Petya labbaði hægt niður brakandi stigann sem lá upp að dyrum Kravins heitins. Hann skimaði vel í kring um sig til að fullvissa sig um að nærstaddir hefðu ekki tekið eftir látunum sem hlutu að hafa fylgt flugeldasýningunni sem hann hafði óviljandi staðið fyrir. Þegar hann var kominn hálfa leiðina niður stigann varð honum fyrst ljóst hversu alvarlegt málið var. Hann var engu nær um hvað það var sem bróðir eða vofan hans eða hvað'annnúerannars ætlaðist til af honum. Eini tengiliður hans hafði ráðist á hann og lá nú grillaður á gólfinu á þessari svínastíu sem hann var að koma frá. “Hvað gera álfar nú?” muldraði hann með sjálfum sér. Hey bíddu…skrínið…boxið sem Kravin var með. Hann hljóp aftur upp og óð inn að leita en skrínið sem hafði svipað mjög til skrínisins sem hann hafði fengið sent frá Firan var brunnið til kaldra kola.

Hann flýtti sér aftur út og niður á götu og vippaði sér upp á reiðskjóta sinn. Nökkvi vatt upp á hálsinn, hnusaði tvisvar af “nýjum” fatakostum Petya, gretti sig og starði hrossalega móðgaður á meistara sinn. “Góður punktur.” sagði Petya við folann og tók stefnuna á næsta skraddara.

Hálfri klukkustund seinna var Petya ríðandi burt frá borgahliði Mirros í nýjum látlausum borgaraklæðum. Hann var búin að ákveða að ríða hálfa leiðina aftur til Rifllian og koma sér upp góðum hlýjum varðeld djúpt í skóglendinu þar og hugsa sín mál. Hann hafði algjörlega klúðrað þessu einfalda verkefni sem Firan bað hann að vinna og var ekki viss um hver næstu skref yrðu. Hann var svo sem vanur hæfilegu stefnuleysi en hann vildi ólmur hjálpa bróðir sínum, bæði vegna væntumþykju svo og forvitni.

Á leiðinni velti hann fyrir sér átökum sínum við Kravin. Hvað hafði þessi ógeðfeldi galdramaður gert honum? Einhvernvegin hafði hann sogið úr honum allan kraft, sem betur fer tímabundið, en hafði hann þá óvart flutt sinn eigin töfrakraft í Petya? Það var eina útskýringin á því hvað Petya hafði gert sér til varnar. En nú var Petya kominn aftur í sitt fyrra horf og ætti því einnig að vera laus við krafta Kravins en hann fann enn vott af þessu skringilega fiðringi sem flæddi yfir hann þegar hann framdi þessar særingar. Gæti verið að hann sæti uppi með töfra Kravins fyrst hann dó áður en bölvunin rann sitt skeið?

Það var líka eitt annað sem angraði hann. Eitthvað sem hann gat engan vegin útskýrt. Þegar hann fór með þuluna sem breytti puttunum hans í pínu litla eldspúandi dreka hafði hann fundið skógarilm í gegnum allan óþefinn í greni Kravins. Þessi lykt kom hinsvegar ekki frá umhverfinu. Hún kom að innan. Eitthvað úr minningunni. Einhver nostalgía. En eina skiptið sem Petya hafði fundið þessa lykt áður var í skógum Álfheima þegar hann aðstoðaði þar við enduruppbyggingu landsins eftir stríðið. Töfrandi samblanda af eik, beyki, rauðvið, hlyn og mosa. Það var líka eitthvað fleira. Einhverjar fleiri hugsanir, tilfinningar og minningar sem ræsktu sig þegar Petya galdraði. Myndir og nöfn og staðir sem voru rétt handan sjóndeildarhrings huga hans. Hann þurfti alvarlega að setjast niður í ró og næði og hugleiða þetta allt saman. Safna saman brotunum og ná einbeitningu. Hugur hans, áður alltaf svo einfaldur og skýr var uppfullur af einhverjum ókunnugum en samt svo kunnuglegum hlutum. Petya fannst hann vera týndur í hausnum á einhverjum öðrum og var engan veginn að fíla það.

Álfurinn lokaði augunum og lét svala miðdegis goluna leika um andlitið. Heiðskýrar myndir af ævintýralegu skóglendi Álfheima komu upp í huga hans. Full-laufgaðar trjágreinarnar teigðu sig yfir hann í huganum eins og þær væru að halda verndarhendi yfir honum. Sólargeislarnir skinu í gegnum laufin og féllu á mosagróið skógargólfið. Honum fannst hann liggja í lágu grasinu í opinni lautu í skóginum og baðaði sig í geislum sólarinnar. “Vanar!” var kallað út úr skóginum. “Vanar, ertu kominn?” var kallað aftur og lítill álfasmáði kom hlaupandi inn í rjóðrið eins hratt og litlir fæturnir réðu við. Hann var rétt orðinn eins áratugs gamall og fleygði sér móður og másandi, rjóður í kinnum við hlið Petya í rjóðrinu. Hann dró á eftir sér þunnan en breiðan mjög veðraðan eikarkassa sem var næstum jafn langur og hann sjálfur. “Ég fann'ann!” lýsti hann yfir glóandi af stolti. “Reddaðirðu mínu?” spurði hann spenntur. Petya teygði sig eftir óeðlilega stuttum löppum (“er ég tíu ára eða..?”) vinstri skónum sínum, klæddi sig úr honum og dró samanbrotið og nú niður traðkaðan bréfsnepil úr skónum og vippaði til álfastráksins. “OOOOooooooojjjííííí….táfíla!!” sagði hann og fetti upp á trýnið. “Hey, ég gat falið þetta þarna eða á milli rasskinnanna” svaraði Petya móðgaður með skrækri barnalegri röddu og rak nefið ofan í skóinn til að athuga hvort hann lyktaði nokkuð svo illa. Þremur sekúndum seinna var hann búinn að fleygja báðum skónum inn í skóginn og teygði úr tánum í grasinu. Hann naut þess hvort eð er miklu betur að vera berfættur. “Jæja? Var þetta ekki rétt skjal?” spurði hann álfasnáðann. Drengurinn sem var íklæddur hefðbundnum skógarálfa hversdags buxum og hálf opinni stutterma skyrtu strauk kastaníubrúnt, eyrnasítt hárið frá lauf-grænum augunum og starði á skjalið sem hann var búinn að fletja út á grasið og muldraði eitthvað fyrir munni sér einbeittur á svip. Skömmu síðar leit hann upp skælbrosandi með prakkaraglampa í augunum og sagði “Ójú, þetta er það.”. Petya sá nú fyrst almennilega framan í drenginn og…

“FIRAN???”. Petya spennti upp augun gapandi. Nökkvi skeytti engu um uppköll farþega sín heldur hneggjaði hraustlega á móti og tölti áfram sína leið. Hann var búinn að sjá sjálfur um ferðina héðan af og var ekkert á þeim hófunum að leifa Petya að fara eitthvað að skipta sér af úr því sem komið var. Petya var hinsvegar alls ekkert umhugsað um reiðskjótan sinn, hann vissi að hann gat treyst Nökkva til að ríða rétta leið eftir veginum hvort sem hann héldi í stjórntaumana eður ei. Petya var að hugsa um litla álfadrenginn sem hann hafði séð í huganum. Petya var að hugsa um minningarnar sem hann vissi ekki að hann hefði. Petya var að hugsa um minningar sem höfðu verið týndar í aldarfjórðung en óðu nú óumbeðnar um huga hans eins og hann væri að horfa á leikrit. Hann þorði varla að anda af ótta við að missa ímyndirnar úr huga sér aftur. Hann lokaði augunum og reyndi að sjá aftur fyrir sér bróðir sinn, þrettán ára í rjóðrinu, og leyfði myndunum að flæða yfir sig.

Á skjalinu sem Petya hafði “reddað” fyrir Firan vafði verið ritaður galdur. Mjög einföld byrjenda loftsæring sem fólst í því að mynda og stjórna ískristöllum í lofti. Með því móti gat töframaðurinn kælt og/eða fryst smáhluti eða jafnvel búið til litlar hárbeittar ísnálar upp úr þurru og skotið þeim á ágætis hraða í átt að einhverju skotmarki. Í kassanum sem Firan hafði “reddað” fyrir Petya í skiptum var gamall og lúinn en vel nothæfur bogi og nokkrar örvar, bæði æfinga örvar með sljóum trjáoddi svo og tvær alvöru stríðsörvar með beittum stáloddum. Bræðrunum tveimur var stranglega bannað eins og öðrum álfabörnum að leika sér með hvers kyns vopn og galdra. Slík “fullorðinna álfa” tól máttu ungir álfar eingöngu byrja að meðhöndla þegar þeir höfðu öðlast nægan þroska og aga til að verða sér og öðrum ekki til ama. Petya mundi ekki nákvæmlega hvernig þeir hefðu “redda” hvor öðrum þessum hlutum en hann rámaði í að þeir bræðurnir hefðu staðið að stofnum Gríffona-klúbbsins sem var hópur smástráka og einstaka stelpna sem komu sér upp “svörtum markaði” með dóterí sem bannað var “litlum álfum”. Þau meira að segja gengu svo langt að halda skipulagða fundi og æfingar þar sem þau kenndu hvort öðru á það sem þau höfðu verið að fikta í. Petya kitlaði í maga af kátínu við tilhugsunina af prakkaraskapnum sem þeir höfðu staðið fyrir í æsku bræðurnir en sárnaði líka pínulítið að hann skuli hafa getað gleymt þessu.

Á næstu klukkutímum fletti Petya í gegnum minningu eftir minningu og honum leið eins og þessar minningar hafi alltaf verið þarna í hausnum á honum þó svo hann vissi betur og hefði leita margra náttúrulegar og ónáttúrulegra leiða til að komast að fortíð sinni. Eitt þótti honum þó furðulegt og það var að hann virtist bara geta flett í minningum um hann og bróður sinn á unglings árum. Hann mundi enn ekkert eftir móður sinni og föður. Allar minningarnar vor líka glaðværar og ánægjulega en engar hversdaglegar eða sorglegar. “Líf mitt hefur varla verið sælan ein?” hugsaði hann. En verst þótti honum þó að muna heldur ekki eftir því hvernig hann missti minnið til að byrja með. “Þetta hlýtur að koma svona hægt og rólega, góðu hlutirnir fyrst, hitt þegar líður á.”

Sólin var löngu sest þegar Petya opnaði augun aftur og reif sig með herkjum aftur til líðandi stundar. Hann stökk af baki og byrjaði að teyma Nökkva inn í greniþykkni skammt utan vegar. Eftir um hálfrar stuna göngu inn í myrkan skóginn tjóðraði hann Nökkva við tré, tók hafrapoka upp úr hliðartöskunni sem sveipuð var yfir hrossið, opnaði hann og bauð félaga sínum að gjöra svo vel. Sjálfur byrjaði hann að hlaða lítið eldstæði til að halda aftur af versta miðnæturkuldanum. Þegar eldstæðið var tilbúið og nóg af þurrum sprekum komið í það datt honum í hug að prófa svolítið. Hann hélt út hendinni með lófann niður og beindi öllum puttunum í átt að eldiviðnum. Hann hugsaði sig aðeins um og ákvað svo að beina bara einum putta í áttina af eldstæðinu sem átti sér einskils ills von. “Og hvað svo?” sagði hann við sjálfan sig. “Hvað sagði ég nú aftur? EEeeeeh….eldur!…”. Nökkvi leit sem snöggvast til meistara síns með “svona sviiip”, hneggjaði og hristi faxið letilega. Petya leið allt í eina voðalega apalega eitthvað. “Verði eldur!…Kveikja í…BRENN!!…BÚMM!…Hókus pó…nei andskotinn!” Fimm mínútum seinna lá nýnotaður tinnusteinn og stálskífa við hliðina á glatt logandi eldstæðinu og Petya sat upp við tré að maula á þurrkuðum ávöxtum.

Eftir að hafa étið nægju sína í bili og starað í gegnum grenitoppana á stjörnurnar í dágóða stund og notið þess að hugsa um ekki neitt flaug ofur einföld hugmynd inn í huga Petya. Firan hafði eitthvað minnst á að skrínið sem hann hafði sent Petya væri lykillinn af því að hafa samband við hann. Petya stökk á fætur og sótti litla boxið í hliðartöskurnar á Nökkva og tók þær af honum í leiðinni svo og hnakkinn til að létta á honum og hvíla þar sem hrossið virtist vera á góðri leið með að sofna. Petya fannst alltaf jafn fyndið að sjá hross sofa standandi þó Nökkvi ætti það nú til að krjúpa niður í grasið og lúlla ef vel lá á honum.

Petya vissi að skrínið var tómt svo hann byrjaði á að skoða það í bak of fyrir að utan en varð engu nær. Þegar hann opnaði skrínið sá hann hins vegar að innan í því á botninum voru ritaðar rúnir sem hann hafði ekki tekið eftir, nei, ekki SÉÐ áður. Þær voru ekki ristar í viðinn heldur virtust vera skrifaðar með einhverskonar létt-glóandi hálf-bláu bleki, ef blek skyldi kalla. Það sem vakti mesta furðu hjá Petya var hinsvegar sú staðreynd að þó hann mundi ekki eftir að hafa séð slíkar rúnir áður, skildi hann hverja einustu og gat lesið þær reiprennandi. Petya las það sem þarna stóð í hljóði í huganum og orðin og hljóðin voru honum ekki bara vel kunnug heldur vissi hann einhvernvegin nákvæmlega hvað myndi gerast þegar hann þuldi þær upp, hvers vegna það myndi gerast og hvernig það myndi gerast. Skrítið miðað við vægast sagt aumkunarverða tilraun hans áður til að kveikja eld. “Hmm…hentugur hæfileiki.” hugsaði hann með sér og kallaði svo út í nóttina særingarorðin sem myndu leysa úr læðingi orkuna sem í boxinu bjó.