Bland í poka - uppáhalds þættir Nú á haustdögum er einmitt mál að vinsa úr sjónvarpsþáttafarganinu og finna þá sem maður vill eyða tíma í og henda þeim sem taka upp verðmætt pláss í dagskránni. Ég get a.m.k. ekki fylgst með öllu sem boðið er upp á og er komin með myndarlegan kjarna af þáttum sem mér finnst verðugir að tíma mínum. Smekkur manna er auðvitað misjafn og hérna er minn:


Nýir

Af sumarflórunni voru Damages og Mad men þeir þættir sem virkuðu best. Army wives urðu frekar þreytandi þegar á leið og sé mig ekki detta inn í Gossip girl. Annars er ég ekki búin að kynna mér mikið af nýju þáttunum en er þó byrjuð að horfa á Reaper sem lofar góðu.

Gamlir og góðir

Heroes - skyndibitasjónvarpsefni. Aðlaðandi, veitir snögga fróun en skilur fjarska litla næringu eftir. Ég held áfram að horfa en græt í hljóði þegar fólk hampar þáttunum sem bestu í heimi.

Lost - ég finn að ég er búin að skuldbinda mig Lost þar til yfir lýkur.

Bones, House, CSI - formúluþættir prýddir ansi góðu kasti og höfundum sem kunna að spinna sínar sögur vel innan formsins.

Grey's Anatomy - ég stenst ekki sambland sápu og kaldhæðins húmors.

Survivor, Project Runway, America's Next Top Model - aðrir raunveruleikaþættir geta bara hætt strax hvað mig varðar.

Brothers and Sisters - fjölskyldudrama sem tekur sig ekki hátíðlega og leyfir persónunum að gera sömu mistök og við öll. Ofboðslega vel leiknir. Ég er óttalega skotin í þessum þáttum.

Ugly Betty - fáum þáttum tekst jafn vel að vega salt á milli fáránleika sápunnar, klassa húmors og drama.

Battlestar Glactica - best að klára dæmið - þótt það hafi stundum verið soldið þungt í vöfum.

Dexter - hann er soldið ómótstæðilegur.

How I met your mother - einu pjúra gamanþættirnir sem ég fylgist með (fyrir utan Scrubs sem ég kíki yfirleitt á á sumrin). Ég er alltaf á leiðinni að kíkja á The Office en hef ekki komið því í verk.


Breskir þættir

Doctor Who - verður alltaf betri og betri (og pínu kjánalegir inn á milli sem gefur þeim bara aukinn sjarma).

Torchwood - sjónvarpskrakk. Ég er fullkomlega háð.

Skins - ekki átakanlegir fyrir fimmaura (eins og sjónvarpsdagskráin reynir alltaf að halda fram) heldur fjörugir, fyndnir og fáránlegir. Og stundum furðu raunsæir.

Shameless - fáir þættir hafa þurft að rugla með aðapersónur sínar eins og þessir (ég er búin að missa töluna á því hversu margir aðalleikara hafa hætt núna) en það er mesta furða hvað þeim test þó að halda dampi.

Never Mind the Buzzcocks - spurningaþáttur? Viðtalsþáttur? Gamanþáttur? Hvur veit. Bjálæðislega fyndinn og óútreiknanlegur hvað sem öðru líður.


Og lengri verður þessi list ekki í bili. Ekkert persónulegt gagnvart Desperate Housewives, 24, Prison break, Men in trees, Weeds, Big love og öllum hinum - ég hef bara ekki endalausan tíma!

Hverjir eru uppáhalds þættirnir þínir og hvers vegna?
——————