Nú er komið nóg!

Einn helsti kostur mannverunnar er fjölbreytileiki hennar. Við erum jafn ólík og við erum mörg. Það sem mér finnst gott á bragðið finnst þeim næsta vont. Það sem mér finnst flott mynd finnst þeim næsta ljót. Það sem mér finnst skemmtilegt spunaspil finnst þeim næsta ömurlegt.

Ég skil ekki hvers vegna huganotendum hér á spunaspil finnst þessi fjölbreytileiki slæmur. Hér hafa nokkrir einstaklingar farið hamförum í rifrildi um eitthvað sem er algjörlega háð smekki hvers og eins. Til að toppa þetta rifrildi hefur það oftar en ekki snúist upp í persónulegar árásir og annan barnaskap. Ég líð slíkt ekki og efast um að aðrir stjórnendur áhugamálsins geri slíkt hið sama.

Því miður þá hef ég neyðst til að læsa einum þræði hér. Það er í fyrsta skipti sem ég hef þurft að gera það. Ég vona, að þeir einstaklingar sem þar áttu hlut í máli skammist sín, því sú hegðun og sá barnaskapur sem þar má finna er hreint út sagt með endemum. Ég skil bara ekki hvernig er hægt að æsa sig upp úr öllu valdi yfir einhverju sem er bara smekksatriði.

Nú legg ég til að sverðin verði slíðruð og þeir sem eru hér sættist á að vera ósammála. Að allt rifrildi milli þessara hópa leggist af. Ég fæ ekki séð hvernig þetta auki á ánægju annarra notenda að þurfa sífellt að lesa um hvernig hinn og þessi er hrokafullur eða vaði í vitleysu. Ég fæ ekki heldur séð hvernig það tengist málunum sem er verið að ræða hverju sinni.

Stundum málefnalegar umræður um spunaspil.

Spunaspil eru skemmtileg tómstundaiðja, jafnvel lífstíll hjá sumum. Þau eru hins vegar ekki trúarbrögð eða okkur svo lífsnauðsynleg að hvergi megi falla skuggi á heilagleika þeirra.

Hjálpumst að við að gera þessa síðu áhugaverða og fræðandi um spunaspil. Ekki falla í þá gryfju að nota þennan vettvang til persónuárása eða skítkasts.

Tma