Innflytjendamálin og Flokkur framfarasinna
(www.framfarir.net)

Það er þekkt víst staðreynd að í hugum sumra einstaklinga er heimurinn aðeins svartur og hvítur sem gengur þó þvert á það sem raunveruleikinn hljóðar upp á. Þetta á ekki hvað sízt við þegar kemur að umræðum um innflytjendamál hvort heldur sem það er hér á landi eða víða erlendis. Þannig telja sumir, sem að þeirri umræðu koma, að annað hvort séu menn á móti öllum innflutningi útlendinga til landa sinna eða að þeir vilji opna lönd sín fyrir allri heimsbyggðinni ef því er að skipta. Þetta séu einu afstöðurnar sem hægt sé að hafa til málsins og að ekkert sé einfaldlega þar á milli.

Þessi sýn á hlutina er þó auðvitað í engu samræmi við raunveruleikann og lýsir einungis veruleikafirringu þeirra sem þannig líta á málin. Í samræmi við þessa firringu sína neita slíkir aðilar hreinlega að viðurkenna að gríðarlegur og örtvaxandi innflytjendastraumur til Vesturlanda s.l. ár og áratugi hafi haft í för með sér einhver vandamál þrátt fyrir að rökin fyrir hinu gagnstæða blasi alls staðar við í kringum þá. Þessir aðilar saka andstæðinga sína um fáfræði og þröngsýni en halda svo áfram að lifa í draumaheiminum sínum þar sem engin eru vandamálin, ekkert neikvætt er til og öll dýrin í skóginum eru vinir. Staðreyndin er þó auðvitað sú að heimurinn er því miður hvorki svo einfaldur né eingöngu góður og hvað þá að hann sé bara svartur og hvítur.

Í samræmi við þessa einkennilegu sýn sína á umhverfi sitt hafa slíkir aðilar síðan viljað halda því fram að vegna þess að í stefnuskrá Flokks framfarasinna sé kveðið á um aðhaldssama og ábyrga stefnu í innflytjendamálum þá þýði það að flokkurinn sé hreinlega á móti því að útlendingar flytjist til Íslands undir nokkrum kringumstæðum. Þessu er blákalt haldið fram án þess að stafur sé til fyrir slíkum fullyrðingum. Aldrei hafa fengist nein rök fyrir innistæðulausum staðhæfingum sem þessum frá umræddum aðilum þrátt fyrir að ítrekað hafi verið leitað eftir því. Það er hins vegar mjög skiljanlegt að slíkt rök fáist ekki uppgefin þar sem þau eru einfaldlega ekki til.

Menn geta hæglega talað fyrir aðhaldi í einhverjum málaflokki án þess að það þurfi á nokkurn hátt að þýða að viðkomandi séu á móti málaflokknum eins og hann leggur sig. Þetta er álíka gáfulegt og að halda því fram að stjórnmálamaður, sem talaði fyrir aðhaldi í rekstri heilbrigðiskerfisins, vildi hreinlega leggja það niður í heilu lagi. Slíkur hugsunarháttur er auðvitað með öllu tilhæfulaus og algerlega út í hött.

Staðreyndin er sú að Flokkur framfarasinna er á engan hátt á móti því að erlent fólk flytjist til Íslands og hefur það margoft verið tekið fram í máli þeirra sem talað hafa opinberlega fyrir hönd flokksins, t.a.m. í fjölmiðlum. Hins vegar verður slíkur innflutningur að sjálfsögðu að vera í eðlilegu samræmi við getu og svigrúm aðila á Íslandi til þess að aðlaga þá sem flytjast til landsins að því þjóðfélagi sem fyrir er í landinu. Grundvallaratriði í þeim hugleiðingum er að þeir sem flytjist til landsins bæði vilji verða, og geti orðið, hluti af íslenzku þjóðfélagi. Ef það fólk, sem hyggst flytja hingað til lands, hefur ekki hug á því að verða hluti af íslenzku þjóðfélagi þá á það einfaldlega ekki neitt erindi til landsins sem innflytjendur.

Á sama hátt er Flokkur framfarasinna engan veginn á móti jákvæðum og uppbyggjandi erlendum menningaráhirfum, og áhrifum almennt, og er það m.a. tekið skýrt fram í stefnuskrá flokksins. Slík áhrif þarf þó að sjálfsögðu að meðhöndla á íslenzkum forsendum og aðlaga að íslenzku þjóðfélagi, enda gengur ekki að taka slík áhrif, sem orðið hafa til og þróast við allajafna gjörólíkar aðstæður en til staðar eru á Íslandi, hrá inn í landið. Auk þess gætu slík menningaráhrif seint talizt íslenzk.

Sumum kann að þykja stefna Flokks framfarasinna í málefnum innflytjenda hörð. Það er þó auðvitað mjög umdeilanlegt atriði hvort svo sé í raun. Hún hefur þó varla farið framhjá neinum sú afbrigðilega þróun sem átt hefur sér stað í innflytjendamálum Vesturlanda á s.l. árum og áratugum. Þessi þróun hefur skapað gríðarleg félagsleg vandamál sem síðan hafa farið stöðugt vaxandi með hverju árinu sem hefur liðið í samræmi við sífellt vaxandi straum innflytjenda til vestrænna ríkja. Þessi mál hafa yfileitt verið meira eða minna látin afskiptalaus og því hafa vandamálin, sem þeim óhjákvæmilega fylgja, kraumað undir yfirborði sem reynt hefur verið til hins ýtrasta að láta líta vel út í þeirri veruleikafirrtu von að vandamálin hreinlega leystust af sjálfu sér.

Ísland er engin undantekning í þessum efnum þó þróunin hér á landi sé að mörgu leyti skemur á veg komin miðað við nágrannalöndin. Við erum þó á hraðleið með að ná þeim og höfum þegar gert það á sumum sviðum. Hlutfallslega fjölgun innflytjenda á Íslandi er nú t.d. orðin meiri en á öllum hinum Norðurlöndunum og fjölgar þeim t.a.m. tvöfalt hraðar hér á landi en í Danmörku. Danskir fræðimenn hafa komizt að því að ef fer sem horfir verði Danir orðnir að minnihlutahópi í Danmörku eftir 60 ár. Það segir okkur einfaldlega að sú verði líklega raunin með Íslendinga mun fyrr eða í mesta lagi eftir 30 til 40 ár.

Dönsk stjórnvöld hafa nú ákveðið að herða innflytjendalöggjöf Danmerkur og reyna að draga úr straumi innflytjenda til landsins. Þar fer fremstur í flokki frjálslyndi flokkurinn Venstre. Innflytjendastefna flokksins verður þó sennilega ekki sögð mjög frjálslynd í heild. Hins vegar væri hún það án efa ef ekki væri fyrir hinn gríðarlega straum innflytjenda til Danmerkur og þau miklu vandamál sem honum hafa fylgt. Ef ekkert væri vandamálið þyrfti eðlilega ekki úrræðin. Sama gildir um Flokk framfarasinna og innflytjendstefnu hans. Ef ekki væru miklar blikur á lofti, og vaxandi vandamál varðandi innflytjendamálin hér á landi, þá væri stefna flokksins án efa allt önnur. Sú er bara einfaldlega ekki raunin og því hefur flokkurinn mótað sér stefnu í málaflokknum sem er í samræmi við raunveruleikann í málinu en ekki einhvern ímyndaðan draumaheim.

Hjörtur J. Hjartar

(Tilvísun: http://www.framfarir.net/greinar/220203.htm)

Málefna leg tilskrif takk, allt skítkast og aðrar persónulegar árásir vinsamlegast afþakkaðar.)
Með kveðju,