Eins og allir sem hér eru vita væntanlega þá er Buffy af þeirri tegund sjónvarpsþátta þar sem að það er verulega leiðinlegt að fá að vita hvað kemur til með að gerast í næstu þáttum eða seríum.

Því finnst mér mjög undarleg að setja könnun á upphafsíðu þessa spjalls, þar sem að beinlínis er sagt hvað er að gerast í lok 6. seríu. Fyrir buffy aðdáendur þá eru þetta atburðir sem ættu að koma mjög mikið á óvart og mér finnst í raun hálf skammarlegt að gera þeim þetta sem eru kannski ennþá að fylgjast með því sem er að gerast á stöð 2.

Ég er sjálfur búinn að sjá alla 6. seríu, en ég veit hve leiðinlegt það getur verið að vita hluti um uppáhalds sjónvarpsþættina mína sem ég vildi óska að ég vissi ekki. Til dæmis þá er ég mikill aðdáandi Survivor og hef verið alveg sérstaklega spenntur fyrir því sem er að gerast á Marquesas eyju undanfarnar vikur. Um daginn álpaðist ég þó inná erlenda fréttasíðu og sá þar hver hafði unnið. Þetta eyðilagði skiljanlega alla spennu fyrir þáttunum hjá mér og fannst mér þetta mjög leiðinlegt í alla staði. Ég get því alveg skilið að sumir hérna vilji engan veginn vita hvað er að gerast núna í Buffy.

Það er svo einfalt að hafa flesta ánægða og ég skil ekki hvernig það virðist ekki vera hægt hérna á huga ( ekki bara hérna hjá buffy fólkinu). Það eru í raun 3 reglur sem þarf að framfylgja og ekkert annað til þess að koma í veg fyrir leiðindi með spoilera (ísl. spilliefni?)

1) Bara hafa spoilera í greinum og þartilgreindum spjallþráðum, en ekki á upphafssíðum eða almennum skoðannakönnunum.

2) Þegar ný grein með spoilerum er sett inn þá er alltaf meðfylgjandi í lok greinartitils : *spoiler* eða nánar *spoiler 6. sería* sem er ennþá betra.

3) Í byrjun greinar þá á að hafa efst *spoilerar framundan* og þar fyrir neðan nokkrar línur áður en spoilerinn kemur síðan í ljós.


Ég hef séð þetta virka á mörgum spjallþráðum útum allt og ég skil ekki afhverju þetta virðist ekki virka hérna. Það má samt ekki gleyma því fólki sem virðist alltaf vera til á netinu, sem hefur ánægju af því að eyðileggja fyrir öðrum og skiljanlega er oft erfitt að koma í veg fyrir svoleiðis.

Kannski er ég bara að lemja dauðann hest hér og kannski er búið að ræða þetta alveg út í eitt hérna, en ég bara varð að minnast á þetta í ljósi skoðannakannananarinnar sem er núna til staðar á upphafssíðu þessa spjallsvæðis.

Kær Kveðja,

Binni