Í ljósi Baugs-Davíðs Oddssonar umræðunnar undanfarna daga er ekki úr vegi að rifja aðeins upp fræg ósannindi stjórnmálamanna.

Fræðimenn eru almennt sammála um að afbrot háttsettra lýðræðiskjörinna embættismanna séu meðal þeirra alvarlegustu í samfélaginu. Þetta sjónarmið tengist áhrifum brotanna á samfélagið, áhrifum sem talin eru í það minnsta jafn alvarleg, ef ekki alvarlegri en áhrif hefðbundinna glæpa á borð við þjófnaði, rán, ofbeldi og jafnvel manndráp.

Tjón samfélagsins vegna afbrota stjórnmálamanna er ekki eingöngu fjárhagslegt, heldur einnig heilsufarslegt og er jafnframt talið draga úr siðferðisvitund borgaranna. Tjón á siðferðisvitund felst í því að traust borgaranna á helstu stofnunum samfélagsins minnkar og má nefna að í kjölfar Watergate**-hneykslisins í Bandaríkjunum á áttunda áratug síðustu aldar dró mjög úr trausti borgaranna á stofnunum ríkisins og virðingu fyrir lögum og reglu.

Við löghlýðnir Íslendingar köllum því á “Deep throat”, gefðu þig fram og fléttu ofan spillingunni. Ekki láta spillta stjórnmálamenn komast upp með að ljúga að þjóðinni.


**
Til upprifjunar fyrir þá sem muna ekki alveg um hvað Watergate málið snérist þá er það í stuttu máli þannig að á 17. júní 1972, handtók lögreglan menn við innbrot í Watergate bygginguna sem þá hýsti starfsemi á vegum Demókrataflokksins. Innbrotsþjófarnir reyndust vera njósnarar á vegum Repúblikanaflokksins. Reynt var að þagga málið niður, fáir trúðu því að hátt settir Repúblikanar hefðu nokkuð með málið að gera, hvað þá Nixon forseti sjálfur.
Fréttamenn á Washington Post, þeir Carl Bernstein og Bob Woodward tóku að rannsaka málið, og með hjálp uppljóstrara úr röðum Repúblikana sem kallaði sig “Deep Throat”, tókst þeim að flétta ofan af vef pólitískrar spillingar, njósna og skemmdarverkastarfsemi. Umfjöllun Washington Post um málið, leiddi til þess að 40 embættismenn hlutu dóma og Richard Nixon forseti þurfti að segja af sér.

nánar: http://history1900s.about.com/cs/watergatescandal/