Ný skilgreining á hugtakinu fordómum?
(www.framfarir.net)

Það verður ekki betur séð að hugtakið fordómar hafi í seinni tíð öðlast nýja merkingu hér á landi, a.m.k. í hugum sumra aðila. Eins og þekkt er byggja fordómar allajafna á fáfræði og þekkingarleysi á viðfangsefninu. En í seinni tíð hefur þetta ljóslega breyzt í hugum sumra og gamla skilgreiningin orðið hreinlega úrelt - eða hugsanlega bara ekki hagkvæm lengur. Samkvæmt nýju skilgreiningunni grundvallast fordómar ekki lengur á fáfræði heldur því að hafa ákveðnar skoðanir og aðrar ekki, burtséð frá því hvort viðkomandi færir rök fyrir þeim eða ekki.

Í samræmi við þessa nýju skilgreiningu hafa slíkir aðilar t.a.m. sakað mig um meinta fáfræði og fordóma vegna þess sjónarmiðs míns að stilla þurfi innflutningi útlendinga til landsins í hóf. Þeir segja að mig ekki þekkja það fólk sem sé að flytjast til landsins og heldur ekki þá menningarheima sem það kemur úr. Þetta er nú ekki alls kostar rétt þar sem ég hef lesið mér margt til um ýmsa ólíka menningarheima auk þess sem ég þekki ýmsa innflytjendur persónulega. T.a.m. má nefna að sumir skyldmenn mínir eru giftir konum af erlendum uppruna, einkum asískum.

Hitt er svo annað mál að maður þarf einfaldlega hvorki að þekkja það fólk persónulega, sem hingað flytur, né menningarbakgrunn þess til að vera þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að sýna ábyrgð og aðhald í málefnum innflytjenda eins og í öðrum málaflokkum. Það er einfaldlega nóg að vita hvaða áhrif óábyrgur innflutningur útlendinga til nágrannaríkja okkar hefur haft á þau, um þau miklu vandamál sem hann hefur skapað í þessum löndum og ennfremur þá staðreynd að menningarheimar innflytjenda til Vesturlanda eru í flestum tilfellum gjörólíkir því sem gengur og gerist í vestrænum ríkjum og eiga oftar en ekki enga samleið með því.

Ég hef kynnt mér þessi mál mjög vel. Ég veit hvaða áhrif óárbygar og heimskulegar stefnur í innflytjendamálum nágrannaríkjum okkar hafa haft á þau, ef stefnur skyldi kalla. Ég veit hvaða gríðarleg vandamál slíkur sofandaháttur hefur skapað í þessum ríkjum og ég er ennfremur fyllilega meðvitaður um þá staðreynd að menningarheimar flestra innflytjenda til Vesturlanda eiga yfirleitt enga samleið með því sem gengur og gerist í vestrænum ríkjum. Síðast en ekki sízt veit ég síðan að Ísland er engin undantekning hvað þessi mál varðar.

Það er einfaldlega ekkert sem bendir til þess að áhrif gríðarlegs straums innflytjenda til Vesturlanda muni verða einhver önnur hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Sumir hafa haldið slíku blákalt fram við mig en þegar ég hef innt þá eftir því hvað geri okkur eiginlega svona sérstök að þessu leyti hefur verið fátt um svör. Staðreyndin er nefnilega sú, eins óþægileg og hún nú er, að þvert á móti erum við að aka svo að segja nákvæmlega ofan í sömu torfærurnar og nágrannaríki okkar hafa lent í á undan okkur með þeim afleiðingum sem augljósar eru í þessum löndum ef menn bara vilja sjá. Það er því löngu orðið tímabært að þeir, sem þegar hafa ekki gert það, vakni upp af draumórum sínum, horfist í augu við raunveruleikann, hversu óþægilegur sem hann kann að vera, taki höndum saman og geri eitthvað almennilegt í málunum!

Hjörtur J. Hjartar

(Tilvísun: http://www.framfarir.net/greinar/260203.htm)

Málefna leg tilskrif takk, allt skítkast og aðrar persónulegar árásir vinsamlegast afþakkaðar (að maður skuli þurfa að taka svona lagað fram).
Með kveðju,