Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvaða tillögur núverandi ráðamenn bera fram varðandi skattalækkanir fyrir komandi kosningar en forystumenn stjórnarflokkanna hafa lýst yfir möguleikum á slíku.

Slík kosningaloforð eru hins vegar nokkuð venjubundið fyrirbæri alla jafna og fer fyrir lítið að ég held ef almennar yfirlýsingar eru það eina sem loforðin eiga að byggja á.

Stofnun einkahlutafélaga í massavís sem lögum samkvæmt er leyfilegt
skattafyrirbæri hefur orsakað stórkostlega tekjuskerðingu sveitarfélaga, þar sem hin sömu greiða aðeins hálfvirði í formi skatta miðað við einstaklinga.

Fjármagnseigendur greiða aðeins einn þriðja í skatt, af tekjum miðað við einstaklinga, og stórfyrirtæki virðast hafa á því möguleika að stofna fyrirtæki erlendis og flytja fjármagn á milli þannig að skattgreiðslur séu í lágmarki.

Sjávarútvegsfyrirtækin hafa ár eftir ár sloppið nokkuð vel við skattgreiðslur með því að nýta uppkaup á tapfyrirtækjum til afskrifta.

Í raun og veru þyrfti skattaumhverfið að fara í umhverfismat, þar sem skattgreiðendur hinir raunverulegu væru skilgreindir og tekjutengingar bóta og skerðinga allra handa yrði tekið með í mat þetta, sem og sá rammi sem lýtur að hlutfallslegri þáttöku þegnanna í sköttum í þjóðarkökuna.

með góðri kveðju.
gmaria.