Það var dimmt og kalt vetrarkvöld. Ég sté af fáki mínum við kránna og snaraðist inn um dyrnar. Inni var undarleg lýsing, sem skar í augun. Þar inni var alls skyns fólk, menn sátu að sumbli og konur hlógu smeðjulega að bröndurum þeirra. En ég var hingað ekki kominn til að sitja og drekka, heldur átti ég hér stefnumót. Stefnumót við undarlega menn, sem höfðu sett sig í samband við mig fyrr í þessu hnígandi tungli. Ég leit yfir barinn. Ég var með aðra hendina í vasanum og hélt um sinkblöndu, albúinn ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis. Það er nefnilega aldrei of varlega farið. Loks kom ég auga á þá sem ég átti að hitta. Þeir sátu útí myrku horni og litu illúðugir út. Ég gekk að borðinu og sagði hátt og skýrt:

Er það hér sem það á að stofna spunaspilsfélag?

Þannig var það nú, eða svona hér um bil, hvernig við, nokkrir spunaspilssjúklingar(sem í daglegu tali eru kallaðir nördar, en þar sem sú skilgreining hefur farið eitthvað á flug, sökum mikillar tölvuvæðingar landsmanna, þá er sjúklingar meira við hæfi) hittumst og ræddum um endurrisu, endurlífgun (reincarnation, resurrection sem eru 6. og 7. levels galdrar ef ég man rétt) á spilafélaginu Fáfni (en því miður er enginn okkar á nógu háu leveli sem prestur er drúíði, þannig að við gátum ekki bara gert þetta í hvelli!).

Það sem helst var rædd á fundinum, fyrir utan augljósan nörda…fyrirgefið, sjúklingaskap, var hvernig væri hægt að gera spilafélagið virkara og sýnilegra. Það er ljóst að á meðan félagið liggur í dvala gerist ósköp lítið í hinum margbreytilegu heimum spunaspila, en þó aðallega því er snýr að okkur öllum, mót og slíkt.

Mætir á fundinn voru Vargur, þekktur bardagamunkur sem hefur sérhæft sig í austurlenskum hálstökum og fingurbrjótum; Sivar, Conan hópsins, síðhærður með gullna lokka og olíuborinn vöðvastæltan líkama; Steiner, vitkinn og forvígismaður hópsins, hugsuður mikill enda með fjögur augu, og síðan ég, Tmar, skáld og farandsöngvari, er syngja mun óða og ballöður um frægð og frama þessa hóps. Þó vantaði Bj0rn, en mamma hans vildi ekki leyfa honum að koma út að leika.

Á þessum fyrsta fundi var félagið endurvakið og fyrsta ákvörðun nýkjörinnar stjórnar var að huga að uppsetningu vefs, þar sem meðlimir félagsins gætu komið og átt góða stund saman. Síðuna skyldi nota til að setja upp tilkynningar, td. vegna spilakvölda (sjá síðar) auk þess sem að ‘einkamáladálkar’ gætu verið uppi, þar sem einmana spilarar gætu augljóst eftir hópkynl….nei, spilahópum.

Önnur ákvörðun nýrrar stjórnar var að endurvekja gömlu félagsskírteinin. Slíkt var við lýði fyrir allmörgum árum, eins og gamlir spilarar eflaust muna, og voru þau til margs brúkleg. Þau veittu handhafa sínum 10% afslátt í Nexus og á Pizzahúsinu, en ákveðið var að hefjast handa við undirbúning á slíkum skírteinum. Þau myndu auk þess veita handhöfum sínum afslátt á mót og spilakvöld.

Þriðja ákvörðun nýrrar stjórnar var að reyna koma á fót spilakvöldum niður í spilasal Nexus, en stífar samningaviðræður við hinn dökka og illa svartagaldursmeistara Gísla fara senn að hefjast. Sniðið á þeim yrði með því móti að auglýstir yrðu stjórnendur en síðan myndi kosta örfáa hundrað kalla að vera með, ekkert um of….ekkert eins og fimmtíu gullpeninga, meira svona fimm.

Fjórða ákvörðunin var að hittast á nýjan leik upp úr miðjum janúarmánuði og stíga næsta skref. Sem er að koma síðunni í gagnið og reyna að skipuleggja spilamót, sem er áætlað að halda upp úr miðjum mánuði febrúar.

Þar með lauk þessu dularfulla stefnumóti og allir héldum við út í myrka nóttina, hver til síns heima…ég í forgotten realm, sívar í cthulu, vargur í Landoir og steiner í BT!

Þat hefr Tmar rítat og giort kunt!