarbælið þróast í lífskjör sem voru betri en meðaltal í ESB. Dublin er nú ein helst borg evrópskrar hugbúnaðarframleiðslu. Þessu má fyrst og fremst þakka snilldarstjórnun frjálshyggjumanna.

Ísland hefur til margs svipuð skilyrði og frændur okkar Írar. Tekjuskattur hefur verið lækkaður úr 30% niður í 18% síðasta kjörtímabil og dregið hefur verið úr neyslustýringu, m.a. með samræmingu og breytingu á tollum. Eignarskattur hefur einnig lækkað töluvert, og er markmiðið að leggja hann algjörlega af.

Ísland hefur það hins vegar fram yfir Írland að mati ýmissa stórfyrirtækja að vera ekki í ESB. Þar af leiðandi erum við ekki undir áhrifum háskattalanda innan sambandsins. ESB hefur einnig verið að gera sig líklega til að þrengja að löndum eins og Írlandi vegna þess að samræma þarf skattastefnur innan landa ESB. Þessi staðreynd er einhver besta forsenda þess að við eigum ekki að ganga í ESB (fyrir utan fiskinn). Auðvitað vilja lönd innan Evrópu getað stundað viðskipti við önnur Evrópulönd, en við njótum þess að vera aðilar að EES og þess vegna höfum við greiðan aðgang að markaðnum. Þrátt fyrir að ég hafi verið skammaður fyrir að gagnrýna Samfylkinguna of mikið þá er hún eini flokkurinn sem vill í ESB.

Það verður þó að teljast hæpið að Íslendingar taki fram úr Írum sökum smæðar og fjarlægðar frá viðskiptalöndunum, en á Írlandi búa um 4 milljónir manna. Við erum þó að nálgast. Við verðum því að halda áfram því frábæra starfi sem ríkisstjórnin hefur unnið síðustu misseri, setja menntun í öndvegi og tryggja áframhaldandi stöðugt stjórnarfar.