Tíndu tárin, 1. hluti af ?

Petya horfði í kring um sig aftur. Hægt og rólega drakk hann umhverfið í sig, eitt smáatriði í einu uns hann var búinn að snúa sér í heilan hring og skoða landslagið allt í kring um sig í annað sinn. Það dugði ekki til. Hann trúði ennþá ekki eigin augum.

Að einu atriði slepptu var umhverfið frekar venjulegt. Hann stóð í djúpu dalsmynni með fjallgarða á allar hliðar utan einnar þar sem víðáttumikil fjara tók við og svo sjór svo langt sem augað eygði. Sólin skein á tiltölulega skýlitlum himni. Dalurinn var gróðursæll og Petya stóð í hné háu villigresi og á víð og dreif voru kjarrlendisblettir og grenitré stóðu í stórum þéttum hópum á nokkrum stöðum. Fuglar svifu um himininn og sungu til bræðra sinna og einn og einn héri sást skjóta upp kollinum úr háu grasinu, líta forvitnilega í kring um sig og hverfa aftur. Það eina sem gerði þetta ósköp eðlilega umhverfi svo óeðlilega ótrúlegt var sú staðreynd að það var allt snjóhvítt.

Himininn, fjöllin, grasið, trén, fuglarnir, jafnvel sólin sjálf allt eins hvítt og nýfallin fönn. Allt virtist samt sem áður hafa mismunandi hvítan blæ svo öll smáatriði sem voru bara sjáanleg venjulega með hjálp mismunandi lita voru vel greinanleg. Himininn var nánast jafn hvítur og skýin en Petya gat samt séð þau jafn auðveldlega og ef himininn hefði verið fagur blár. Hvít sólin var björt og hlý og stakk jafn mikið í augun og sú gula sem Petya var vanur og hún sáði hvítum geislum yfir tré og runna sem vörpuðu hvítum skuggum á graslendið undir sér. Petya sjálfur var meira að segja gjörsamlega litlaus frá toppi til táar.

Ef ekki væri fyrir turninn innst í dalnum hefði Petya einfaldlega haldið að hann væri orðinn litblindur eða galinn. Sá möguleiki var náttúrulega fyrir hendi að hann hefði misst vitið en honum fannst líklegra að ef hann væri loksins orðinn bilaður, eins og hann hafði lengi óttast að hann yrði á endanum, þá myndi brenglaður hugur hans svipta öllu lit en ekki öllu nema þessum eina turni. Turninn var að minnsta kosti tuttugu hæða hár miðað við gluggana sem á honum voru með jöfnu millibili. Hann var breiðastur neðst, á að giska 20-30 metrar í þvermál en mjókkaði eftir því sem ofar dró og efst gat hann varla verið meira en 6-7 metrar í þvermál. Á efstu hæðinni voru stórar hringsvalir og þakið líktist einna helst afskræmdum klóm sem teigðu sig löngunarlega til himins. Turninn var grófur og hrjúfur og virtist sem misstór horn eða bogin spjót einhverskonar stæðu mislangt út úr honum á víð og dreif. Turninn var alveg út úr kortinu í þessu fallega, þó bókstaflega litlausa, umhverfi. Hann var allur hinn drungalegasti á að líta og var það eina í þessum furðulega dal sem gat státað að einhverskonar lit.

Turninn virtist vera búinn til úr mjög hrjúfum dökkum, nær svörtum málmi og var alsettur brúnrauðum ryðtaumum á ýmsum stöðum eins og undir gluggum, við innganginn og upp við svalirnar. Hornin sem sköguðu út úr turninum voru rauð og virtist eins og rauði liturinn hefði dropið eftir með hornunum niður turninn sjálfan. Petya fannst þetta óþægilega líkt því að hornin væru blóði drypin.

Því lengra sem Petya horfði á turninn því meira fékk hann það á tilfinninguna að turninn væri að stara á hann á móti. Það var eitthvað við turninn sem fékk hann til að hugsa um hann sem lífveru frekar en byggingu. Honum fannst eins og turninn titraði af veiku lífi, eins og deyjandi gamalmenni. Petya fannst eins og turninn væri að anda, hægt og rólega, inn og út og með hverjum andardrættinum þandist hann út og dróst aftur saman, smitandi nánasta umhverfi sitt tímabundið með drungalegum litum sínum.

En þetta var allt saman í hausnum á honum og hann vissi það. Turninn var hvorki að anda né tútna út og dragast saman. Hann stóð bara þarna inn á milli snjó hvíts landslagsins og beið óendanlega þolinmóður. Beið eftir hverju vissi Petya hinsvegar ekki en það læddist að honum ískyggilegur grunur að turninn væri að bíða einmitt eftir honum.

Petya kallaði reiðilega í átt að turninum “HVAÐ VILTU MÉR?” og rödd hans bergmálaði tómlega um allan dalinn. Hann sleit augunum af turninum og hristi hausinn grimmilega til að reyna að finna einhverja sæmilega skýra hugsun þarna inni í öllum glundroðanum. Hvað var hann annars að gera hérna? Hvernig komst hann nú hingað aftur, hingað í þetta súrrealíska landslag, hingað til þessa ógeðslega turns? Petya mundi ekki eftir að hafa ferðast hingað, að minnsta kosti ekki með hefðbundnum leiðum. Hvað var það seinasta sem hann mundi eftir áður en hann leit upp og sá litlausa dalinn? Eitthvað varðandi Álfheima. Eitthvað varðandi fortíð hans. Fortíðinni sem hann mundi ekki eftir, sem hann gleymdi fyrir svo ofboðslega löngu síðan og þó bara fyrir andartaki síðan á mælikvarða álfa.

Petya var álfur og gat því búist við að lifa í að minnsta kosti góð 7-800 hundruð ár, jafnvel 1000 ár ef hann yrði heppinn og heilbrigður. Langlífi álfa gerði það að verkum að í eðli sínu voru þeir mjög þolinmóðir og rólyndir, tóku sér góðan tíma í allt sem þeir tóku sér fyrir hendur. Það var ósköp eðlilegt fyrir álf að taka sér 10 ár í að gera hlut sem mannvera mundi reyna að klára á hálfu ári. Menn, sem lifðu skemmst af æðri kynstofnunum, eingöngu 100 ár í besta falli, voru alltaf að flýta sér og þutu í gegnum allt sem þeir tóku sér fyrir hendur. Þeir létu alltaf eins og þeir væri að missa af einhverju og í augum venjulegra álfa voru manna borgir eins og iðandi mauraþúfur sem samt sem áður skorti fegurðina sem skipulag og samhæfni maura í maurabúi skapaði. Menn unnu ekki saman eins og maurarnir og hugsuðu mun meira um sjálfan sig en heildina. Álfarnir skildu ekki hversvegna mannlegt samfélag var ekki löngu búið að kollvarpa sjálfu sér í öllum þessum óúthugsaða asa. En borgir manna þrifust vel í konungs- og keisaradæmum þeirra. Álfarnir tóku þessu bara með hefðbundinni ró og fylgdust með frá skógi sínum í Álfheimum og létu mennina bara einfaldlega í friði. Nokkrir framtaksamir álfar stunduðu reyndar viðskipti við menn og seldu þeim munaðarvörur eins og silkiklæði, eðalvín, boga og sverð hönnuð og smíðuð af álfum, hvert vopn fullkomnað í smiðju skapara síns í mörg ár áður en það var lýst tilbúið. En þessir verslunarmenn stoppuðu sjaldan lengi í mannabyggðum enda þoldu fáir álfar streituna sem hraði mannlegs umhverfis skapaði. En Petya var ekki eins og álfar flestir. Petya blómstraði í mannaborgum.

Petya var um það bil 130-140 ára gamall, nýskriðinn í fullorðinna álfa tölu en elsta minning hans var ekki nema nítján ára. Fyrir nítján árum og fjórum mánuðum síðan vaknaði Petya í útjaðri skóga Álfheima við landamæri Karameikos. Hann mundi ekki hvað hann hét. Hann mundi ekki hvaðan hann kom. Hann mundi ekki hver hann var né hvað hann var. Seinna komst hann að því að hann var jú álfur en ekkert af álfa skapgerði og álfa hefðum fyrirfannst í honum. Hann var óskrifuð blaðsíða þegar hann rankaði við sér fyrir þessum nítján árum og hann hafði alist upp með mönnum í þeirra bæjum og borgum allt frá þeim degi og var nú mannlegur í allri hegðan öðrum álfum til mikillar hneisan.

Á ævikvarða álfa var andartak frá því að Petya vaknaði til lífsins minnislaus og allslaus, en á hans mælikvarða var það heil ævi síðan. Öll hans ævi. Meira en öld af minningum og reynslu týnd. Hann hafði verið að leita að uppruna sínum í þrjú ár núna en orðið lítið ágengt. Þangað til í kvöld. Eitthvað gerðist í kvöld. Var kvöld? Petya leit aftur til himins þar sem litlaus sól skein. Hvað gerðist nú aftur? Einhver sending. Pakki. Pakki skilinn eftir fyrir framan hurðina hans. Lítill böggull með kistli. Kistillinn, alveg rétt. Einhver hafði skilið eftir böggul með litlum kistli fyrir framan bæjardyrnar hans. Kistli sem var greinlega hannaður af álfunum. Á kistlinum stóð eitt orð ritað í álfarúnum, “Firan” sem þýddi á álfatungu mikill heitur eldur eða bál.

“Firan” var líka nafn. Nafn sem Petya þekkti. Andlit hans var það eina sem Petya hafði tekist að rifja upp af æsku sinni. Þegar Petya sá Firan í fyrsta skiptið eftir að hafa misst minnið vissi hann umsvifalaust að þetta var bróðir hans. Hann mundi ekkert eftir honum, hvernig hann var, hvað þeir hefðu gert saman, mundi ekkert eftir fjölskyldu sinni eða heimili en hann vissi að þetta var Firan, eldri bróðir hans jafn vel og hann vissi að hann var með tíu fingur.

En hvernig tengdist kistillinn sem Petya fékk í kvöld (af hverju hélt hugur hans því ennþá fram að það væri kvöld) furðulegri stöðu hans núna? Petya fékk pakkann, reif utan af honum, sá kistilinn, las utan á hann, fylltist spenningi, hljóp að skrifborðinu sínu og lagði kistilinn varlega niður…og opnaði hann. Ljós. Hvítt blindandi ljós og svo var hann staddur hér. Alveg rétt.

“Ókei!” sagði Petya út í loftið. “Ókei! Ég skal leika með.” sagði hann við hvíta landslagið og byrjaði að labba rösklega í átt að turninum. Hann fann fyrir kunnuglegri samblöndu af pirringi og strákslegum spenningi. Það voru fimm ár síðan hann hafði lent í einhverju eins spennandi, og hugsanlega eins hættulegu, og þessu og hann saknaði þess dálítið. En nú var hann einn. Félagar hans tveir sem hann hafði gengið í gegnum súrt og sætt með á meðan á stríðinu stóð voru nú fjærri góðu gamni. Hann hafði reyndar ekkert heyrt frá þeim í langan tíma, að nálgast tvö ár. Hann ákvað að leita þá uppi þegar hann losnaði úr þessari litlausu prísund. Þetta var eitthvað sem þeir hefðu gaman að því að heyra.

Petya var djúpt sokkinn í endurminningar þegar næm álfa-augu hans námu hreyfingu fyrir framan hann. Hann var búinn að þramma hálfa leiðina til turnsins og hann virkaði nú mun ógnvænlegri en áður og einhver eða eitthvað var að þramma á móti honum frá turninum. Hann bölvaði sjálfum sér í hljóði fyrir að hafa verið svo tíndur í nostalgíu að hafa ekki verið á varðbergi. Svona sluksaháttur hefði kostað hann og vini hans lífið á stríðsárunum. Þrautþjálfaðar hendur hans höfðu hinsvegar engu gleymt og þutu báðar niður að beltisstað beggja vegna við mjöðm en gripu í tómt. Petya leit niður og hjartað hans byrjaði að hamast er hann gerði sér grein fyrir að hann var bara klæddur í náttsloppinn sem hann hafði verið í þegar hann opnaði kistilinn. Upp að þessu hafði hann ekki haft miklar áhyggjur enda ýmsu vanur og tilfinningar hans aðalega einkennst að forvitnilegum spenningi frekar en hræðslu við þetta ókunnuga umhverfi enn honum stóð ekki á sama að vera vopnlaus. Adrenalín byrjaði að flæða í óþægilega miklu magni um æðar hans og dýrlegar hvatir öskruðu á hann að hlaupa, að bjarga sér. En Petya glotti bara. Hann hafði alveg gleymt þessum hluta ævintýramennskunnar. Þegar frumhvatir eins og hræðsla spretta upp og þykjast ætla að fá einhverju að ráða. Andlega náði hann stjórn á þessari gömlu en kraftmiklu tilfinningu og geymdi hana í kviðnum og undirbjó sig til að breyta henni á örskotsstundu í reiði, jafn gamla, prímitíva og sterka tilfinbingu sem hann gæti svo sleppt lausri út um þjálfaðar hendur. Hann yrði bara að stóla á hnefana ef til þess kæmi. Vonandi að það myndi ekkert fleira koma honum svona að óvörum innan frá honum sjálfum, þurrkaði hann glottið af andlitinu og gekk rösklega og óhræddur á að líta til móts við manninn sem var að nálgast hann.

Jú þetta var karlmaður, svo mikið var víst. Herðabreiður og tignarlegur, íklæddur appelsínugulum og dökk rauðum kufl sem yfir var dreypuð svört skikkja. Það var ekki fyrr en nú að Petya gerði sér grein fyrir því að þessi maður var líka í lit líkt og turninn. Hann var með axlar sítt kastaníubrúnt hár sem sást lafa út um svarta hettu skikkjunnar sem hann var með uppi. Petya gat ekki séð andlitið á honum greinilega, sá bara móta fyrir höku og kjálka við og við en á hökusvipnum á að dæma og fínlegum hreyfingum líkaman mannsins var þarna annar álfur á ferð. Petya pírði augun til að reyna að sjá andlit álfsins inn í skugga hettunnar og eins og álfurinn hefði lesið hugsanir hans lyfti hann höndunum upp að hettunni og dró hana aftur en hélt áfram að labba í átt til Petya. Petya snarstoppaði af undrum. Álfurinn glotti kunnuglegu glotti. “En…þetta er ég?!?” hugsaði Petya. Álfurinn glotti enn meira og hristi hausinn hægt til hliðar og Petya heyrði aðra rödd en sína eigin segja í hausnum á sér “Nei. Nálægt, en ekki alveg rétt. Reyndu aftur.”. Petya hafði engan tíma til að hugsa hvernig þessi álfur var að lesa hugsanir hans hvað þá hvernig hann svaraði þeim innan úr hans eigin huga en álfurinn var nú kominn nógu nálægt til að hann sæi smáatriðin betur. Lauf-græn augu, ekki himin-blá. Aðeins mjórra og lengra nef. Vottur af húðflúrum undir hárinu við ennið og augnsvipur sem var allt annar en Petya hafði. “Firan” sagði Petya dolfallinn og glottið á Firan breyttist í kaldhæðnislega stolt bros. “En þú dóst?”.