Eftir langa og stranga bið er 4400 loksins byrjað að nýju … mér fannst þeir byrja vel, sérstaklega ef maður hefur í huga að pilotinn úti er alltaf tvöfaldur, þannig að við vorum í rauninni bara ða horfa á hálfan þátt!

Það sem ég velti helst fyrir mér er hvort að stelpan á hælinu (tess?) hafi verið að segja “satt” eða hvort að þetta var bara óðs manns hjal? Ég hallast frekar að því að hún muni í alvörunni eftir verunni í “framtíðinni” (er ekki enn fyllilega sátt við þá skýringu á brottnáminu). Ef svo er þá voru skriftirnar á veggjunum, sem hún skildi ekki, eflaust sömu tákn og Kyle var að teikna á landakortið þegar að “framtíðarveran” var enn inn í honum. Ef hún man allt frá verunni, þá mun það vafalaust veita þeim Tom og Diönu meiri skilning á því sem átti sér stað meðan fólkið var í burtu. Jafnvel svara þeirri spurningu hvernig þeir fóru að því að breyta fólkinu þannig að það býr nú yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum. Er fólkið í framtíðinni búið að læra að nota meira en 5% af heilanum okkar og hefur í raun þá virkjað misjöfn svæði í brottnumda fólkinu, sem þýðir þá að í framtíðinni þá búa allar manneskjur yfri þessum hæfileikum … EÐA er kannski ekki neitt “framtíðarfólk” til og að baki brottnáminu standa geimverur sem eru búnar að genabreyta þeim brottnumdu svo að þau geti lagt grunninn fyrir innrás þeirra??

Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör … Annað sem vakti athygli mína var hve 4400 stofnunin varði Shawn vel fyrir heimsókn frænda síns. Maður spyr sig því hverjir aðrir hafi heimsótt hann, og þá án hans vitundar? Jordan er greinilega að einangra hann frá öllum þeim sem gætu mögulega hjálpað honum að sjá ljósið, og átta sig á því að eitthvað myrkt býr að baki áformum Jordans um að “hjálpa” 4400-fólkinu. Hann er kominn vel á veg með að stofna ný “trúarbrögð” og virðist sérstaklega ætla að nýta Shawn í þeim bransanum. Hann mun eflaust græða á þessu fúlgur fjár, sem að fáir munu vita af og sömuleiðis enginn njóta nema hann!

Að lokum er það turninn. Var hann bara ávöxtur frjós ímyndunarafls óðrar konu eða hefði hann fullbyggður verið samskiptaleið “framtíðarfólksins” við hina brottnumdu, og um leið alla Jarðarbúa? Eins og áður hallast ég að því síðarnefnda, að stelpan sé ekki eins brjáluð og fólk vill halda. Hún hafi verið að teikna að fyrirmynd “framtíðarfólksins” og það sé kannski hennar hlutverk í öllum þessum bylgjuáhrifum að vera sá sem að talar fyrir 4400-fólkið. Því hún er sú sem man eftir vistinni, hvað var gert og kannski veit hún – eða hefði komist að – af hverju þetta fólk var valið og fékk þessa hæfileika í skilnaðargjöf. Þá er ég að meina nánari skýringu en að þetta sé tilraun til að koma í veg fyrir ragnarrök …