Það er mér minnisstætt þegar Pétur H. Blöndal alþingismaður talaði um það í sumar sem leið, að fjárhagsvandræði aldraðra og öryrkja væri vegna óráðssíðu og óreglu. Að fenginni reynslu á því bákni sem tryggingarstofnun, heilbrigðiskerfið og félagsmálaþjónustan eru orðin verð ég að segja að það eru í reynd stjórnvöld sem eru þess valdandi að það fólk sem missir af einhverjum ástæðum heilsuna og þarf að fara í gegnum allar þær læknisskoðanir og tíma hjá sérfræðingum og þar fyrir utan að hafa kanski ekki meira en sjúkradagpeninga frá tryggingarstofnun, þó svo að það fái sjúkragreiðslur frá verkalýðsfélagi, er engan veginn þess umkomið að greiða þau gjöld sem mánaðarlega þarf að standa skil á. Tíminn sem tekur að fá tíma hjá sérfræðingi getur tekið frá nokkrum vikum upp í nokkra mánuði í versta falli. Sjúkradagpeningar eru einungis greiddir út í 52 vikur og eftir það er ekkert upp á að hlaupa nema félagsmálastofnun. Það er ef þitt mál hefur ekki komist í gegnum nálarauga Tr á þeim tíma, sem er mjög ólíklegt að öllu jöfnu. Það er búið að ganga þannig frá hnútum hjá þessum fyrirtækjum, að nánast ókleyft er fyrir fólk að fá upplýsingar um hvaða rétt það á varðandi örorkubætur öðruvísi en að leita að upplýsingunum út um borg og bí, því ekki er nokkur möguleiki að fá þær á staðnum. Ef þetta er ferli sem er erfitt viðureignar, þá má segja með vissu að sá sem í því lendir er lengur en ár að fá úr því skorið hvort viðkomandi er það illa haldinn að hann geti ekki unnið við þau störf sem það hefur unnið við. Fólk er sent út og suður í viðtöl við sérfræðinga, ( Tími hjá sérfræðingi er heilar 15 mínútur og fæstir kunna á lyklaborðið á tölvunni þannig að það tekur vel þann tíma að koma inn upplýsingum um viðkomandi). Sem svo byrja á því að spyrja “ til hvers ertu komin hingað”? Eins og hann eigi ekki að vita það? Hann hefur væntanlega fengið skýrslu frá heimilislækni eða heilsugæslulækni. Því í ósköpunum er hann þá ekki búinn að lesa hana yfir og getur snúið sér að aðalatriðinu sem er að skoða sjúklinginn? Heilbrigðiskerfið er orðið of þungt í vöfum til þess að það skili nokkrum marktækum árangri lengur. Það þarf að stokka það upp frá grunni gera það skilvirkara en nú er. Biðtími er of langur og sjúkraskýrslur illa unnar og flausturslega frágengnar svo eitthvað sé nefnt. Félagsmálastofnun er líka batterý sem mætti fara að stokka upp í. Það er með ólíkindum að sú stofnun geti sett sínar eigin reglur eftir geðþótta og neitað sjúklingum um aðstoð meðan þeir dæla peningum í dópista og drykkjumenn og svara fólki svo með skít og skætingi þegar vantar upplýsingar. Það liggur við að maður forðist að hafa nokkurt samband við þá stofnun vegna þess hvernig manni er svarað er í síma á þeim bænum. Og þjónustan? Hún er góð eða hitt þó heldur. Símatímar eru eingöngu milli kl. 9 og 10 á morgnanna 4 daga í viku. Hvað er þetta fólk sem þarna vinnur að gera þess á milli? Ekki það að Féló hafi ekki nóg af skjólstæðingum, en samt sem áður er þetta batterý það þungt í vöfum að þarf að skoða hvort ekki er hægt að reka þá stofnun með minni kostnaði og meiri skilvirkni en nú er. Að minsta kosti væri ráð að þeir sem svara í síma á þeirri stofnun færu á námskeið í almennri kurteisi og mannlegum samskiptum. Ég held að það sé kominn tími til að stjórnvöld fari að skoða hvort ekki sé hægt að gera þessar stofnanir léttari í keyrslu og skilvirkari í úrvinnslu þeirra gagna sem þeir fara með.

Kveðja Ljómi.