Heil og sæl.

Mikið hefur undanfarið borið á spurningum um nýstofnað/væntanlegt spilafélag. Vöngum hefur verið velt um tilgang félagsins, hvort planað sé að halda mót, og hvernig megi skrá sig.

Ætlun mín með þessarri grein er að svara þessum spurningum öllum í einu, og útskýra fyrir ykkur hver núverandi staða sé, og hvert sé stefnt með félagið.

Svokallaður stofnfundur var haldinn þann 28. apríl síðastliðinn, þar sem saman valdist 5-manna hópur í stjórn. Ekkert var ákveðið annað á stofnfundinum en að þessi stjórn skyldi hittast í vikunni sem er að líða, til frekar skrafs og ráðagerða.

Í gær, fimmtudaginn 9. maí, héldum við svo okkar fyrsta fund. Á fundinum urðum við sammála um hver stefna félagsins skyldi vera á þessum fordögum þess.

Við tókum þá ákvörðun að í fyrstu lotu skyldum við beina kröftum okkar ódreifðum að mótshaldi. Stefnan er tekin á að halda fyrsta spilamót félagsins í haust, og með fyrirvara um breytingar var ákveðið að miðað skildi við fyrstu helgina í september. Á því móti verður svo einnig haldinn formlegur stofnfundur félagsins, þar sem viðstöddum mun gefast kostur á að gerast stofnfélagar, og taka þátt í lýðræðislegum kosningum um stjórn og lög félagsins.

Um nákvæmt fyrirkomulag mótsins er ekkert ákveðið, en miðað er við spilamennsku yfir helgi, með tveimur tímabilum, stofnfundi og örlitlum frjálsum tíma. Ekki mun fara fram keppni á mótinu, og reynt verður að sjá til þess að sem flest kerfi fái tækifæri til að njóta sín.

Einsog álykta má útfrá því að formlegur stofnfundur verður ekki fyrr en á mótinu sjálfu í haust þá hefst ekki formleg skráning félaga fyrr en á stofnfundinum. Við munum hinsvegar fljótlega hefjast handa við að safna saman lista yfir áhugasama tilvonandi meðlimi, og mun settur upp netskráningarbúnaður, annað hvort hér á huga eða annarsstaðar á netinu, þar sem hægt verður að skrá sig niður. Þennan lista getum við svo notað til að áætla áhuga, og koma á framfæri tilkynningum.

Ofangreint verður allt auglýst síðar, þegar þar að kemur. Að lokum langar mig að biðja fólk að sína þolinmæði og biðlund, og átta sig á því að frekari smáatriði en þau sem ég hef talið að ofan hafa ekki verið sett.

Með kveðju,
Vargu
(\_/)