Ég hef verið að fylgjast með umræðum bæði hér og annars staðar um nýja D&D kerfið. Sitt sýnist vissulega hverjum, sem er bara gott og blessað. Mig langar hins vegar að taka aðeins saman nokkrar hugleiðingar mínar.

Það fyrsta sem ég fann fyrir þegar ég opnaði Core settið var að yfir mig kom andi sem ég hef ekki fundið fyrir í D&D lengi. Bara strax við lestur á kynþáttunum sá ég að WoTC höfðu gert umtalsverða breytingu á kerfinu og breytingin felst ekki beint í samsetningu kerfisins, notkun teninga eða nokkru þannig, heldur fyrst og fremst í hugsuninni og tilfinningunni fyrir því. Mér finnst sem andi gamla AD&D (sem var meingallað kerfi, en skemmtilegt engu að síður) svífi yfir vötnum og ég tel það vera kost.

Af hverju? Jú, fyrir það fyrsta eru tölurnar ekki á blaðinu ekki uppistaðan í persónusköpuninni. Í 3.0 og 3.5 var persónusköpunin að mínu mati svo rígbundin í tölunum á blaðinu, að það var ekki nokkur leið að skilja þær frá persónunni sem maður var að skapa. Ef svo óheppilega vildi til að maður var t.d. að spila rogue með lágt Int þá var næsta víst að maður þurfti að deila skillpunktum ójafnt á milli thieving skillana. Í 4th er þetta ekki raunin, enda að mínu mati er D&D 4th allt öðruvísi kerfi en 3.5 (sjá neðar) og ekki samanburðarhæf.

Jú, vissulega eru það ákveðin rök að í staðinn hefur maður ekki jafn mikið frelsi í persónusköpuninni. Ég held reyndar, að það sé bara spurning um tvennt. Í fyrsta lagi, hvernig maður lítur á hlutina. Ef tölurnar skipta þig öllu máli í persónusköpuninni, þá er 4th edition vissulega vonbrigði, því þú hefur ekki jafn mikla stjórn á þeim eða hvernig þeim er hlutað niður. Ef tölurnar eru sá rammi sem þú miðar við, þá hefur hann þrengst og minnkað. Ef þú lítur hins vegar á tölurnar sem ákveðna niðurnjörvun á hugsanasmíð þinni (þ.e. persónunni) þá er 4th kærkomin breyting, því þær eru hættar að skipta jafn miklu máli og áður.

Í öðru lagi, þá hættir mörgum til að bera þessi tvö/þrjú kerfi saman, þ.e. 4th ed og 3.0/3.5. Að mínu mati gengur sá samanburður ekki upp, því kerfin og sú hugsun sem liggur að baki þeim er svo ólík. Eins og ég upplifi 4th þá hefur verið tekið út akveðin tegund af number crunching sem margir spilarar hreinlega lifðu á í 3.5/3.0, sbr. umræðu á einum þráðanna hér til hliðar. Að bera saman persónusköpun í kerfi þar sem mætti segja að tölurnar marka upphaf og endi persóna og hins vegar kerfi þar sem þær gera það ekki, er eins og að reyna bera saman story driven ævintýri og character driven ævintýri. Hvort hefur sína kosti og galla.

Ekki nóg með að WoTC hafi tekist að fanga þennan gamla anda, heldur finnst mér þeir hafa loksins losað sig frá þessari Magic the gathering hugsun. Í 3.5 gat maður búið til ósigrandi feat combos og leikið sér með tölur og einhverra hluta vegna sá ég alltaf fyrir mér MtG þegar rætt var um hin og þessi feat combo úr hinum ólíkustu bókum. Af því sem ég hef lesið í 4th finnst mér þetta úr sögunni. Jú, það er hægt að nota powerfléttur, en þær gerast flestar yfir lengri tíma (en t.d. power attack, cleave, great cleave osfrv.).

Vissulega er hægt að powerplaya ennþá, enda væri D&D líklega ekki svipur hjá sjón ef maður sæi ekki möguleikana á powerplayi. Kosturinn við það í dag er hins vegar sá, að DMinn þarf ekki að búa til encounter sem er CR +3 party level, því allir eru svo powerplayaðir, til að eiga séns á að skapa smá spennu og ef encounterinn er undir ákveðnu CR þá fær enginn xp. Í dag, þegar ég er að stjórna, þá bý ég til þá encountera sem mig langar til og samt tryggir kerfið að spilarar fá það xp sem encounterarnir innihalda. Þetta þýðir að gömlu og góður meatgrinder ævintýrin eru aftur orðin spilanleg, í þeirri merkingu að spilurum finnst orðin ástæða til að fara í þau af því þeir græða eitthvað á þeim (xp).

Kerfið býður líka, að mínu mati, upp á meira roleplay. Um leið og þeir fækkuðu skillum, þá urðu til social challenges sem mér finnst vera virkilega góð viðbót við kerfi, sem var orðið steingelt þegar kom að því að höndla slíka þætti. Í raun tel ég ekki mikla þörf á slíku fyrir eldri grúppur, sem eru vanar að roleplaya í gegnum non-combat encounters, en fyrir yngri spilara sem hafa alist upp við að geta gengið inn í þorp og kastað upp á Gather info, í stað þess að fara í gegnum það roleplay, þá er social challenge virkilega sniðug leið til að hvetja slíka spilara til að færa sig nær rp.

Kerfið er samt sem áður ekki gallalaust. Ég efast ekki um að mörgum spilurum finnst powerkerfið alveg ömurlegt og ekki bjóða upp á sama number crunching sem feat(í x-veldi)+ability kerfið í 3.5 gerði. Kerfið er ennþá mjög xp miðað, en þó með tilkomu quest xp og rewards, social challenges osfrv. hefur það aðeins róað sig í ‘bara xp fyrir monster slain’ dæminu. Powerin eru ennþá frekar fá og því miður oft á tíðum aðeins ein rétt leið í gegnum val á þeim. Maður verður því að eiga aukabækurnar (arcane power oþh.) til að auka flóruna á powervalinu hjá sér. Maður er ennþá mjög bundinn af gridmottunni, sem ég er persónulega ekkert rosalega hrifinn af. Á móti kemur þá eru bardagar orðnir umtalsvert taktískari, sem mér þykir ekkert verra.

Í það heila finnst mér nýja kerfið vera virkilega nýtt og spennandi. Mér finnst ósanngjarnt að bera þetta kerfi við 3.5, því þau eru svo ólík að grunnhugsun að það er erfitt að fá samanburð sem er réttur. Þó svo að bæði kerfi noti sömu eða svipuð heiti, þá eru þau samt sem áður mjög ólík og sem betur fer segi ég bara (WoD notar líka svipuð hugtök og D&D kerfin en samt ber engin það við hin kerfin í von um að sýna fram á gæði eins umfram annað, flestum finnst það bara kjánalegt. Hið sama finnst mér um samanburð á 4th og 3.5). Ég er mjög feginn því að vera laus úr viðjum number crunching persónusköpunar og geta einbeitt mér að því að búa til persónu umfram statblock.

Í það heila fá breytingarnar á kerfinu 4 stjörnur af 5 frá mér.