Ég er einn þeirra sem spila reglulega og hef gert mjög lengi. Ég horfði upp á Pétur bola út rpg bókunum í Nexus á sínum tíma og sá hvaða áhrif það hafði á spunaspilsmenninguna. Sem betur fer hafa Nexusmenn séð ljósið á nýjan leik og bjóða upp alveg ágætt úrval, þó vissulega það mætti vera fjölbreyttara í non-D20 kerfunum.

Á þessum langa tíma hef ég séð eitt spilafélag rísa og hníga á ný. Mikið varð ég því ánægður þegar Spuni varð til og loksins, þrátt fyrir endurreisn Fáfnis, var komið félag sem var tilbúið að standa að einhverjum viðburðum.

Félagið var stofnað á spilamóti í Gnoðavogi, svona formlega að minnsta kosti, og var þar ákveðið að halda annað spilamót við fyrsta tækifæri. Það var reynt en sökum daprar þátttöku féll það um sjálft sig.

Nú hefur ekkert heyrst frá þessu blessaða félagi í langan tíma. Á meðan hafa verið haldin tvö spilamót norður í landi af annars ágætu spilafélagi þeirra Akureyringa. En á meðan hefur liðið ja, eitt og hálft ár síðan það var haldið mót hér í bænum.

Nú spyr ég: Er Spuni dauður úr öllum æðum? Hafa stjórnendur þessa félags ekki geð í sér til að halda annað mót, bara vegna þess að komu ekki nógu margir síðast?

Ég er nokkuð viss um að það sé lítið mál að halda stórt og öflugt mót hér í bænum, miðað við þátttökuna fyrir norðan. Mót sem jafnvel er álíka stórt og gömlu Fáfnismótin (munið þið eftir mótunum í gamla Hinu húsinu/Þórscafé?). Mót þar sem hægt er að bjóða upp á LARP, öll kerfi og eins mikla afþreyingu og hugsast getur. Þetta er bara spurning um skipulagningu og áhuga.

Ég geri mér grein fyrir því að fáir hafa tíma eða nennu til að standa í slíku. En ég er viss um að vel flestir sem sækja þetta vefsvæði t.d. myndu glaðir mæta á alvöru RPG-mót, ekki satt?