Nú er þingið komið saman og kosningabaráttan að komast á fullt skrið. Flokkarnir eru byrjaðir að kynna sín málefni og hvað þeir vilja að verði í ummræðunni í kosningabaráttunni. Sjálfstæðisflokkurinn vill að viðhalda stöðugleikanum og aukið frelsi, Framsókn leggur áherslu á að stóryðjan fyrir austan komi allri þjóðinni til góða, Samfylkingin vill fá evrópumálin á dagskrá, vinstri grænir tala aðalega um umhverfis- og utanríkismál og Frjálslyndir vilja breytt fiskveiðistjórnunarkerfi.
Þar sem eini raunverulegi möguleiki okkar til að hafa áhrif á ákvarðanatöku þjóðarinnar eru kosningar á 4. ára fresti verðum við að velja einn af þessum pökkum sem flokkarnir leggja fyrir okkur en það er oft á tíðum ekki létt val og hver og einn tekur ákvörðun út frá eigin hagsmunum.
Segjum sem svo að ég vilji alls ekki virkja á Kárahnjúkum og að ég sé búin að berjast mikið fyrir því og mætt niður á Austurvöll á hverjum degi í allan vetur, en aftur á móti er ég hræddur um eigið öryggi eftir 11. september og vill alls ekki að herinn fari héðan.
Vinstri grænir eru eini flokkurinn sem hafa haldið úti gangrýni á Kárahnjúka en eru á móti hernum á Keflavíkurflugvelli og með allt aðra utanríkisstefnu en hinir. Hvað á ég þá að kjósa?
Eg verð í raun og veru að vega og meta hvort ég eigi að kjósa um eigið öryggi eða náttúru Íslands. Einnig gæti ég verið á móti núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi en treysti Davið Oddsyni best til að stjórna landinu od ákveð því að kjósa sjálfstæðisflokkinn. Er ég þá ekki að kjósa gegn breytingum í sjávarútvegi með því að kjósa þá en ekki Frjálslynda?
Ég held einfaldlega að það sé komin tími til að leyfa fólkinu í landinu gefa sitt álit á mikilvægustu málefnum þjóðarinnar. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru sumstaðar í heiminum viðhafðar um hin ýmsu málefni. Í Sviss eru þær t.d. mjög algengar (stundum í hverri viku) þar sem kosið er um alla mögulega og ómögulega hluti. Þar hefur þetta aftur á móti gengið allt of langt og áhugi á þeim minnkað mikið vegna hversu mikið er af þeim og þáttaka því lítil. Þegar svo er komið er það auðvitað skynsamara að láta fulltrúa okkar á alþingi, sem eru kosnir af meirihlutanum, taka þessa ákvörðun fyrir okkur. En ef við kjósum aðeins um mikilvægustu málin ætti að geta verið góð þátttaka því þarna getum við haft raunveruleg áhrif málefni sem skipta þjóðinni einhverju máli.
Þess vegna vil ég fá Þjóðaratkvæiagreiðslu um Kárahnjúka, sjávarútvegin, ESB en ekki bara hvar einhver flugvöllur eigi að vera eftir 20 ár.