Landbúnaðarstefna Frjálslynda flokksins Landbúnaður hefur verið, og er enn, grundvöllur byggðar í sveitum landsins.
Breyta þarf forsendum landbúnaðar svo aðstæður batni og nýir möguleikar skapist í greininni.

Aflétta þarf af landbúnaði hinu yfirgripsmikla miðstýringar-, hafta-, og kvótakerfi, sem greinin hefur búið við.

Einstaklingsfrelsið til athafna þarf að fá að njóta sín í þessari atvinnugrein sem öðrum.

Gefa þarf íslenskum landbúnaði tækifæri á að sanna sig í samkeppni við erlenda framleiðslu.

Stuðla þarf að aukinni markaðssetningu erlendis.

Snúa þarf neikvæðri þróun við með því að taka á þáttum sem eru atvinnugreininni fjötur um fót.
Gera þarf öllum greinum landbúnaðar sem byggja á landnytjum jafn hátt undir höfði.

Orsakir vandans í landbúnaði

Framseljanleg framleiðsluréttindi hafa sett allar fjárfestingar í sveitum landsins í uppnám og stöðvað eðlilega framþróun.

Niðurgreiðslur á óseldri framleiðslu hafa veikt hvatann til að þróa greinina og gera hana samkeppnishæfa á markaði.

Framkvæmd niðurgreiðslna, sem er stór útgjaldaliður fyrir ríkið, hefur skapað neikvæða ímynd af íslenskum landbúnaði, og vilja margir að óhugsuðu máli stéttina helst feiga vegna þessa.

Athafnafrelsi bænda er fast í viðjum laga og reglna sem á engan hátt stenst samanburð við aðrar iðnaðar- og framleiðslugreinar.


Staða landbúnaðar 2003

Frjálslyndi flokkurinn telur að grundvallaratriði frjálsrar atvinnustarfsemi séu ekki virt við stjórn landbúnaðar og séu atvinnugreininni fjötur um fót. Landbúnaður á undir högg að sækja, þó svo að sjaldan hafi tæknilegar forsendur verið betri fyrir landbúnað á Íslandi. Iðnaður og þjónusta tengd landbúnaði eru í senn bæði forsenda fyrir og afleiðing af góðum skilyrðum til landbúnaðar.
Slík tengsl eiga einnig við um sjávarútveg. Stöðugur flótti úr þessum grunnatvinnugreinum gerir það að verkum að landsbyggðin öll er nú í vítahring byggðahruns, sem þarf að rjúfa.
Nýting á eldri fjárfestingum ríkisins í formi styrkja til jarðabóta, húsbygginga og samgöngumála fer forgörðum ef ekki verður breyting á.
Bændum hefur fækkað jafnt og þétt. Sífellt fleiri jarðir fara í eyði. Fólk flytur úr sveitum landsins að óbreyttu.
Tilraunir stjórnvalda til að aðstoða bændur við framleiðslu sína og við að stöðva fólksflótta úr sveitum með því að gefa bændum framleiðslurétt og síðar framseljanlegan rétt, hafa misheppnast. Grunnstoðunum er kippt undan rekstri úrvinnslu, þjónsustu og verslunar af því undirstöðuþáttur samfélagsins er seldur burt af svæðinu.

Styrkjum landbúnaðinn á nýjum forsendum

Styrkjum í landbúnaði þarf að breyta þegar núverandi búvörusamningar falla úr gildi, m.a. með upptöku fjölskylduvænna búsetustyrkja. Frjálslyndi flokkurinn telur að leggja þurfi fjármagn til landbúnaðar á Íslandi, en á öðrum forsendum en hingað til. Nýtt styrkjafyrirkomulag þarf að falla að alþjóðakröfum um lækkun á framleiðslu- og markaðstengdum styrkjum.
Tillögur Frjálslynda flokksins eru um búsetustyrki og takmarkaða framleiðslustyrki, með það að markmiði að endurlífga sveitir landsins og láta reyna á það hvort búskapur á Íslandi geti staðið undir sér án beinna afskipta opinberra yfirvalda af framleiðslunni.
Frjálslyndi flokkurinn telur að frelsi manna til atvinnu sé einn af hornsteinum þess samfélags sem við viljum byggja. Einkaréttur til atvinnu eða framleiðslu stríðir gegn hugmyndum flokksins. Hvatinn til að standa sig byggist á því að menn taki ábyrgð á framleiðslu sinni og fái jafnframt notið afraksturs góðs rekstrar.
Það er trú Frjálslynda flokksins að framleiðslufrelsi muni til framtíðar skapa mörg þjónustustörf og þjappa mönnum saman í keppni við að framleiða markaðshæfa vöru, jafnt á innanlandsmarkað sem og á markað erlendis.
Frjálslyndi flokkurinn vill efla trú og traust þjóðarinnar á íslenskan landbúnað, sem keppt geti í framtíðinni á alþjóðlegum samkeppnismarkaði.

Fjölskylduvænn landbúnaður með byggða- og búsetustyrkjum

• Frjálslyndi flokkurinn vill setja lög sem heimila ríkisstjórn að leggja fjármuni til bænda til að styrkja byggð.

• Frjálslyndi flokkurinn vill veita styrki til einyrkja (fjölskyldna), en samyrkjubú og hlutafélög verða skilgreind sem ígildi fjölda einyrkja. Aðeins þeir njóti styrkja sem eiga lögheimili á styrktri jörð og hafa aðsetur þar.

• Styrkt verði framleiðsla sem tilkomin er vegna landnýtingar. Hirðing hlunninda verði undanskilin styrkveitingum, enda er viðhald þeirra án útgjalda af hálfu notanda, þó svo kostnaður sé af nýtingu.

• Styrkir verði annarsvegar búsetustyrkir sem taki mið af fjölskyldustærð og búsetustað, og hinsvegar framleiðslustyrkir sem taki mið af árangri framleiðenda við að framleiða markaðshæfa vöru. Tekið verði tillit til þess hvað milliríkjasamningar leyfa og sett verði þak á mögulegan heildarstyrk bús.

• Um er að ræða hefðbundnar tegundir búfjárhalds, en einnig grænmetisræktun, kartöflurækt og aðrar þær tilraunir til nýsköpunar við nýtingu lands sem bændur kunna að fást við.

• Skógrækt er undanskilin frá þessum styrkveitingum, enda gilda um hana sérlög og langtímasamningar við bændur og landeigendur. Fyrirkomulag skógræktar þarf að endurskoða og þá sérstaklega þá samninga sem gerðir eru við bændur, með það í huga að aðeins einn aðili sjái um allar leyfisveitingar.