Ég var að enda við að horfa á endursýnt kastljós þar sem allir stjórnmálaleiðtogarnir (þá á ég við þá sem eru í forustu flokksins) leiddu saman hesta sína og ræddu um ýmis mál. Því miður náði ég ekki byrjunni en ég kom inn í almenna menntamálaumræðu.

Þar var Ingibjörg Sólrún eitthvað að kvarta yfir ástandinu í framhaldsskólum, og ég held að hún hafi verið kveðin í kút af Davíði. Eins með ESB-málið þá var hún sú eina sem vildi inn. Halló!

Allaveganna, það sem mér fannst athyglisverðast var það sem Davíð benti á. Samkvæmt nýlegustu skoðannakönnun var líklegast að það myndaðist vinstri stjórn, með Vinstri-grænum, Frjálslyndum og Samfylkingunni.

Er það tilviljun að vinstri stjórn hefur aldrei setið út heilt kjörtímabil?

Tökum bara utanríkismálin. Vinstri-Grænir eru þvílíkt á móti inngöngu í ESB á meðan Samfylkingin vill ekkert heitar. En hins vegar eru Frjálslyndir skástir af þessum flokkum, og þeir höfða til sífellt vaxandi fjölda, og Samfylkingin er farin að taka eftir því. Þennan textabút fann ég á www.frjalslyndir.is:

,,Við bendum stuðningsmönnum þeirra [Samfylkingunnar] bara á að það er fljótlegri leið til að ná árangri fyrir þeirra hönd, en það er jú að krossa bara beint við F í stað þess að Samfylkingin afriti stefnuskrá okkar, leiðir og lög til að ná árangri.“

Af nógu er að taka. Þessir flokkar eru svo gjörólíkir. Ég las til dæmis athyglisverða grein eftir Katrínu Jakobsdóttir formann Ungra Vinstri-græna á www.uvg.is þar sem hún er að gagnrýna einhver skrif Hjartar Einarssonar samfylkingarmanns. Katrín segir m.a.:

,,Samfylkingin er flokkur sem styður stóriðju, einkavæðingu og stríðsbandalög. Mínar skoðanir í þessum efnum eru allt aðrar. Þess vegna valdi ég Vinstri-græna en ekki Samfylkinguna.”

,,Ég sé engan tilgang með því að kjósa málamiðlanasúpuna sem Samfylkingin býður upp á en þar gæti ég kosið í Reykjavík norður Varðbergshundana Ellert Schram og Össur Skarphéðinsson og konuna sem sagði mér og öllum öðrum Reykvíkingum fyrir tæpu ári að hún ætlaði ekki í þingframboð."

Bara þetta, en af nógu er að taka, sýnir hversu ólíkir flokkarnir eru. Áherslurnar eru svo ólíkar og stefnumálin eru bara svört og hvít. Þess vegna finnst mér ekkert skrítið að vinstristjórn hefur aldrei hefur setið út heilt kjörtímabil. Svona þriggja flokka stjórn er sundurrofin og þess vegna klofnar hún alltaf!