Afrek og Loforð Ingibjargar Að leiða stjórnarandstöðuflokk þegar kaupmáttur allra tekjuhópa hefur aukist svo um munar, skuldir ríkissjóðs hafa minnkað um 13% og svo mætti lengi telja í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar er beinlínis ekki auðvelt. Það ætti heldur ekki að vera á það bætandi þegar þú hefur skilið eftir þig sviðna jörð í höfuðborginni með sennilega einni stærstu og mestu skuldasöfnum sem um getur í Íslandssögunni og gríðarlegri hækkun álaga á þegnana.

Ingibjörg Sólrún getur nú samt stært sig af því að hafa gert þetta með góðum árangri ef marka má skoðanakannanir og í fljótu bragði gæti virtst sem henni ætli að takast að vinna kosningasigur með þann aumasta málefnalega bakgrunn sem elstu menn muna. Aðferðirnar sem hún hefur notað viðurkenni ég ekki nema í örfáum tilfellum en það geri ég alls ekki í lýðræðisríki á 21. öldinni þar sem velmegun er allsráðandi. Til að rökstyðja þetta bendi ég á Borgarnesræðuna þar sem hún hélt því fram að afskiptasemi Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og kollega hans af viðskiptalífinu væru sem veira á íslenskt viðskiptalíf.


Loforð Ingibjargar og kollega hennar hljóma eins hótanir í garð sjávarþorpa út á landi. Hún áttar sig ekki á því að það er voða hæpið að lofa öfundsjúka fólkinu á höfuðborgarsvæðinu og þorranum af landsbyggðinni en það er einmitt það sem hún ætlar að gera. Stefna Samfylkingarinnar hljómar þannig í sjávarútvegsmálum að hún ætli láta kvóta sjávarútvegsfyrirtækja fyrnast á 10 árum og fara svo að leigja hann. Þessar tillögur eru sérhannaðar fyrir fólk sem sér ekki sólina fyrir öfund, en áttar sig ekki á þeim þjóðhagslega ávinningi sem núverandi kvótakerfi hefur í för með sér og vilja frekar passa upp á það að enginn græði meira en annar og vilja þá sætta sig við að verðmætasköpun í sjávarútvegi yrði minni en ella. Hún virðist ekki átta sig á því að 92% kvótans eru á landsbyggðinni og víðast hvar eru það stórfyrirtæki í sjávarútvegi sem halda uppi sveitarfélögunum. Ef þetta er stefna hennar í byggðamálum þá má alveg eins flytja landsbyggðarfólkið strax til höfuðborgarsvæðisins ef svo illa færi að Ingibjörg og félagar kæmust í ríkisstjórn með öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum.