Breytingar í landbúnaði í framhaldi af inngöngu í ESB gætu stóraukið kaupmátt
- allt að 10% kaupmáttaraukning

Það er sorglegt en staðreynd að sérhver Íslendingur þarf að sætta sig við verri lífskjör en ella vegna þeirrar landbúnaðarstefnu sem rekin er á Íslandi. Kostnaðurinn sem almenningur ber er gríðarlegur.

Stuðningur við landbúnað á Íslandi á síðasta ári var 12 milljarðar sem við greiðum annars vegar í formi hærri skattbyrði og hins vegar í mjög háu vöruverði. Stuðningur okkar er sá næsthæsti í heiminum á eftir Sviss og þrátt fyrir að fara lækkandi sem hlutfall af landsframleiðslu er hann enn gríðarlegur.

Útgjöld ríkisins hafa farið stighækkandi samkvæmt tölum úr fjárlögum og að öðru óbreyttu munu þau halda áfram að hækka. Sem hlutfall af heildarútgjöldum fer stuðningurinn samt minnkandi. Markaðsstuðningur við landbúnaðinn heldur líka áfram að vaxa vegna þess að verð á landbúnaðarafurðum lækkar mun hraðar en hérlendis. Þetta og það sem á eftir kemur er efni sem unnið er innan stjórnkerfisins, m.a. í fjármálaráðuneytinu.

Allt 10% kaupmáttaraukning

Það er flókið mál að lýsa því hvernig landbúnaður er rekinn á Íslandi. Það er að minnsta kosti ljóst að hann er ekki rekinn eins og hver önnur atvinnugrein þar sem virðing er borin fyrir markaðslögmálum. Verðlagsmiðstýring, framleiðslukvótar, útflutningsbætur, beingreiðslur, niðurgreiðslur og innflutningshöft hafa einkennt þessa merku atvinnugrein og haft í för með sér óheyrilegan kostnað sem neytendur bera á endanum. Ef Íslendingar færu að reka landbúnað eins og hverja aðra atvinnustarfsemi væri hægt að stórauka kaupmátt hér á landi.

Mismunur á meðalbúvöruverði hér á landi og í OECD-ríkjunum er um 40%. Miklar líkur eru á að hægt væri að ná verði á landbúnaðarafurðum niður sem þessu næmi ef markaðslögmálin fengju að ráða ferðinni. Reynsla annarra þjóða, t.d. Færeyinga, gefur það augljóslega til kynna. Við þessa breytingu má gera ráð fyrir að kaupmáttur hækki hjá láglauna- og barnafólki um 10% á ári. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands nema búvörur 7,4% af útgjöldum vísitölufjölskyldunnar. Að meðaltali mætti því gera ráð fyrir 3% kaupmáttaraukningu. En láglauna- og barnafólk eyðir hlutfallslega meira í landbúnaðarvörur og því gæti kaupmáttaraukning þeirra hæglega orðið 10% ári.

Til samanburðar hefur kaupmáttur hér á landi aukist um 5% á ári undanfarin ár sem er með því mesta sem þekkist í heiminum. Það má því öllum ljóst vera að hægt er að bæta lífskjör hér á landi verulega ef við tökum til hendinni innan stjórnkerfisins.

Gott dæmi

Hjá frændum okkar í Færeyjum er lambakjöt, sem og aðrar landbúnaðarafurðir, mun ódýrara en hér á landi. Bónus flytur inn nýsjálenskt lambakjöt til Færeyja sem kostar aðeins fimmtung af verði íslensks lambakjöts sem þó er niðurgreitt um helming. Ef íslenskt lambakjöt er tíu sinnum betra þá er þetta í góðu lagi en eigum við ekki að leyfa neytendum að meta það.

Hvorki stjórnvöld né bændaforystan getur sest í dómarasæti um gæði lambakjöts og sagt neytendum hvað þeim hentar. Þetta eiga íslenskir neytendur að fá að meta sjálfir. Aukin gagnrýnin umræða er því nauðsynleg til að koma hreyfingu á þetta brýna mál.

Heimildir: Seðlabankinn, DV, Morgunblaðið.