“Þjóðríki Evrópu kvödd með sögulegum hætti”
(www.framfarir.net)

Þann 6. febrúar s.l. urðu straumhvörf í sögu Evrópu þegar fyrsta uppkastið að stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið var gert opinbert af sérstakri nefnd á vegum sambandsins. Uppkastið var gefið út eftir langar og strangar viðræður á leynilegum fundum. Ýmsir sem sátu þessa fundi vildu jafnvel ganga enn lengra í þá átt að byggja upp evrópskt stórríki þrátt fyrir þá staðreynd að uppkastið að stjórnarskránni gengur þegar mikið lengra en kjósendur í flestum aðildarríkjum Evrópusambandsins munu get sætt sig við.

Fyrst í stað var aðeins talað um “stjórnskipulegt samkomulag” (ens. constitutional treaty). Núna er orðið “stjórnarskrá” notað 32 sinnum í uppkastinu. Samkvæmt fyrstu grein uppkastsins á hið nýja evrópska ríki að vera skipulagt sem sambandsríki. Hins vegar er hvergi skýrt kveðið á um það hvernig valdaskiptingin eigi að vera á milli aðildarlandanna annars vegar og yfirstjórnar sambandsríkisins hins vegar. Það er hins vegar ljóst að ef ágreiningur verður á milli einstakra aðildarlanda ríkisins og yfirstjórnar þess mun vilji yfirstjórnarinnar verða ofan á.

Ekki er gert ráð fyrir því í stjórnarskránni að hið nýja Evrópusambandsríki verði lýðræðislegra en Evrópusambandið er í dag. Þvert á móti mun tilkoma stjórnarskrárinnar minnka enn lýðræðið innan Evrópusambandsins ef marka má umrætt uppkast að henni. Ekkert í uppkastinu kveður á um að aukið vald færist til lýðræðislega kjörinna fulltrúa almennings heldur er gengið út frá því að meginþættir valdsins verði áfram í höndum embættismanna í Brussel sem ekki eru lýðræðislega kjörnir.

Uppkastið að stjórnarskrá Evrópusambandsríksins er miðstýrðara en stjórnarskrá Bandaríkjanna og það stjórnfyrirkomulag, sem kveðið er á um í uppkastinu, svipar í mörgu til fyrirkomulagsins sem gilti í Sovétríkjunum sálugu. Í 9. grein uppkastsins segir: “Stjórnarskráin og lög, sett af þeim stofnunum sambandsríkisins sem hafa heimild til þess samkvæmt stjórnarskránni, skulu vera yfir lagasetningu aðildarríkjanna hafin.” Þessi setning ein og sér markar endalok þeirra evrópsku þjóðríkja, sem aðild eiga að Evrópusambandinu, og upphafið að evrópsku stórríki.

(Byggt á greininni “Historical goodbye to the European nations” eftir Jan-Peter Bonde, danskan þingmann í Evrópuþinginu - EUobserver 07/02/03)
Með kveðju,