Það hefur verið í nokkru mæli gangi sú umræða að það beri að afnema virðisaukaskatt á barnafötum eins og tíðkast í nokkrum löndum sem við gjarnan berum okkur saman við, til hagsbóta fyrir barnafjölskyldur.
Mér var sagt að staðreyndin væri sú að á móti kæmi á Íslandi svokallaðar barnabætur sem væru ekki til staðar í þessum löndum.
Þótt ég viti ef til vill ekki mikið um málefnið þá verð ég að segja að mér þykir svona hlunnindi skömminni skárri en bótagreiðslur.

Ég er nefnilega alfarið á móti barnabótum og bara peningagreiðslum frá ríkinu á allan hátt, ég tel það ekki hlutverk ríkisins að hafa einstaklingin á spenum sínum að neinu leiti, það sé að sjálfsögðu einstaklingsins að sjá um sig sjálfur. Eru peningarnir sem þú fær borgað frá ríkinu ekki þeir sömu og þeir sem þú borgar til ríkisins: Væri ekki nær að hafa skattana lægri?
Mér þykir þetta kolröng hugmyndafræði: hver er tilgangurinn? Það er vitlaust farið að málunum tvímælalaust ef fólk heldur að það leiði til jafnaðar að ríki eigi hlutdeild í uppihald heimilisins. Þar sem barnabætur eru látnar jafnar yfir alla ganga þætti ýmsum kannski að hér sé verið að hlynna þeim sem eru launaminni á móti launahærri einstaklingum. Það er náttúrulega vitað mál að fjölskylda með fjögur börn lifir ekki af með hundrað og fimmtíu þúsund krónur í mánaðartekjur; en er það svona sem á hjálpa þeim? Vilja þau fá peninga fyrir uppihaldi frá ríkinu. Segjum að barnabætur væru ekki til staðar, yrðu þá fjölskyldur á Íslandi sem sveltu? Nei, auðvitað ekki, því um leið og þú getur ekki lengur lifað á laununum þínum þá þýðir ekkert fyrir þig að halda vinnunni. Það þýddi þá þegar á heildina yrði litið að heilu hópar fólks þyrftu að skipta um vinnu þannig að sums staðar yrði of mikið af vinnuafli og annarstaðar óhjákvæmilega oflítið. Það ríkti ekki stöðugleiki á vinnumarkaðnum og það mynd enda með því að vinnuveitendur yrðu tilneyddir að hækka launin svo fólk gæti í það minnsta skrimt.
En ég þekki ágætlega bæði til fólks sem eru launþegar og líka þeirra sem reyna a’ stand í eigin rekstri og veit vel að hagur þeirra er síst betri og yrði erfitt að halda fyrirtækinu réttu megin við strikið ef launin hækkuðu meira, jafnvel á þeim lúsarlaunum sem þau eru að borga núna gengur dæmið varla upp. S.s. það eru ekki allir vinnuveitendur í stakk búnir til að hækka launin. En hvað með alla peninganna sem yrðu til: spöruðust í þjóðarbúinu við afnám barnabóta? Þeir hverfa ekki…. Það yrði lítið mál að nota þann sparnað til þess að lækka þá okurskatta sem íþyngja fyrirtækjum og heimilum í dag þess valdandi að ráðstöfunarfé ykist.
En af hverju að ráðast í svona umfangsmiklar breytingar þegar kerfið virðist virka fínt eins og það er í dag?
Þetta er spurning um hugmyndafræði: Jú það hljómar vissulega léttara að taka bara peninganna frá þeim ríku og dreifa þeim til þeirra fátæku.

Öll sú jafnaðarhugsjón er vitanlega kolvitlaus og sú hugmynd Hróar Hattar og Jóhönnu Sigurðardóttur um að hinu ríku mættu hvort eð er alveg missa smá til hagsbóta fyrir smælingjana snýst upp í andhverfu sína. Er það jöfnuður að mismuna fólki eftir hversu farsælt það er? Ber ekki að leyfa mönnum að njóta ávaxta erfiði síns? Er ekki ástæða fyrir því hverjir eru farsælir og hverjir ekki.
Ef fólk fengi ekki að njóta ávaxta síns erfiði síns þá legði það sig ekki fram: það sæi ekki ástæðu til þess þegar niðurstaðan yrði sú að þau þyrftu að dúsa í sama miðjumoðinu og hinir. Afrakstur afreksfólks yrði miðjumoð eða jafnvel engin. Hvatinn til framfara yrði ekki lengur til staðar. Það er hægt að setja þetta fram sem lögmál:
Afrakstur manns er í hlutfalli við þá umbun sem hann telur sig hljóta.

Ef manni yrði aldrei umbunað fyrir framfarir og afburðar afrakstur væri ekki nein ástæða til að leggja það á sig. Þetta segir sig sjálft: þú vinnur aldrei meira en þú færð borgað.

Í kapitalísku þjóðfélagi er fólki umbunað (með hugsanlegu ríkidæmi) og er það einmitt drifkraftur framfara, drifkraftur mannlegra umgengi, drifkraftur mannlegra samskipta, drifkraftur þjóðfélagsins. Og þótt að kerfið sé meingallað þannig þá er það nú besta sem hefur komið fram hingað til, alla vegna hefur viðlíka hagsæld almennings aldrei fyrr verið staðreynd í mannkynssögunni.

Kerfið er gallað já. Og gallinn er svo augljós að mörgum vex hann í augum og sjá ekki kostina. Og hann er sá að fólk hefur ekki sömu tækifæri! Því eins og börn fæðast hvít blöð, ekkert betra en annað, hljóta þau að eiga sama rétt til tækifæra.
En það sér sér engin hagnað í því að veita öllum sömu tækifæri.

En um það snýst ríkið! Ekki um að mismuna fólki með bótagreiðslum eða að vantreysta dómgreind fólks til að sjá um sig sjálft heldur um að vera birtingarmynd samfélagsins í heild sinni til þess að viðhalda þeirri viðleitni sem er nauðsynleg en engin einstaklingur gæti séð sér hag í og það er að skapa öllum sömu tækifæri.

Með því að reka skólakerfi: þannig að alir hafi sama aðgang að grunnmenntun, með rekstri sjúkrahúsa svo fólk hafi sama grundvöll til tækifæra í heilbrigðum líkama, í löggæslu til þess að skapa ákveðin ramma til athafna þar sem öllum er jafn frjálst að athafna sig án þess að þurfa að standa verr að vígi en annar o.s.frv.

Það er ekki í verkahring ríkisins að viðhalda menningu eða halda uppi einstaklingum, samfélagið á að ganga eins og smurð vél án hjálpar þar sem fólk hefur tækifæri á launum í samræmi við framboð á vinnuafli og hlutir sem engin eftirspurn er eftir eiga ekki rétt á sér.

Ef fólk les ekki bækur eftir ákveðna rithöfunda eða líkar ekki við myndir eftir ákveðna málara verða þeir aðilar að sætta sig við það, þú þröngvar ekki menningunni upp á fólkið því þá er hún orðin tilgangslaus og ef þú kemst ekki af án bóta eða greiðslna frá ríkinu er greinilegt að þitt framlag er ekki þess virði að það sé eftirspurn eftir því þar sem það skiptir máli: hjá almenningi. Og ef fólk kýs að hætta að borða lambakjöt þá hljóta virðulegir kindabændur og landbúnaðarráðherra að fara að snúa sér að einhverju öðru.

Þessi grein varð víst minnst um barnabætur þegar upp var staðið heldur meira um hlutverk ríkisins, en þetta tengist allt og má sjá að barnabætur eru eitt af því sem ég tel ekki hluta af hlutverki ríkisins : )

nologo
…hefur ekkert að fela