Dead like me Nú þegar við höfum þrjár stórar sjónvarpsstöðvar að bítast um heitustu bitana frá henni Ameríku finnst mér undarlegt að þessir öðlaþættir hafi ekki sést hér á landi. Kannski er það vegna þess að þeir eru framleiddir af Showtime stöðinni en einhverra hluta vegna hafa engir þættir framleiddir af þeirri stöð (t.d. Stargate og Queer as folk) verið teknir til sýningar hér. Hver sem orsökin er ætti enginn að láta þessi frábæru þætti framhjá sér fara skyldi hann rekast á þá einhvers staðar.

Þættirnir fjalla - eins og titillinn gefur til kynna - um unga stúlku sem er dauð. Hin 18 ára George Lass er leið á lífinu, í glænýju hundleiðinlegu starfi sem ritari þegar MIR geimstöðin er látin falla til jarðar, klósettseta rifnar af við ferðina í gegnum gufuhvolfið og endar beint á hausnum á henni. Hún er hins vegar ekki búin að vera dauð lengi þegar henni er tilkynnt að hún hafi erft starf Dauðans (kallaður í þáttunum Grim Reaper) sem að fyllti kvótann sinn við hennar lát. Kemur í ljós að Dauðinn er til í fleirtölu þar sem hópur af einstaklingum hafa þann starfa og sérhæfa sig eftir hverfum og tegundum dauðsfalla. Í raun eru þau ekki dauð sjálf - meira hálfdauð - þau hafa líkama, þurfa að borða og sofa og geta haft nokkuð eðlileg samskipti við venjulegt fólk en þau líta öðruvísi út en þau gerðu á meðan þau voru á lífi og verandi dauð er ekki hægt að drepa þau.

Auk George Lass (Ellen Muth) - sem er ekki mjög sátt í þessi nýja starfi - eru 4 aðrir einstaklingar sem vinna með henni. Rube (Mandy Patinkin) er yfirmaðurinn - hann fær allar tilkynningar um hvar og hvnær dauðsföll muni eiga sér stað. Hann hefur verið í þessu starfi all lengi og var uppi á öðrum tíma (nú er soldið síðan ég horfði á þættina og ég man ekki alveg hvort saga hans hefur komið fram). Hann sýnir George föðurlega umhyggur en leyfir henni ekki að komast upp með neitt kjaftæði og lætur hana gjarnan fara nett í taugarnar á sér.
Hinir meðlimir hópsins eru:
Mason (Callum Blue) - tækifærissinni sem er talsvert gefinn fyrir eiturlyfin (þau hafa ekki skaðleg áhrifa á Fólkið með ljáinn) og er sífellt að reyna að komast yfir peninga með öllum ráðum - er annars vænsti náungi. Dó við það að bora holu í hausinn á sér.
Roxy (Jasmine Guy) - Hörð í horn að taka. Ekki gefin fyrir hálfvita. Vinnur sem stöðumælavörður og er mjög gjarnan í vondu skapi. Fann upp legghlífar og var myrt af afbrýðisömu dansara fyrir einkaleyfið. Kyrkt með eigin legghlífum.
Daisy (Laura Harris) - fjörleg ljóska og fyrrum leikkona. Segist hafa sofið hjá öllum gömlu Hollywood stjörnunum. Gefin fyrir ríka karla. Kafnaði við gerð Gone with the wind þar sem hún var í litlu hlutverki.
Einnig kemur talsvert við sögu fjölskylda George sem er að reyna að fóta sig í lífinu eftir dauða hennar (systir hennar á sérstaklega erfitt með að höndla þetta og tekur upp á því að stela klósettsetum úr skólanum) svo og fólkið á “alvöru” vinnustað George “Happy Time Employment Agency” - sérstaklega yfirmaðurinn hin mögulega geðveika Dolores Herbig (“As in Her Big Brown Eyes!”)

Hér er hægt að finna frekari upplýsingar um þáttinn:

http://www.deadlikeme.tv/index.php
——————