(Þetta birtist upprunalega sem greinarsvar, en þegar ég renndi yfir það sjálfur sá ég að þetta er eiginlega sjálfstæð grein.)

Mér finnst reyndar alltaf jafn fyndið þegar menn fara að tala um óðaverðbólguna, sem var 130% ef mig minnir rétt. Menn gleyma því gjarnan hvers vegna hún var og borgaði sig.

Það var vegna þess að skattkerfið var þannig áður að maður borgaði skattana sína árið eftir að maður fékk útborgað. Þetta er vægast sagt óendanlega óhentugt af mörgum ástæðum, en þá var það einmitt undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar, þess snillings, að breyta þessu þannig að maður borgaði skattana jafnóðum og maður fékk útborgað.

Þetta segir sig sjálft að gat bara þýtt eitt. Skattlaust ár.

Skattlaust ár hafði það í för með sér að allir sem vettlingi gátu valdið fóru að vinna eins mikið og þeir mögulega gátu. Fólk tók á sig fáránlega yfirvinnu, hætti í skóla í ár til þess að geta unnið, því það vissi vel sem var rétt að það myndi ekki borga skatta þetta ár, en þyrfti að borga þá árið á eftir.

Þetta þýddi að sjálfsögðu ekki bara fáránlega verðbólgu, heldur einnig fáránlegan hagvöxt. Þetta var alls ekkert slæmt, hvorki til skemmri né lengri tíma, nema fyrir þá sem unnu ekki þetta ár. Þar sem vinstristjórn var við lýði eins og þú bendir réttilega á, var því fólki síðan auðvitað hjálpað… hugmyndafræði sem öfgahægrimenn geta ekki einu sinni ímyndað sér, hvað þá framfylgt.

Þetta mæli ég á móti þessum hlægilega flokki, Sjálfstæðisflokknum (sem er reyndar ekki hægriflokkur frekar en vinstra eystað á mér), en svo verður líka að hugsa út í það, sem ég sel reyndar ekki dýrara en ég keypti það, að mér skiljist að Ingibjörg Sólrún vilji fara AFTUR yfir í skattkerfi þar sem maður borgar skattana árið eftir. Ég ítreka að ég heyrði þetta bara og að þetta sé ekki staðreynd, en sé þetta tilfellið er auðvitað fráleitt að kjósa Samfylkingu, ef það verður til þess valdandi að Ingibjörg Sólrún komist í völd þar.

Mér finnst líka skrýtið að stjórnarandstaðan sé sífellt að væla yfir skattkerfinu. Vissulega er margt þar sem betur má fara, og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lækkað kolvitlausa skatta á kolvitlausum tímum (og skilja síðan ekkert í gagnrýninni þegar hún reynist rétt), en þetta eru þó lækkanir, sem er skárra heldur en engar lækkanir þegar til lengri tíma er litið. Vissulega var heimskulegt að lækka skatta svona mikið í bullandi góðæri, og vissulega hefði mátt gera lækkunina auðveldari fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna, en þetta eru góðir hlutir samt sem áður.

Það sem gleymist hinsvegar í þessari endalausu peningadýrkun, er það sem hefur komið á móti. Lögreglan er bæði hlægileg og sorgleg, skólakerfið er BARA sorglegt, gjöld í menntaskóla verða hærri og hærri, langt umfram eðlilega verðbólgu, og hvergi á meðal ríkisins fær fólk umbun vinnu sinnar til þess að það geti þjónað sínu starfi vel. Sbr. því að hræðilegt hlutfall kennara eru hálfvitar og skelfilegt hlutfall lögreglumanna eru valdasjúkir fasistar.

ÞAÐ eru vandamál. Ég hef engar áhyggjur af skattkerfinu nema vegna þess að það hefur ekki komið til móts við þá sem hafa minna á milli handanna. Því er hægt að redda með allskonar leikfimi í bótakerfinu, en skattkerfið sjálft get ég ekki fyrir nokkra muni gagnrýnt.

Mér þykir þetta álíka mikið klúður hjá stjórnarandstöðunni að tönnlast á þessu, og var hjá Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórnarkosningum, að tönnlast á hlutum sem eru langt frá því að vera vandamál, þ.e.a.s. leikskólamálum og fjármálum borgarinnar, hvort tveggja sem er margfalt betra ásigkomulagi heldur en það var fyrir tíma R-listans.

Ég veit ekki. Mér finnst þetta allt vera álíka miklir vitleysingar, bara á mismunandi sviðum. Sjálfstæðismenn SKILJA EKKI að það er til fólk sem er ekki með 700.000 krónur á mánuði. Stjórnarandstaðan SKILUR EKKI að það er eðlilegt.

Það sem flokkarnir eiga allir sameiginlegt, er að eyða mun meiri tíma í það að rífast yfir því hver er stærri og sterkari en hinn, heldur en í það að virkilega þjóna hagsmunum fólksins.

Ég hef verið í kosningaþunglyndi núna í marga mánuði, gjörsamlega vonlaus eftir að hafa skoðað alla möguleika sem ég þekki.

Ég ætla ekki einu sinni að skila auðu, ég ætla ekki að kjósa. Ég tek ekki þátt í þessu rugli fyrr en ALVÖRU lýðræði kemst á. Stjórnarflokkarnir hafa að vísu báðir verið mjög andvígir lýðræðinu í verki þó þeir lofi það í orðum, svo að það má vera að ég kjósi VG eða einhvern annan fasistaflokk bara til þess að vera á móti stjórnarflokkunum, en ef umræðurnar halda áfram að vera á þessum nótum, þá sé ég ekki að það skipti nokkru einasta máli hver er við stjórn.

Ég þakka lesturinn þeim sem nenntu virkilega að lesa þetta. ;)