Vonandi nenniði að lesa þessa ritgerð

Það má með sanni segja að anarkismi er ein misskildasta stjórnmálastefna mannkynssögunnar. Í hugum flestra er anarkistinn lagður að jöfnu við samviskulausan hryðjuverkamann og aðra sem aðhyllast stjórnleysi, óreiðu og ofbeldi. Ástæðuna fyrir þessum misskilningi er annars vegar að finna í þeirri staðreynd að hugmyndafræði anarkismans er fæstum kunnug enda að mörgu leyti óljós og stefnur innan hans frábrugðnar. Hins vegar hefur sú grein hans sem snýr að ofbeldi vakið mesta athygli.
Þegar svara á spurningunni að hvaða marki er unnt að alhæfa um anarkisma sem stjórnmálastefnu frá miðri 19. öld og fram að heimsstyrjöldinni síðari þarf að leita svara við ýmsum öðrum spurningum áður en hægt er að alhæfa að nokkru leyti um anarkisma. En vissulega ber að hafa í huga að takmarkað er hægt að alhæfa um hann sökum þess hve ólíkar stefnur og áherslur var að finna innan hópa anarkista.
Til að byrja með munum við skýra frá uppruna anarkisma sem stjórnmálastefnu og í framhaldi af því hverjir aðhylltust hann þar sem að umhverfið sem stefnan varð til í útskýrir margt í hugmyndafræði hennar og eðli. Annar, og ef til vill sá skýrasti, þáttur í hugmyndafræði anarkisma er gagnrýni hans á yfirvöld hvers konar og fyrirkomulag það sem ríkjandi var á tímabilinu sem um ræðir þegar kom að skiptingu lífsgæða og stöðu einstaklingsins í ríkinu. Verður þeim þætti gerð skil auk hugmynda anarkista um fyrirmyndarríkið sem var þó mun meira deilt um meðal anarkista en um skoðun þeirra á yfirvöldum. Ástæðu ágreinings um fyrirkomulagið innan fyrirmyndarríkisins er meðal annars að finna í þeim mismunandi leiðum sem anarkistar vildu fara til að koma því á. Það er því nauðsynlegt að lýsa þeim til að varpa ljósi á hve misskildur og margslunginn anarkismi hefur löngum verið sökum þessarar óeiningar auk þess sem hún átti sinn þátt í því hve ópraktískur hann reyndist þegar kom að því að hrinda honum í framkvæmd. Almennri sögu anarkisma verður þó ekki gerð greinileg skil en um hana er hægt að fræðast í mörgum af þeim ritum sem notuð voru við heimildavinnslu og gefin eru upp í heimildaskrá.
Uppruni anarkisma
Þrátt fyrir að anarkismi sem skilgreind stjórnmálastefna hafi orðið til um miðja síðustu öld á hún rætur sínar að rekja langt aftur í aldir. Orðið „anarki“ eða stjórnleysi er komið úr grísku og var notað um aðstæður þar sem yfirstjórn var ekki til staðar. Í mannkynssögunni er því hefð fyrir afneitun á pólítísku valdi sem nær allt aftur til fornaldar, til kyníka og stóuspekinganna grísku, og hefur hún skotið upp hausnum af og til. T. d. hjá sértrúarhópum eins og kaþörum á miðöldum og meðal hópa anababtista í siðaskiptunum. Hugmyndafræði þessara forvera anarkisma var þó ekki samrýmanleg félags- og stjórnmálakenningum stefnunnar (Britannica, bls. 458). Það sem hefur haft meiri áhrif á anarkisma er arfleið skynsemishyggju upplýsingarinnar, trúin á skynsemi mannsins og á vitsmuna- og siðferðislega framför mannkynsins. Margar hugmyndir helstu hugsuða upplýsingarinnar voru þó vissulega komnar frá John Locke. Prins Peter Kropotkin, einn af helstu hugmyndafræðingum anarkista sagði að upphaf anarkisma væri einnig að finna í frönsku stjórnarbyltingunni. Hún hefði sýnt fram á að samfélagslegar byltingar gætu heppnast og alger félagsleg breyting orðið (The Anarchists, bls. 40-41, 49).
James Joll, einn fremsti fræðimaður síðari tíma um anarkisma, vísar einnig til sambands hans og „trúvilluhreyfinga” fyrri alda. Í því samhengi leggur Joll áherslu á „trúarhneigð" anarkista, það er að segja á sterk tilfinningaleg tengsl þeirra á milli sem myndast vegna sameiginlegra hugsjóna. Eins og margar þessara hreyfinga varð anarkismi til á tímum mikilla félags- og efnahagslegra breytinga sem leiddu til þess að almenningur missti trú á ríkjandi skipulag, með öðrum orðum á stofnunum líkt og ríki og kirkju (The Anarchists, bls. 27, 21-22). Breytingarnar á þjóðfélögum Evrópu sem fylgdu í kjölfar iðnbyltingarinnar urðu einmitt til þess að rjúfa tengsl almennings og kirkjunnar í fjölmörgum tilvikum. Milljónir verkamanna misstu trúna og þess í stað fyllti anarkismi eða sósíalismi upp í tómarúmið. Anarkismi varð sérstaklega áberandi í vanþróaðri suðurhluta Evrópu þar sem kaþólska kirkjan hafði í aldaraðir haft sterk áhrif á daglegt líf fólks. Nú var hún talin ein þeirra sem ábyrgð bæri á slæmum kjörum alþýðu vegna ítaka sinna í samfélaginu (History of Socialism, bls. 62). Það var því andstaða anarkismans við valdhafa og hinar heitu tilfinningar sem hann vakti sem varð til þess að tryggja honum fylgi margra. Þar að auki litu anarkistar á það sem forsendu að félags- og efnahagslegar breytingar yrðu að koma á undan pólítískum umbótum, og að sambandinu milli framleiðenda og neytenda eða milli fjármagns og vinnuafls væri mikilvægast að breyta. Kenningar anarkista fengu því hljómgrunn alls staðar þar sem stéttabaráttu var að finna á milli vinnuveitenda og launamanna og þar sem ríkið annað hvort studdi vinnuveitendur eða stóð aðgerðalaust hjá. Fjöldinn allur af fátæku og jafnvel örvæntingarfullu fólki sem aðhylltist anarkisma, sérstaklega frá 9. áratug 19. aldar, gerði það því í von um að hin algera samfélagsbreyting sem stefnan krafðist myndi færa þeim áþreifanlegan ábata í fyrirsjáanlegri framtíð (The Anarchists, bls. 217, 275).
Það var því fyrir sakir félagslegra og pólítískra árekstra og vandamála að aflið sem bjó í anarkismanum myndaðist og það var þetta afl sem byltingarleiðtogar 19. og 20. aldar reyndu að virkja og búa farveg í þeirri byltingarheimsspeki sem anarkisminn varð. Fremstur meðal þessara manna var róttæki blaðamaðurinn og ádeilurithöfundurinn Pierre-Joseph Proudhon sem vildi, eins og fleiri leiðtogar anarkista, tengja stefnuna við byltingarsinnaðri hluta verkalýðshreyfingarinnar en eins og fyrr segir fékk anarkismi viðurkenningu fyrst og fremst út frá stéttarbaráttu. Eins og gefur að skilja er anarkismi því náskyldur sósíalisma og marxisma sem kepptu við hann um hylli alþýðu. Deilur milli fylgismanna þeirra voru samt sem áður heitar og urðu deilur Marx og Bakuníns, annars af fremstu leiðtogum anarkista, þess valdandi að fyrsta alþjóðafélag verkamanna klofnaði árið 1872. Anarkismi er ólíkur hinum stefnunum tveimur að því leyti að þær gerðu ráð fyrir því að ríkið, eftir að hafa komist undir þeirra stjórn, yrði notað til þess að bylta þjóðfélaginu og gera einstaklinginn hæfan til þess að stjórna sjálfum sér í samfélagi án yfirvalds með öðrum. Þótt lokatakmark þeirra sé því hið sama vildu anarkistar, ólíkt marxistum og sósíalistum, að byltingin yrði gerð utan ríkisins með það fyrir augum að eyða því og að ríkjasamband frjálsra kommúna kæmi þess í stað (Intellectual History, bls. 167-168).
Marxmismi og sósíalismi áttu meira fylgi að fagna í iðnþróaðri löndum norðurhluta Evrópu en anarkismi í óiðnvæddari suðurhluta álfunnar. Enda reyndu hinir fyrrnefndu að höfða meira til verkafólks í þéttbýli, hinna svokölluðu öreiga, en anarkistar reyndu að ná til fjölbreyttari hópa sem áttu undir högg að sækja vegna afleiðinga iðnbyltingarinnar. Um þessa þjóðfélagshópa hefur Anna Ólafsdóttir Björnsson þetta að segja: „[R]étt er að þorri anarkista kom úr svonefndum víkjandi stéttum, úr röðum handiðnaðarmanna, sem stórar verksmiðjur ógnuðu, úr röðum aðalsmanna (einkum frá landsbyggðinni), sem nýríkir iðjuhöldar og stórgrósserar leystu af hólmi í krafti auðvalds og valda sem ráðandi stétt þjóðfélagsins, og smábænda í suður-Evrópu, sem ekki höfðu tileinkað sér nútímalega framleiðsluhætti.“ („Anarkisminn”, bls. 15). Vissulega reyndu anarkistar líka að fá til liðs við sig verkafólk í þéttbýli en fyrst og fremst reiddu þeir sig á stuðning allra þeirra sem voru vel í stakk búnir til að lifa í einföldu „náttúrusamfélagi“ og höfðu litlu að tapa með þjóðfélagsbyltingu.
Anarkismi náði þó aðeins nægilega mikilli útbreiðslu til að kallast fjöldahreyfing í tveimur löndum Evrópu, á Spáni og Ítalíu, sem voru kaþólsk ríki, en einkenndust af sívaxandi gagnrýni á kirkju, og þar sem efnahagsleg breyting var hafin, frá akuryrkju yfir í iðnaðarsamfélag, með tilheyrandi togstreitu. Samt sem áður hafði anarkismi talsvert fylgi í fleiri löndum Evrópu, einna helst í suður-Frakklandi, franska hluta Sviss og í Rússlandi (History of Socialism, bls. 208-209), þar sem fjölmörg skipulögð lítil bændaþorp mynduðu fyrirtaks grunn fyrir anarkísk samfélög.
Annað vandmál sem var til staðar á Spáni, Ítalíu og víðar, og varð til þess að auka fylgi anarkista, var óánægja með miðstjórnarvald. Ríkisstjórn Spánar hafði lítil afskipti af alvarlegum félagslegum vandamálum landsins auk þess sem Katalóníubúar vildu meira sjálfstæði frá Madrid, höfuðstað landsins. Mikla óánægju var líka að finna á Ítalíu eftir sameiningu landsins undir konungi Sardiníu-Piedmonte á 7. áratug 19. aldar. Óvinsælir skattar voru lagðir á íbúa ríkisins og margir sáu aðeins nýja valdhafa sem arðrændu sig (The Anarchists, bls. 118). Hugmyndir anarkista um frjáls sjálfsstjórnarhéruð höfðuðu því vitanlega til að minnsta kosti hluta íbúa þessara landa og ýtti undir gagnrýni á ríkið.
Skoðanir anarkista á ríki og yfirvaldi
Skoðunum anarkista á yfirvaldi er nauðsynlegt að gera grein fyrir þar sem þar er að finna forsendur margra þeirra breytinga sem þeir vildu gera á samfélaginu.
Samkæmt anarkisma eru stjórnvöld óþörf og ill vegna þess að öll stjórnkerfi leiða til harðstjórnar þar sem þau hafi óviðráðanlega tilhneigingu til að færa miðstýrð yfirráð sín út yfir svið þar sem þeirra er ekki þörf og störf þeirra því aðeins nauðsynleg til að viðhalda „kerfinu”. Einnig verða öll yfirráð að spillingu og öll undirgefni við slíka valdhafa er niðurlægjandi að mati anarkista. Andúð á ómannúðleika skrifræðisins, sem byggist upp samhliða valda- og umfangsmiklum stjórnkerfum, er rík og reyndar neita anarkistar því að ríkið hafi gagnlegum samfélagslegum hlutverkum að gegna. T.d. þegar kemur að varnarmálum. Vörn einstaklingsins gæti alveg eins farið fram á vegum samtaka lítilla samfélaga og þegar ríkið tekur að sér að verja einstaklinga fyrir ytri árás þá er það í raun að verja eigin yfirráð sem anarkistar viðurkenna hvort eð er ekki. Þeir kannast ekki við að hafa afsalað sér fullveldi sínu og spyrja hvað gerist ef þeir vilji fá það aftur. Þar af leiðandi afneita þeir stjórnarskrám,stjórnmálaflokkum og kosningum og segja þær aðeins vera fyrirkomulag til að hvetja einstaklinginn til að hlaupast undan skyldum sínum og ábyrgð gagnvart samfélaginu. Einnig er einstaklingurinn þannig blekktur til þess að styðja einn eða annan hóp af valdhöfum sem koma síðan til með að kúga alla aðra. Þetta sjónarhorn anarkista, það að efnahagur eða kraftur auðvalds ráði í raun þjóðfélaginu á rætur sínar að rekja til sósíalísks uppruna þeirra og því voru fulltrúaþing til lítils nýt í augum anarkista nema til þess að verja kapítalíska kerfið (Political Thought, bls. 11. - Stromberg: Intellectual history, bls. 168). Þannig voru anarkistar algerlega mótfallnir efnahagslegu skipulagi samtímaríkis þeirra. Miðstýrð eða ekki þá var fjöldaframleiðsla og síaukin neysla ekki þeim að skapi og heldur ekki hinar risastóru framleiðslueiningar sem að iðnvæðingunni fylgdu. Að mati þeirra heftu þær, eða að minnsta kosti tefðu, allar eðlilegar framfarir og voru aðeins til að hneppa einstaklinginn í ánauð auk þess að styrkja og auðga ráðandi stéttir. Að sama skapi væri því hinum vinnandi stéttum steypt í endalausan vítahring þar sem sífellt væri verið að verja hagsmuni einhvers og fyrr eða síðar yrði stríð afraksturinn („Anarkisminn“, bls. 14-15. - The Anarchists, bls. 69).
Einstaklingar eru því þrælar ríkisins og óréttlætið birtist í hatri og virðingarleysi þeirra gagnvart því. Þannig eru glæpir afrakstur þjóðfélags sem byggir á valdi eins hóps yfir öðrum. Glæpir eru örþrifaráð þeirra sem skorta lífsnauðsynjar og annarra sem ósáttir eru í ríkinu og finna ekki til samstöðu og þar með til ábyrgðar og er ríkið því ekki heldur réttlætanlegt til að berjast gegn glæpum (Anarchism, bls. 59-60). Á sama hátt ýtir stjórnkerfið undir iðjuleysi og leti þar sem það heldur uppi forréttindastétt sem samanstendur af framleiðslutækjaeigendum, aðli og hvers kyns auðmönnum. Dyggð hins einfalda akuryrkjusamfélags hefur því verið spillt með vélum, sem gert hafa einstaklinga að þrælum, og fölskum gildum forréttindastéttarinnar (The Anarchists, bls. 62). Afleiðing þess er að hin félagslega samstaða náttúrusamfélagsins, eða samhjálparhvötin, er fyrir bý því hún verður til vegna sameiginlegra hagsmuna. Í tengslum við stöðu einstaklingsins eða hópa í samfélaginu sagði Emma Goldman að allt tal um mannlegt eðli, það er að maðurinn sé veikgeðja, illur og eigingjarn, sé slitið úr samhengi þar sem hann er sem dýr í búri í ríkinu (Anarchism, bls. 65). Maðurinn er óskrifað blað við fæðingu og með áróðri og menntun móta miðstýrðar stofnanir eins og ríki og kirkja hann. Það er því grundvallarafstaða anarkista að það eru stofnanir sem spilla manninum.
Rök anarkista fyrir þvi að brjóta eigi niður miðstýrt vald og skipta ríkinu niður í lítil samfélög eru að opinbert stjórnkerfi sé ekki nauðsynlegt í þeim þar sem þar er togstreitan minni og betri skilyrði fyrir samvinnu fyrir hendi.
Fyrirmyndarþjóðfélagið
Eins og fram hefur komið litu anarkistar á ríkið sem meingallað og óþarft fyrirbæri og gagnslaust væri að endurskipuleggja þjóðfélag sem hvort eð er væri byggt upp á fölskum forsendum. Fyrir þær sakir þyrfti alger umbreyting þjóðfélagsins að eiga sér stað.
Samhliða því að áhersla á ánauð einstaklingsins var ríkur þáttur í gagnrýni anarkista á ríkið var frelsi hans grundvallaratriði í útópíusýn þeirra. Enginn einstaklingur eða hópur átti að ráða yfir öðrum. Sjálfsstjórnandi kommúnur í ríkjasambandi áttu að samanstanda af frjálsum einstaklingum og allar ákvarðanir að vera teknar í sameiningu. Leiðtogar anarkista boðuðu því óþvingað og friðsælt samfélag án valdníðslu. Samfélagsskipanin átti að vera laus við allt skipulagsbundið vald sem takmarkaði frelsi einstaklingsins og hefur þann tilgang að varðveita eignarhald, löggjöf og svo framvegis.
Á sama hátt og ríkið og stofnanir spilla manninum lögðu anarkistar áherslu á að náttúrlegt umhverfi myndi draga fram þær hliðar hans sem snúa að samhjálp og góðvilja. Þar af leiðir að einstaklingar samfélagsins, að því gefnu að það er ekki of stórt, eiga að geta séð um öll félagsleg hlutverk sem og myndað í sameiningu löggjafann, stjórnanda og dómara (History of Socialism, bls. 79). Í riti sínu Hvað er eign? skrifaði Proudhon að raunveruleg lög samfélagsins hefðu ekkert með yfirvald að gera heldur ættu uppruna sinn í eðli samfélagsins sjálfs. Í fyrirmyndarríkinu yrðu engir stjórnmálaflokkar eða fulltrúaþing heldur stéttlaust ríki án nokkurs konar ríkisstjórnar því jafnvel stjórn að hætti sósíalismans, skipuð af öreigum, myndi óhjákvæmilega fylgja kúgun og forréttindi valdhafa (Britannica, bls. 458. - Political Thought, bls. 12).
En til þess að þetta stéttlausa ríki jafnréttis og samhjálpar gæti orðið að veruleika gerðu hugmyndafræðingar anarkista sér grein fyrir að eðli samskipta þyrfti að breyta. Einstaklingarnir þyrftu að hafa nægilegan samfélagsþroska, það er hæfileika og vilja til að koma fram við aðra af sanngirni sem og til þess að taka þátt í sameiginlegum skyldum og verkefnum. Efnahagsleg skipulagning fyrirmyndarríkisins yrði því að byggjast á sjálfviljugum framleiðslu og dreifingarsamfélögum sem framleiða skyldu með sem minnstri sóun á mannlegri orku og því þyrftu allir að vinna sem gætu svo að samstaða næði að skapast (Anarchism, bls. 56). Í stað uppsöfnunar og flæði fjármagns var það vinnuafl mannsins sem átti að vera grunnur efnahags- og einnig félagslífsins að mati Proudhons. Hann sagði vinnu vera einkenni mannseðlisins og sá sem ekki vann fyrir sér var ekki sannur maður. Vinnan var í hans augum félagsleg nauðsyn og siðferðisleg dyggð en virðingu hennar hefði verið spillt með vélum og rányrkju kapítalismans (The Anarchists, bls. 64, 66-67). Viðhorf anarkista til vélaraflsins var samt sem áður ekki einhlítt. T.d. voru Godwin og Krapotkin ánægðir með allar þær uppfinningar sem myndu stytta vinnutíma mannsins án þess þó að gera hann sér háðan. Allir voru anarkistar þó sammála um að í fyrirmyndarríkinu myndi maðurinn lifa einföldu og fábrotnu lífi, ánægður með að vera laus við afleiðingar tækniframfara iðnaðarþjóðfélagsins. Í þessu fólst afneitun anarkista á félags- og efnahagsskipulagi samtíma þeirra og afturhvarf til upphafins samfélags frjálsra bænda og handverksmanna. Einfalt samfélag sem takmarkast við þarfir framleiðslu og neyslu og lifnaðarhættir það fábrotnir að Proudhon gerði ekki ráð fyrir vandamálum vegna misríkra kommúna (The Anarchists, bls. 277, 196).
Frumskilyrði fyrir því að skapa þetta einfalda samfélag var að afnema ríkjandi skipulag peningaviðskipta og eignarhalds. Proudhon, sem vakti mikla athygli fyrir að lýsa því yfir, í bók sinni Hvað er eign? frá 1841, að eign væri í raun þjófnaður sem ætti að afnema auk launa fyrir óunna vinnu, vildi útrýma fjármálamönnnum, bönkum og peningum. Eignarhald á hráefnum, framleiðslutækjum og framleiðsluaðferðum var að mati hans og annarra anarkista óréttlætanlegt því það væri aðeins til að gera aðra sér háða og þar með svipta þá einstaklingsfrelsi sínu. Þegar eignarhaldi hefði verið útrýmt yrðu þarfir manna fábrotnar því þá hefði að miklum hluta verið gert út af við hégóma og metnaðargirni (Intellectual History, bls. 74. - The Anarchists, bls. 64, 33).
Kenningasmiðir anarkista voru þó engan veginn sammála um hvernig efnahagslegt skipulag ætti að vera í fyrirmyndarþjóðfélaginu sem og hvaða samfélagsskyldum einstaklingurinn skyldi gegna. Ágreiningur þeirra þess efnis fól vissulega í sér mismunandi skilgreiningar á réttlæti og einstaklingsfrelsi. Í framhaldi af því spruttu upp, á tímabilinu sem um ræðir, nokkrar stefnur innan anarkismans sem höfðu sína útgáfu hver af fyrirmyndarríkinu. Þar af fengu fjórar stefnur mestan hljómgrunn.
Sú fyrsta, einstaklingsstefnan (individualism), er yfirleitt kennd við þýska níhilistann Max Stirner. Hún byggðist einfaldlega á algeru frelsi einstaklingsins svo lengi sem hann gengi ekki á frelsi annarra. Annar meginhöfundur stefnunnar, Ameríkaninn Josiah Warren, mælti fyrir kerfi sem fól í sér vöruskipti einstaklinga eða hópa þar sem vörurnar voru metnar eftir þeim vinnutíma sem lagður var í framleiðslu þeirra (Political Thought, bls. 11).
Proudhon var frumkvöðull samhjálparstefnunnar (mutualism) sem gerði ráð fyrir að hver einstaklingur eða hópur mætti í raun hafa forræði yfir framleiðslutækjum sínum (áhöld, land og svo framvegis) og var þannig í nokkurri mótsögn við sjálfan sig. En hins vegar var forræðið réttlætt með því að hver fengi aðeins umbunað fyrir vinnu sína. Vöruskipti skyldu fara fram með samningum þar sem allir aðilar gættu fyllsta sanngirnis. Þar að auki yrði sameiginlegur banki stofnaður sem lána myndi framleiðendum fyrir aðföngum með þeim lágmarksvöxtum sem nægðu fyrir rekstri hans (Political Thought, bls. 11-12).
Fyrir tilstilli Bakúníns var það sameignarstefna hans (collectivism) sem varð ráðandi innan anarkistahreyfingarinnar. Hún byggðist á samtakastofnun og samvinnu án nokkurrar miðstýringar. Hópar skipulagðra verkamanna, sem sameinuðust í verkamannaráði, skyldu eiga auðlindirnar og framleiðslutækin sameiginlega og gert var ráð fyrir að dreifing framleiðslunnar færi eftir vinnuframlagi hvers og eins (Political Thought, bls. 12).
Að lokum var það anarkískur kommúnismi (communism) en af boðberum hans voru þeir Krapotkin, Malatesta og Reclus fremstir. Forsendur fyrir anarkísk-kommúnísku samfélagi voru að einstaklingar hefðu frjálsan aðgang að sameiginlegum auðlindum og framleiðslutækjum eftir eigin þörf. Framleiðsla skyldi skipulögð eftir framboði og eftirspurn. Íbúar kommúna myndu láta vita hvers þeir þörfnuðust og sjálfviljugir verkamenn myndu framleiða það. Kommúnurnar kæmu svo til með að sameinast um stór verkefni líkt og vegagerð (Political Thought, bls. 12).
Meginmunur á útópíusýn þessara fjögurra stefna er í stuttu máli hvort að einstaklingurinn hefði einhverjum skyldum að gegna og þá hverjum ef þær voru einhverjar. Þar að auki hvaða fyrirkomulag skyldi vera á aðgangi að framleiðslutækjum og auðlindum sem og við framleiðslu og við dreifingu hennar. Annars áttu stefnurnar það sameiginlegt að vera að mörgu leyti frekar óljósar enda yrði allt skipulag, að minnsta kosti hvað þrjár síðastnefndu stefnurnar varðaði, að vera háð samþykki allra einstaklinga þegar þar að kæmi.
Anarkistar voru heldur ekki sammála um hvernig umbreyting þjóðfélagsins ætti að eiga sér stað og hægt að fullyrða að þar var ágreiningur meðal þeirra mestur enda erfitt með tilliti til styrks þjóðríkja tímabilsins og andstöðu anarkista við hvers konar miðstýringu.
Ólíkar leiðir
Anarkistum tókst aldrei að gera árángursríka byltingu enda var stofnun fyrirmyndarríkisins illmöguleg, ef ekki ómöguleg, meðal annars vegna ágreinings þeirra og þess að kenningar anarkista eru fullar af göllum og mótsögnum (The Anarchists, bls. 12, 275). Eins og fram hefur komið voru anarkistar þó sammála um að alger þjóðfélagsbylting, fyrir utan stofnanir ríkisins, væri nauðsynleg til þess að skapa fyrirmyndarríkið.
Það var á 7. áratug 19. aldar sem anarkistahreyfingin varð að pólítísku afli með kynnum Proudhons við þá Marx og Bakúnín. Það var Proudhon sem hafði lagt grunninn að „beinum aðgerðum” anarkista (Direct action) með því að setja fram hugmyndir um að verkamenn, skipulagðir í félög, myndu taka yfir framleiðslutækin (Britannica, bls. 459). En þeim Bakúnín greindi á þegar kom að því hvernig og hvenær þessi yfirtaka myndi fara fram. Proudhon taldi að bylting minnihlutans myndi leiða af sér harðstjórn og að umbreyting samfélagsins gæti orðið friðsöm. Proudhon og fylgismenn hans lögðu því áherslu á að ekki væri hægt að búa til friðsælt samfélag, án misréttis og ófrelsis, með ofbeldi. Því þyrfti að skilgreina samfélagið og haga baráttunni í samræmi við það. Friðsamir anarkistar sögðu að fyrirmyndarríkið gæti aðeins orðið til eftir langan tíma menntunar og að hlutverk hins upplýsta anarkista væri því fyrst og fremst að fræða aðra. Þeir áttu einnig að hvetja til byltingar með því að gagnrýna óréttlæti alræðisforms ríkisins. Bakúnín hafði hins vegar trú á að upplausn stofnana ríkisins myndi losa um hina góðu eiginleika mannsins og gera hann hæfan til friðsamar sjálfsstjórnunar. Því væri ofbeldisfull bylting hagkvæm og réttlætanleg á meðan að óþarfa fræðsla væri aðeins tímasóun (The Anarchists, bls. 68, 87. - Political Thought, bls. 13).
Fræðsla alþýðu með skrifum og ræðum friðsamari leiðtoga anarkista gekk hægt fyrir sig og fór svo að margir anarkistar misstu þolinmæðina. Þar af leiðandi fékk hin ofbeldisfyllri hlið anarkismans sífellt meiri stuðning og þróaðist í „propaganda by the deed“, slagorð sem kennt er við Ítalann Errico Malatesta. Árið 1876 hóf hann að predika ofbeldisfullar fjöldauppreisnir ítalskrar alþýðu sem mistókust og breyttust í mótmæli einstaklinga eða fámennra hópa í formi hryðjuverka í þeim tilgangi að sýna fram á veikleika valdhafa og hvetja fjöldann áfram til uppreisnar. Í kjölfar þess voru á tímabilinu frá 1890 til 1901 framin fjölmörg morð á þjóðarleiðtogum og öðrum fyrirmönnum auk árása á opinberar stofnanir. Eftir 1901 voru hryðjuverkin nær eingöngu bundin við Spán og Rússland en áhersla Bakúníns á beinar aðgerðir voru samt ráðandi í hreyfingunni fram til eyðingar hennar í spænsku borgarastyrjöldinni (Britannica, bls. 459).
Á áratugunum í kringum aldamót voru því tvenns konar hreyfingar anarkista. Annars vegar voru það menntamennirnir sem skrifuðu heimspekilegar greinar og héldu fundi um fyrirkomulag samfélagsskipulagsins og framtíðarsamfélagið og svo hins vegar litlir hópar eða einstaklingar sem aðhylltust hryðjuverk og urðu til þess að koma óorði á anarkisman því oft varð saklaust fólk úr öllum þjóðfélagsstéttum fórnarlömb þeirra. Almenningur fylltist viðbjóði og afleiðingarnar urðu þær að stjórnvöld skáru upp herör gegn anarkismanum auk þess sem að anarkistar misstu fylgi til sósíalista og marxista (The Anarchists, bls. 128, 130-131, 174). Hið síðarnefnda orsakaðist þó einnig vegna innbyrðis ágreinings anarkista.
Um aldamót voru flestir anarkistar orðnir meðvitaðir um gagnsleysi hryðjuverka og akademískra umræða og gerðu tilraunir til að finna leiðir út úr þeim ógöngum sem þeir voru komnir í. Illmögulegt reyndist að samræma skoðanir ofbeldisfullra og friðsamra anarkista en rétt fyrir aldamót náðu anarkistar þó undirtökunum í fjölmörgum verkalýðshreyfingum Frakklands sem lögðu áherslu á valddreifingu í stað miðstýringar. Margir anarkistar sáu að út frá verkalýðshreyfingunum gæti byltingin verið framkvæmd. Markmið þessara nýju stefnu, anarkó-syndikalisma, var að hópar verkamanna (syndikats) myndu taka yfir verksmiðjurnar og reka þær. Til að ná því fram skyldi stöðugri spennu haldið, með áróðri og aðgerðum, þar til allsherjarverkfall yrði framkvæmt sem koma ætti umbreytingu þjóðfélagsins af stað með sem minnstu mannfalli. Þrátt fyrir styrk þann sem anarkistar öðluðust með því að tengjast verkalýðshreyfingunni var alls ekki eining um þann samruna. Margir þeirra töldu að einstaklingurinn yrði hreinlega gleyptur af fjöldahreyfingunni. Í því sambandi benti Malatesta á að hagsmunir allra verkamanna væru ekki þeir sömu og taldi hann að hætta væri á að skrifræði og miðstjórn tæki völdin af þeim orsökum að verkalýðssamtökin þörfnuðust að minnsta kosti lágmarks skipulagningar og varanlega embættismenn (Britannica, bls. 460. - Joll: The Anarchists, bls. 195, 215, 205, 179).
Anarkó-syndikalismi setti mark sitt á verkalýðshreyfingar Frakklands, Belgíu, Ítalíu, Spánar og Rómönsku Ameríku og hleypti nýju lífi í anarkismann. Stjórnvöld sáu vissulega hættuna sem myndaðist, réðust gegn henni og fór svo að anarkistar misstu völdin innan verkalýðshreyfinga alls staðar nema á Spáni. Rússneska byltingin átti einnig sinn þátt í hnignun anarkismans, en vegna árangursríkrar byltingar náðu kommúnistar forskoti, auk upprisu hægri sinnaðra alræðisstjórna að ógleymdum þeim erfiðleikum sem mynduðust vegna almenns ágreinings anarkista. Eftir 1914 var því anarkismi nær eingöngu sterkt afl á Spáni (Origin of Socialism, bls. 87. - Joll: The Anarchists, bls. 192, 216-217).
Helstu einkenni anarkismans
Um uppruna anarkismans og skoðanir fylgismanna hans á yfirvaldi er um margt hægt að alhæfa. Anarkisminn á rætur sínar að rekja langt aftur í aldir en þó fyrst og fremst til skynsemishyggju upplýsingarinnar og svo til kenninga frumkvöðulsins Proudhons. Hann spratt upp úr umhverfi félags- og efnahagslegra breytinga síðustu alda þegar landshlutar og einstaklingar heimtuðu sjálfsforræði og hinar víkjandi stéttir og aðrir kúgaðir reyndu að velta af sér okinu. Anarkismi er því um margt skyldur sósíalisma og marxisma þrátt fyrir að afneita einnig fjölmörgu í fari þeirra.
Anarkistar tímabilsins sem um ræðir voru sammála um að stjórnvöld samtíma þeirra hafi verið óþörf og ill auk þess að vera ekki hagkvæmir eða réttmætir valdhafar aðallega fyrir þær sakir að þau drottnuðu í skjóli kapítalismans. Þeir vildu afnema ríkisvaldið þar sem það voru miðstýrðar stofnanir þess sem spilltu einstaklingnum og innrættu í hann glæpahneigð, leti og ábyrgðarleysi. Allt yfirvald var einfaldlega í þeirra augum óviðsættanlegur átroðningur á einstaklingsfrelsi allra manna.
Aðeins er hægt að alhæfa upp að vissu marki um hugmyndir anarkista þegar kemur að fyrirmyndarríkinu. Þeir vildu mynda ríkjasamband einfaldra sjálfsstjórnandi kommúna þar sem frjálst líf í náttúrusamfélagi væri manninum eðlilegt og fyrir bestu. Vinnusemi mannsins sem og samfélagsþroski hans voru því mikilvæg atriði og skortur á því síðarnefnda eflaust stór þáttur í því hve ópraktískur anarkismi var í framkvæmd. Áhersla var lögð á valddreifingu í formi mikils einstaklingsfrelsis, ofbeldisleysis og afnám eignarhalds. Samstaða náðist hins vegar ekki meðal helstu hugmyndafræðinga anarkista um skipulag þessa fyrirmyndarríkis og urðu til nokkrar útgáfur. Auk þess voru hugmyndir þeirra um það oft á tíðum heldur óljósar. En dýpri var klofningurinn um hvaða leið skyldi valinn til að koma umbreytingu þjóðfélagsins af stað. Anarkistar skiptust í ólíkar fylkingar, friðarsinna sem varð lítið ágengt og hryðjuverkamenn sem voru á meðal annarra til þess að grafa undan anarkismanum enda er það sú ímynd af honum sem lifði hvað helst áfram en ekki frelsishugsjónin.
Það var því að miklu leyti sökum ágreinings anarkista þegar kom að hugmyndafræði og stefnu, eða kannski heldur stefnuleysi, sem anarkismi náði ekki að verða sterkt pólítískt afl, fyrir utan stuttan tíma þegar anarkó-syndikalismi blómstraði. Um orsakir óeiningar anarkista hafði Emma Goldman að mínu mati eflaust ein bestu rökin fram að færa. Hún sagði anarkisma vera lifandi afl í samfélagi þar sem ný skilyrði væru sífellt að skapast. Því byggðist aðferðafræði anarkismans ekki á nákvæmt skipulögðum aðferðum sem gilda ættu fyrir allar kringumstæður, því vissulega væru þær mismunandi eftir staðsetningu (Anarchism, bls. 63). Að síðustu sagðist hún ekki hafa neina áætlun fyrir framtíðina og studdi það með eftirfarandi rökum: „I belive that Anarchism can not consistently impose an iron-clad program or method on the future. … If you object to a programmed present, how can you be held responsible for programming the future?” (Anarchism, bls. xiii).

Heimildaskrá
Anna Ólafsdóttir Björnsson: „Anarkisminn og Krapotkin" Lokaritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands 1978.
Goldman, Emma: Anarchism and Other Essays. With a new Introduction by Richard Drinnon. Dover Publication, New York, 1969.
Joll, James: The Anarchists. Eyre& Spottiswoode, London, 1964.
Lichtheim, George: A short history of Socialism. Praeger Publishers Inc., London, 1970.
Lichtheim, George: The origins of Socialism. George Weidenfeld and Nicholson Ltd., London, 1969.
Stromberg, Roland N: European Intellectual History Since 1789. 6. útgáfa. Prentice Hall, New Jersey, 1994.
The Blackwell Encyclopaedia of Political Thought. Blackwell Reference, Oxford, 1987.
The New Encyclopædia Britannica. Volume 27. Macropædia: Knowledge in Depth. 15. útgáfa. Encyclopædia Britannica Inc., Chicago, 1985.