Um skoðanakannanir, Jón og séra Jón
(www.framfarir.net)

Nú hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir látið af starfi sem borgarstjóri Reykjavíkurborgar. Eins og velþekkt er má segja að upphaf þess skrípaleiks sem leiddi til þess að Ingibjörg Sólrún ákvað að hætta sem borgarstjóri, og fara út í þingframboð fyrir Samfylkinguna þvert á fyrri og margítrekuð orð, hafi verið skoðanakönnun sem forsvarsmenn vefritsins Kreml.is fengu Gallup til að gera fyrir sig í lok sumars 2002.

Í skoðanakönnun Gallup gáfu menn sér ákveðnar “ef”-forsendur og voru þátttakendur síðan spurðir um afstöðu sína til málsins að þeim gefnum. Í þessu tilfelli hvort þátttakendur væru tilbúnir að kjósa Samfylkinguna frekar ef Ingibjörg færi í framboð fyrir hana. Niðurstaða könnunarinnar var, sem þekkt er, að Samfylkingin fengi mun betri kosningu en ella ef Ingibjörg leiddi einhvern lista hennar.

Stuðningsmenn Samfylkingarinnar, eins og t.d. Kremlverjar, lýstu því strax yfir að þeir teldu skoðanakönnunina sýna með afgerandi hætti að Samfylkingin myndi fá betri kosningu með Ingibjörgu innanborðs. Bentu þeir í því samhengi t.d. á að á sínum tíma hafi einmitt slík skoðanakönnun, að gefnum ákveðnum “ef”-forsendum, verið upphafið að framboði R-listans í Reykjavík. Með öðrum orðum eru slíkar skoðanakannanir mjög marktækar að þeirra mati. Eða hvað?

Það er nefnilega ekki lengra síðan en sl. vor sem einmitt sömu aðilar ráku upp ramakvein er félagsvísindastofnun Háskóla Íslands notaði nákvæmlega sömu aðferðir við gerð skoðanakönnunar fyrir forsætisráðuneytið um það hvort Íslendingar ættu að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Þar gáfu menn sér ákveðnar “ef”-forsendur og spurðu síðan þátttakendur um afstöðu þeirra til málsins með tilliti til þessara forsendna. Niðurstaðan var sú að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar væri andsnúinn aðild að sambandinu.

En þessu vildu Evrópusambandsinnar ekki una. Fóru þar fremstir í flokki sömu menn og í haust lofuðu sömu starfsaðferðir, menn eins og Össur Skarphéðinsson og Eiríkur Bergmann Einarsson, einn af forsvarsmönnum Kreml.is. Töldu þeir skoðanakönnun félagsvísindastofnunar alls ómarktæka og að það væru bara ekki vísindaleg vinnubrögð að gefa sér slíkar “ef”-forsendur. M.ö.o. er einungis að marka slíkar skoðanakannanir ef efni þeirra eru þeim í hag, en annars alls ekki.

Kv.

Hjörtu
Með kveðju,