Kynning á Angel þáttunum Sú spurning poppar upp við og við hérna á huga hver sé eiginlega þessi Angel og hvers vegna þetta áhugamál sé tengt hans nafni. Eins og flestir vita er Angel:

- vampíra
- með sál
- fyrrum kærasti Buffy
- leikinn af David Boreanaz
- með sinn eigin þátt sem heitir einmitt Angel

Angel var persóna í “Buffy” þáttunum út þriðju seríu en þá yfirgaf hann svæðið og þegar fjórða sería af “Buffy” byrjaði hófst fyrsta serían af “Angel” þáttunum. Þessir þættir hafa aldrei verið sýndir í íslensku sjónvarpi og flestir sem hafa séð þá hafa þurft að styðjast við spólurnar sem gefnar eru út í Bretlandi eða fara eftir einhverjum álíka leiðum. Nú þegar “Buffy” þættirnir eru hins vegar hættir úti í Bandaríkjunum og engir nýir þættir í gangi á Stöð 2 (Popptíví er með endursýningar) er “Angel” það eina nýja á sjóndeildarhringnum. Fimmta serían byrjar 1. október í Bandaríkjunum

Stóra spurningin hér er hvar skal draga mörkin við spoilera? Ekki er hægt að miða við hið íslenska sjónvarp eins og með “Buffy” þættina því það á ekki við - eins og staðan er er afskaplega ólíklegt að þættirnir verði nokkurn tíma sýndir hér. Vill fólk að miðað sé við það sem hefur verið gefið út á spólur eða bara þegar þættirnir hafa verið sýndir í Bandaríkjunum? Bara svo það sé samræmi í þessu hjá okkur.

Hér er í öllu falli smá lýsing á þeim seríum sem hafa verið hingað til - og stiklað á stóru:

** ATH! Spoilerar út fjórðu seríu af Angel! **



1. sería
Angel kemur til LA til að hjálpa fólki. Hittir Doyle sem fær sýnir af fólki í vanda og er sendur til að hjálpa Angel. Einnig hittir hann Cordeliu sem fær hann til að hrinda af stað almennilegu leynilögreglufyrirtæki. Það gengur erfiðlega að rukka kúnna. Doyle deyr en Wesley Windham Pryce (nýlega rekinn vaktar Faith og Buffy) dúkkar upp og fær vinnu hjá Angel. Cordelia hins vegar erfir sýnirnar hans Doyle. Alla seríuna er Angel að kljást við fyrirtækið Wolfram & Hart og þeirra skjólstæðinga sem standa ekki réttu megin við línuna. Sjálft fyrirtækið er rekið af einhverjum óþekktum illum öflum. Undir lok seríunnar bætist Gunn við - strákur sem hefur barist við vampírur allt sitt líf á strætum LA.

2. Sería
Skrifstofur Angel Investigations flytja í Hyperion hótelið eftir að gamla skrifstofan var sprengd í loft upp í lok fyrstu seríu. Wolfram & Hart endurvekja Dörlu sem lifandi mennska konu til að rugla í Angel. Þeir vita að hann á eftir að vera mikilvæg fígúra í endalokum heimsins en vita ekki hvoru megin hann mun standa og því vilja þeir halda honum volgum. Darla er ekki ánægð með hlutskipti sitt og líkar ekki að vera með sál. Hún er dauðvona og Angel reynir að bjarga henni en getur ekki. W&H fá Drusillu til að gera hana að vampíru á ný og þær fara á morðflipp um LA. Angel fer yfirum - kveikir í stöllunum (þeim verður ekki meinta af) og rekur allt sitt starfsfólk. Klikkir þessari niðursveiflu út með því að sofa hjá Dörlu. Þegar hann missir ekki sál sína vaknar hann úr doðanum - reynir að fá vini sína aftur sem taka við honum með semingi. Wesley er nú forstjóri Angel Investigations. Cordelia lendir óvart inni í annarri vídd og Angel, Wesley, Gunn og Lorne (grænn dímon sem hjálpar þeim stundum og er frá þessarri vídd - Pylea) fara á eftir henni. Þeim tekst að bjarga Cordeliu og einni mennskri stúlku sem hefur verið þræll þar í 5 ár. Hún heitir Fred.

3. sería
Sýnir Cordeliu eru að ganga af henni dauðri og hún verður að gerast hálf dímon til lifa með þeim - sem hún samþykktir. Darla er komin aftur kasólétt og allir eru á eftir barninu sem á ekki að vera til. Fyrir rest rekur hún sjálf fleyg í hjartastað til að barnið geti fæðst og Angel er orðinn einstæður faðir. Sonurinn Connor er hundeltur af öllum og Wesely ræður spádóm sem segir honum að faðirinn muni drepa soninn. Haldandi að hann sé að gera rétta hlutinn lætur hann versta óvin Angel hafa barnið sem hverfur með það inn í aðra - og mjög óhugnalega - vídd. Það er engin leið að komast þangað og Angel kennir Wesley um allt. Nokkrum vikum síðar kemur ungur maður á svæðið og þar er þá sonur Angels kominn (tíminn leið hraðar þarna hinum meginn.) Hann hefur verið alinn upp af versta óvini hans og tilbúinn að drepa föður sinn. Hann setur Angel í stálkassa og hendir honum í sjóinn. Á meðan er Cordelia gerð að æðri veru og lyftist upp til himna.

4. sería
Wesley bjargar Angel af hafsbotni sem byrjar á því að reka Connor út úr sínu húsi. Cordelia snýr aftur en er mjög skrýtin - fyrsti minnislaus en svo undarleg í hegðun. Connor er mjög hrifinn af henni og hún flytur til hans. Heimsendir virðist vera í nánd og eitthvað skrýmsli er laust sem drepur alla hjá W&H, svertir sólina og lætur rigna eldi og brennisteini. Cordelia sefur hjá Connor og Angel sér þau. Hún flytur svo aftur á hótelið og fer markvisst að vinna gegn vinum sínum án þess að þeir verði þess var. Kemur fljótt í ljós að hún er ólétt og gengur meðgangan furðufljótt. Angel og co. komast að svikum hennar og henda henni út - Connor fylgir með. Þegar kemur að fæðingunni er hún óvenjuleg - upp úr maga Cordelíu stígur fögur svört kona í ljósadýrð. Allir falla á kné og dásama hana - líka Angel . Hún kallar sig frelsara, tekur upp nafnið Jasmine og enginn er ónæmur fyrir töfrum hennar. Fljótlega hefur hún allt Los Angeles svæðið á valdi sínu og boðar frið á jörð. Allir eru ótrúlega hamingjusamir. Það eina sem hún vill í staðin er smá snarl - mennskt snarl. Fred losnar fyrst undan álögunum og tekst að frelsa hina. Cordelia liggur í dái en Connor streitist við. Fyrir rest er Jasmine drepin og áhrif hennar hverfa. Fólk fær sjálfstæðan vilja en missir hamingjuna. Connor er að missa vitið. Sem þökk fyrir að losa þá við Jasmine gefa stjórnarmeðlimir Wolfram & Hart Angel lögfræðifyrirtækið með öllum sem því fylgir. Hann byrjar á því að koma Connor fyrir hjá fjölskyldu eins og hann hafi alltaf verið þar sem venjulegur drengur. Enginn man eftir fyrra lífi hans nema Angel. Síðan fer hann til Sunnydale með hálsmen sem fyrirtækið lét hann hafa. Hann ætlar að hjálpa Buffy.

Og svo tekur 5. serían við þar sem frá var horfið - 1. október.
——————