Litla stelpan gengur upp tröppurnar og inn í salinn. Það fyrsta sem hún sér eru þrír karlmenn sem standa við innganginn og horfa hunguðum augum á Nonnabátana sem hún heldur á. “Þeir bíða eftir þér”, segir einn þeirra um leið og hann tekur annan bátinn af henni. Litla stelpan flýtir sér úr jakkanum og inn í sal. Salurinn er fullur af karlmönnum sem sitja við átta borð með gosflösku í annarri hendinni og teninga í hinni. Flestir grúfa sig yfir blöð sem liggja fyrir framan þá og virðast ekki vilja láta trufla sig. Þegar litla stelpan gengur í gegn um salinn, áttar hún sig á því að tvær aðrar stelpur eru hópnum. “En hvað það er gaman”, hugsar hún. Hún er vön að vera eina stelpan. Stuttu síðar er litla stelpan sest niður og er sjálf upptekin við að skoða blað sem liggur fyrir framan hana.
Eftir nokkurn tíma hættir að vera hljótt í salnum. Nú eru það ekki lengur strákar og stelpur sem sitja við borðin heldur, riddarar, álfar, dvergar, jedar og ýmsar aðrar hetjur. Hver og einn reynir að bjarga deginum á sinn hátt. Menn ferðast um víðlendi á hestum og geimskutlum, læðast um dýflissur og klifra fjöll.
Af og til berst truflun frá rauð/blá klæddum mönnum sem hrópa “PIZZA” og er þeim umsvifalaust greitt af hungruðum spunaspilurum.
Hlátrasköll heyrast, einhver datt af hestinum sínum og fótbrotnaði. Menn hrópa upp yfir sig, standa á fætur og tilkynna “ég drapst”. Svona gengur þetta fram og aftur í tvo daga. Litla stelpan hætti að vera riddari og varð að ofurhetju sem kennd er við X. Tók þátt í að bjarga fullt af fólki, samvinna borgar sig víst.
Mótstjórnin situr falin á bakvið bókakassa og fartölvu og glottir. Mótið tókst frábærlega.