Þótt stjórnmálaflokkarnir hafi ýmsar stofnanir, sem semja stefnuskrár og eiga fræðilega séð að hafa ýmis önnur áhrif, er reyndin sú, að gerðir ráðherra og þingmanna eru hin raunverulega stefna flokka. Þannig er Sjálfstæðisflokkurinn í rauninni eins mikill óvinur höfuðborgarsvæðisins og Framsóknarflokkurinn. Ráðherrar flokksins og þingmenn efla misrétti landshluta. Til dæmis fær höfuðborgarsvæðið aðeins 18% af nýlega veittu 5,6 milljarða viðbótarfé til vegamála í atvinnubótaskyni, þótt þar sé 69% af atvinnuleysinu og 56% af mannfólkinu. Ráðherrar og samgöngunefndarmenn flokksins gæta þess líka, að Vegagerðin seinki útreikningum á framkvæmdum í Reykjavík, svo sem mislægum gatnamótum á Miklubraut og Kringlumýrarbraut, svo að unnt sé að fullyrða, að undirbúningur þeirra sé of skammt á veg kominn til hafa með í atvinnubótapakkanum. Sjálfstæðisflokkurinn þykist vera vinsamlegur höfuðborgarsvæðinu, en í gerðum ráðherra og þingmanna er hann svarinn óvinur þess.
Framsóknarflokkarnir tveir eru andvígur hagsmunum íbúa höfuðborgarsvæðisins, svo sem sést af athöfnum ríkisstjórnarinnar. Áratugum saman hefur mikið af orku Framsóknarflokkanna farið í að reyna að hamla gegn þroska höfuðborgarsvæðisins með fjárhagslegum aðgerðum af ýmsu tagi.

Einna lengst gengur þetta í vegagerð, þar sem fáfarin göng gegnum afskekkt fjöll eru tekin fram yfir lífshættulega fjölfarin gatnamót við þvergötur Miklubrautar og Reykjanesbrautar. Núverandi samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins gengur raunar að þessari mismunun af mikilli ákefð.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins þurfa stjórnmálaflokk, sem tryggir, að vegafé sé notað, þar sem tekjurnar verða til. Þeir þurfa flokk, sem lætur byggja mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu til að fækka slysum, stytta ferðatíma, minnka eldsneytiskostnað og draga úr loftmengun.

Slík tilfærsla vegafjár er um leið þjóðhagslega hagkvæm, því að reynslan sýnir, að vaxtarbroddur nýrra fyrirtækja í atvinnugreinum framtíðar er eingöngu á höfuðborgarsvæðinu. Greiðar samgöngur á því svæði stuðla að verndun byggðar á Íslandi og draga úr atgervisflótta til útlanda.

Nýjasta dæmið um árás stjórnvalda á hagsmuni höfuðborgarsvæðisins eru ráðagerðir um að ryksuga allt tiltækt fjármagn í landinu til að borga fyrir álver á Reyðarfirði og orkuver við Kárahnjúka. Þetta þýðir, að minna fjármagn verður til ráðstöfunar handa vaxtarbroddum atvinnulífsins.

Góðar hugmyndir á framtíðarsviðum munu ekki verða að veruleika, af því að efnilegt fólk mun ekki geta útvegað sér fjármagn til að koma tækifærum sínum í gang. Sumir munu gefast upp, en aðrir flytja sig til ríku landanna, þar sem menn taka atvinnuvegi framtíðarinnar fram yfir álver.

Ein birtingarmynd þessarar árásar er 2-2,5% vaxtahækkun í landinu á byggingatíma álvers og orkuvers samkvæmt tölum Seðlabankans. Þetta er skattur, sem ryksugun fjármagns til 19. aldar gæluverkefnis leggur á alla þá, sem þurfa að taka lán, hvort sem er til húsnæðis eða verkefna.

Þetta kemur auðvitað mest niður á unga fólkinu á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að byggja yfir sig og skapa sér tækifæri til hátekjustarfa í greinum, þar sem það hefur lært til verka. Byggðastefna álvers á Reyðarfirði og orkuvers við Kárahnjúka er bein fjárhagsleg árás á allt þetta fólk.

Hér hafa aðeins verið nefnd tvö afmörkuð atriði, þar sem núverandi stjórnvöld vinna gegn hagsmunum íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þar fyrir utan snúast heilir málaflokkar ríkisins um varðveizlu gamalla atvinnuvega til sjávar og sveita með tilheyrandi ofurkostnaði skattgreiðenda.

Engum kemur á óvart, að Framsóknarflokkurinn sýni íbúum höfuðborgarsvæðisins óvild, þar sem hann er fylgislítill á svæðinu. Undarlegra er, að Sjálfstæðisflokkurinn skuli kjörtímabil eftir kjörtímabil komast upp með að vinna markvisst gegn hagsmunum kjósenda sinna á svæðinu.

Langvinnur stuðningur kjósenda á höfuðborgarsvæðinu við aðalandstæðinga svæðisins, við ýmsar birtingarmyndir hins pólitíska fjórflokks í landinu, einkum við Sjálfstæðisflokkinn, er verðugt skoðunarefni fyrir sálfræðinga á sviðum langlundargeðs, sjálfseyðingar og sjálfsniðurlægingar.

Þegar kjósendur höfuðborgarsvæðisins sameinast um að kjósa sér fjölmenna sveit fulltrúa nýs þéttbýlisflokks á Alþingi, munu loksins hætta pólitískar ofsóknir gegn höfuðborgarsvæðinu.


Heimildir: Dv, Jónas K, Fréttablaðið