Þekkingariðnaður

Ef við Íslendingar hugsum lengra en fram að næstu kosningum um hver verði undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar má búast við miklum breytingum frá stefnu núverandi Ráðstjórnar. Fyrir rúmu ári velti Morgunblaðið fyrir sér hver yrði undirstöðuatvinnugrein okkar eftir 30 ár. 40% landsmanna töldu sjávarútveg verða undirstöðuatvinnugrein okkar árið 2030, 23% þekkingariðnað, 16% ferðaþjónustu, 8% iðnað og 6% nefndu verslun og þjónustu.

Öll umgjörð um þekkingariðnað hér á landi er í hróplegu samræmi við stöðuna í nágrannalöndunum. Við hátíðleg tækifæri verð ráðamönnum tíðrætt um nauðsyn þess að byggja hér upp þekkingarsamfélag, en Íslendingar eiga enn langt í land. Með því að nýta þekkingariðnaðinn í sjávarútvegnum má gera verðmætari mun verðmætari vöru úr sjávarfangi.

Þekkingariðnaður er nafn yfir vörur sem verða til virkjun hugvits. Hátækni er þar stór hluti en kvikmynda- og tónlistaiðnaður er undir þekkingarhattinum.
Hátækniframleiðsla er mjög lítil hér á landi um 2% af framleiðslustarfsemi en í Írlandi er hlufallið í kringum 45%. Hátæknigeirinn hér á landi byggist upp á upplýsingatækni, líftækni, lyfjaframleiðslu, hugbúnaðargerð og þjónustu en auk þess er framleiðsla flugvéla, skrifstofuvéla, tölva, útvarps og sjónvarpstækja ásamt öðrum tækjum sem tengjast upplýsingatækni skilgreint sem hátækni.

Árlega fæðast rúmlega 4000 börn sem alin eru upp við tölvur, það þarf að móta innviði þekkingarþjóðfélags strax svo þau fái störf við hæfi og þurfi ekki flytja úr landi þegar þau koma út á vinnumarkaðinn.

Upplýsingatækni
Upplýsingatækni gegnir mikli máli við þróun þekkingarþjóðfélgsins og þó að gefi á bátinn hjá UT-fyrirtækjum núna þá eiga eftir að verða mikil framþróun í tölvutækni á næstu árum. Vöxtur greinarinnar hefur farið úr 10% á síðasta áratug niður í núll síðustu ár. Störf árið 2001 voru 5.400 og heildarvelta 64,5 milljarðar. Búist er við að upplýsingatæknigeirinn eigi eftir að taka við sér og vaxa í fimm til sjö prósent um miðjan áratuginn. Samruni net- og farsímatækni er á næsta leiti og munu orð einsog vefþjónustur, XML og þráðlaus tækni verða fyrirferðamikil. Næstu tvö ár er búist við að fyrirtæki muni verða frærri og stærri, vegna samruna. Þekkingarþorp og netþjónabú er góður kostur. Við verðum að vernda og hlúa að þekkingu. Útrás er nauðsynleg.

Upplýsingatæknin er forsenda þess að ná viðskiptalegu forskoti í framleiðslugreinum, viðskiptum og þjónustugreinum og upplýsingatæknin sem slík er einhver arðbærasta atvinnustarfsemi sem fyrir finnst sé rétt að verki staðið og getur skapað áhugaverð hálaunastörf fyrir ungt fólk í framtíðinni.

Íslendingar er í fremstu röð í að hagnýta sér upplýsingatækni og er smæð þjóðarinnar bæði veikleiki og styrkur. Sérstaklega höfum við náð langt í rafrænum viðskiptum. Fólk í greininni hefur þó óskað eftir meiri áhuga stjórnvalda og viljað fá skýrari svör hvort byggja eigi upp þekkingarþjóðfélag eða á orkufrekum iðnaði. Við höfum vanrækt mannauðinn með því að verja ónógri atorku og fé í menntun.

Mér kemur alltaf í hug sönn saga af frumkvöðli í Háskóla Íslands sem vildi byggja upp meistaranám í tölvunarfræðum en þar skorti fjármagn. Hann hafði heyrt af miklum fjármunum í Iðnarðarráðuneytinu, þar var einn og hálfur milljaður til skiptana í verkefni tengd stórvikjunum á Austurlandi. Hann sótti um styrk fyrir eina prófessorsstöðu, 5 milljónir en erindinu var hafnað. Saga þessi endurspeglar nokkuð viðhorf stjórnvalda til greinarinnar sem kalla má ruðningsáhrif.

Stjórnvöld verða að byggja góðan grunn með vel tengt land, skapa samkeppnishæf starfsskilyrði, stöðugleika og lækka vexti. Styðja við rannsóknir og þróun en menntun skiptir þar meginmáli.

Þeir sem styðja Frjálslynda flokkinn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að stóriðja framtíðarinnar, upplýsingatæknin verði afgangsstærð því flokkurinn hefur mótað stefnu í þessum málaflokk og vill virkja auðlindina Íslendinga. Öflugur stuðningur við lítil og meðalstór fyrirtæki er mest aðkallandi verkefnið í atvinnumálum landsmanna. Ég beini því orðum mínum til unga fólksins, verið „kúl“ kjósið eff!

Framtíðarsýn mín er í anda Kennedy, að ísskápurinn minn geti keypt matinn og bjórinn fyrir lok þessa ártugs ef núverandi Ráðstjórn lætur af embætti 10. maí.

Sigurpáll Ingibergsson, tölvunarfræðingur. Skipar 14. sæti í Suðurkjördæmi