Þingið er stutt í ár vegna kosninganna, og var því slitið í nótt klukkan hálf fjögur. Vansvefta þingmenn höfðu gert góða törn undanfarna daga og samþykkt ótrúlegan fjölda nýrra laga á skömmum tíma.

Tæplega 130 frumvörp urðu að lögum á þinginu, þar af um þrjátíu aðeins í gær. Meðal þeirra eru lög um lyfjagagnagrunn, breytingar á lögum um almannavarnir, raforkulög og umdeild hafnalög, lög um lýðheilsustofnun og um lax og silungsveiði. Nokkrum málum var frestað, en að sögn þingforseta voru ekki færri mál afgreidd en hefðbundnum þingum.

Þá voru þingmenn kvaddir sem ljóst er að koma ekki til starfa á næsta þingi, Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, sem setið hefur á þingi í 29 ár, Sverrir Hermannsson, Frjálslynda flokknum, og þau Svanfríður Jónasdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Karl V. Matthíasson, öll í Samfylkingunni. Hvort aðrir þingmenn eiga afturkvæmt í þinghúsið eftir kosningar kemur svo í ljós.

Fyrir utan þetta bar helst til tíðinda á nýloknu þingi að ræðukóngurinn er fallinn. Þótt ótrúlegt megi virðast talaði Steingrímur J. Sigfússon ekki mest í þetta sinn.

Það var stallbróðir hans, Ögmundur Jónasson, sem hirti af honum titilinn í ár og er vel að honum kominn, enda talaði hann samtals í heilan sólarhring og hálftíma betur.

Reyndar töluðu þingmenn Vinstri grænna langmest, eða samtals í fjóra sólarhringa og fimm klukkustundir. Það gerir rúm 30% af öllum ræðum sem fluttar voru á yfirstandandi þingi, og töluðu þeir í um 17 klukkustundir hver að meðaltali.

Samfylkingin talaði í tæpa fjóra sólarhringa, eða fimm og hálfa klukkustund á mann að meðaltali.

Sjálfstæðismenn töluðu í þrjá sólarhringa, hver þingmaður í þrjár klukkustundir að meðaltali. Framsóknarmenn töluðu í tvo sólarhringa, eða 4 klst. á mann. Þingmenn Frjálslynda flokksins, sem eru reyndar aðeins tveir, töluðu þó samtals í tæpan sólarhring.

Samtals talaði þingheimur í 14 sólarhringa samfellt. Þingið verður nú að teljast vettvangur stjórnarandstöðunnar, enda talaði hún mest, eða í níu sólarhringa af þessum fjórtán.

En hverjir töluðu minnst? Eðli málsins samkvæmt eru það varamenn og aðrir sem sátu aðeins hluta af þinginu. Sumir þeirra sögðu ekkert, eða töluðu aðeins í innan við fimm mínútur En af þeim sem sátu allt þingið talið Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins minnst, eða aðeins í 39 mínútur.