Aðskiljum veiðar og vinnslu
og skildum strandveiðiflotann til löndunar alls afla til íslenskra ferskfiskmarkaða.

Flokksmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks styðja núverandi kvótakerfi. Til allrar lukku og guðs lofaða mildi er fólk farið að átta sig á mesta óréttlæti Íslandssögunnar. Áðurnefndir aðilar hafa lystilega reynt að slá ryki í augu almennings svo árum skiptir. Nú er svo komið að blindur maðurinn heyrir í þeirri angist sem fiskveiðistjórnunarkerfið hefur kallað yfir okkur.

Hér á eftir eru færð rök fyrir einum málaflokki innan nýs fiskveiðistjórnunarkerfis sem Frjálslyndi flokkurinn mun kynna á nýju ári. Aðrir flokkar í stjórnarandstöðunni eru ekki með útfærða aðferðarfræði samhliða stefnum sínum um fyrningar- og uppboðsleið í sjávarútvegi. Þar skilur að.

Frjálslyndi flokkurinn vill m.a. aðskilja veiðar og vinnslu ;
Af hverju ?

a)
Til að tryggja réttlát kjör sjómanna. Útgerðin getur ekki samið við vinnsluna um verð á hráefni og gert upp við sjómanninn með þeim hætti eins og er í dag. Heldur fá sjómenn til skiptanna frá því markaðverði og magni sem um ræðir í hvert skipti fyrir sig. Þetta tryggir jöfnuð á grundvelli kjara meðal sjómanna. Í núverandi kerfi fækkar sjómannsstörfum til hagræðingar fyrir stórar fyrirtækjablokkir. Eftir standa góðir sjómenn sem ekki hafa í góð störf að venda. Nú þegar ber Sjómannaskóli Íslands þess merki með örfáum nemendum.

b)
Fiskvinnslufyrirtækjum án útgerðar er gert jafn hátt undir höfði með aðskilnaði veiða og vinnslu. Ákveðin sérhæfing verður atvinnugreininni til framdráttar. Hvatinn og drifkrafturinn í heilbrigðri samkeppni mun leiða til enn frekari vöruþróunar og enn frekari sigra í markaðsmálum. Fiskvinnslufyrirtæki sem verða ofan á í þessari baráttu og skila þokkalegum hagnaði geta þakkað bæði góðri framleiðslustjórnun og innri hagræðingu í umhverfi þar sem fólk hefur valið um að starfa í greininni eður ei. Þeir sem ekki hafa áhugann hasla sér völl á öðrum sviðum. Umfram allt er um kerfi að ræða sem hyglir jöfnum tækifærum, réttlátri samkeppni og drifkrafti einstaklingsins. Okkar nýja leið bíður ungan manninn velkomin/n í greinina. Fiskvinnsluskólinn starfar ekki lengur, hann var lagður niður. Að útiloka nýliðun í grein sem aflar 65% útflutningstekna þjóðarinnar er þegar öllu er á botninn hvolft, ekki eingöngu félagsleg martröð heldur mjög slæm hægræðing. Hleypum ungu fólki að í vinnsluna með því að setja allan fisk á markað.

c)
Útgerðarmaður sem hefur einnig áhuga á að starfa við framleiðslu getur gert það ef vilji er fyrir hendi. Hann engu að síður verður að versla fiskinn á markaði í heilbrigðri samkeppni við önnur fyrirtæki.
Uppsetning sóknarkerfisins þar sem uppboð fer fram á dögum tryggir góða meðferð aflans og útilokar brottkast. Fiskvinnslumenn þekkja báta í sundur enda eru nöfn báta tekin fram þegar uppboð á sér stað á lönduðu hráefni. Þannig geta menn keppt um fiskinn sinn og annarra. Ef illa viðrar í þínu plássi getur þú keypt fiskinn annars staðar frá svo lengi sem þú stenst heilbrigða samkeppni. Í dag erum við Íslendingar vanir því að sama fólkið eigi alla skapaða hluti. Hér á Íslandi er lokaður viðskiptahringur í sjávarútvegi. Rætur þessa er að rekja til kvótakerfisins og eignarhlutar sömu fyrirtækjanna í vinnslunni og á veiðunum. Það er höfuðatriði að allur fiskur fari á markað. Þannig verður greinin sýnileg öllum Íslendingum. Greinin verður sýnileg embættismönnum þjóðarinnar en sumir hverjir munu bera þá miklu ábyrgð að stýra sókninni fiskistofnunum til verndar.

d)
Einföldun og skilvirkni á greiðslum útgerðarinnar (fyrir sóknardagana) til ríkis og sveitarfélaga er hyglt með því að setja allan fisk á markað. Afreikningar fiskmarkaðanna munu bera heildarverðmæti á lönduðu hráefni í hvert skipti fyrir sig ásamt frádrætti þess markaðsverðs sem var á sóknardegi í hvert skipti fyrir sig. Með því að láta útgerðina taka afla beint inn í hús flækist til muna sú skilvirkni sem verður að vera á greiðslum fyrir sóknina, almennt eftirlit með sókn og veiddu magni daprast til muna.

Lokaorð
Með því að aðskilja veiðar og vinnslu gerum við ungu fólki kleift að komast inn í framleiðsluna án misréttis. Frjálslyndi flokkurinn hyglir réttlætinu en vill engu að síður drifkraftinn sem fylgir uppboðskerfinu.
Frjálslyndi flokkurinn er eini stjórnmálaflokkur landsins sem ekki geymir kvótagreifa innanborðs. Þau 4,2% landsmanna sem kusu flokkinn síðast munu kjósa flokkin aftur. Við ætlum okkur að ná 3-4% til viðbótar. Það er mín spá að Frjálslyndi flokkurinn muni verða í oddastöðu við myndun nýrrar ríkisstjórnar í vor.
Undirritaður treystir engum flokk betur með stjórn sjávarútvegsmála en Frjálslynda flokknum. Frjálslyndi flokkurinn hefur innan sinna raða fiskifræðinga, skipstjóra, fiskverkunarfólk, sjómenn, fiskútflytjendur, viðskiptafræðinga, lögfræðinga og svo má lengi telja. Umfram allt er að ræða hugsjónarfólk sem vill jöfn tækifæri, réttlæti og útrýmingu spillingar í okkar landi. Það vantar fólk með þekkingu á sjávarútvegi á þing. Frjálslyndi flokkurinn er orðið stjórnmálaafl sem vert er að styðja. Kjósum X-F í vor.

Þakka þeim sem lásu.
Gunnar Örn Örlygsson
Formaður Ungra Frjálslyndra