Sem smá svar við umræðunni meðfylgjandi grein Fears, þar sem menn töluðu afar mikið fyrir sjálfa sig, ákvað ég að skrifa þetta.

Orðin ,,fíkn” og ,,veruleikaflótti” virtust vekja sterk viðbrögð, og ekki að óeskju, því bæði hafa þau mjög slæmt orð á sér úti í samfélaginu. Það er líka skiljanlegt í ljósi þess að lengi hefur verið slæmt orð á spunaspilum, og seint þætti gáfulegt að gefa höggstað á okkur, spilendunum, á þeim opinbera stað sem Hugi.is er.

Aftur á móti, í orðastað Auza, eru bæði hugtökin teygjanleg. Bókalestur gæti talist veruleikaflótti, því að oft líður lesanda eins og hann væri persóna í sögunni og finnst sögusviðið raunverulegt. Höfundur lagðist t.d. í létt þunglyndi í tvo tíma eftir að hafa lokið Sjálfstæðu fólki.
Sama er hægt að segja um bíómyndir. Hvern langaði ekki til að hoppa milli húsa og sparka í Securitas-verði eftir að hafa séð tæknitryllinn Matrix?
Að sjálfsögðu býður spunaspil uppá enn meiri gagnvirkni, því ólíkt bókum og kvikmyndum, bregst spilið við áreiti og aðgerðum þátttakenda. Á móti kemur að spunameistarinn og reglurnar þurfa að keppa við færustu handrits- og rithöfunda í því að skapa heim sem samsvarar sjálfum sér.

Þessi þrjú ,,áhugamál” eiga sér það öll sameiginlegt að þátttakandi yfirgefur raunverulega heiminn og hverfur á vit annars heims, hversu svo sem sá er langt frá raunveruleikanum (Eldborg 2000 vs. X-men). Það er hægt að segja að allir sem stunda þessi áhugamál séu að flýja raunveruleikann. Ef svo færi væru heldur margir í þeim hópi. Að flýja í þessu samhengi hefur hinsvegar ílengst sem neikvætt hugtak, tengt hlutum eins og sjálfsmorðum.

Kannski væri því réttara að tala um hvíld og/eða tilbreytingu frá raunveruleikanum.

Hvíld má finna í öllum ofannefndum áhugamálum, og einnig í t.d. Skák, Áfengi, Lyfjum, Taugaspennu, ýmiskonar átrúnaði, líkamlegu erfiði og mætti lengi telja. Að sjálfsögðu er mjög mismunandi eftir einstaklingum hvað gefur þeim hvað mesta ,,hvíld” og hversu mikla þeir vilja, en líklega myndi hjá flestum ýmis lyf, sem oft eru kölluð fíkniefni tróna á toppnum.

Skemmtilegt er líka að minnast þess, að ekki er langt síðan að bækur voru litnar sama hornauga og spunaspilum er stundum gefið nú á tímum. Fólk var talið geta lesið úr sér allt vit, og bækur voru líka álitnar hættulegar sem boðberar frjálsar hugsunar, s.b.r. bókabrennur nasista.

Fíkn, og hvar mörkin þar sem mannfólkið missir tökin á eigin lífi og lifir fyrir áhugamálið/starfið/lyfið er líka skilgreiningaratriði (einsogsvo margt annað). Óneitanlega myndi seratónín framleiðsla í heila Arnar Arnarsonar minnka, ef hann sleppti því að fara í sund í nokkra daga. Kannski ekki mikið, en nóg til að vera ein af ástæðunum fyrir því að hann drífur sig útí. Örn Arnarson væri hinsvegar (vonandi) ekki svo langt leiddur að hann rændi sjoppur ef hann ætti ekki fyrir sundmiðum.

Fótanóta:

Greymantle er þjakaður af ofskynjunaráráttu, því hann heldur því fram, að allt sem hann skrifar muni einhvern daginn enda á forsíðu Morgunblaðsins.
Hann skrifar líka oft eingöngu til að svara sjálfum sér.