Varúð! Biturleiki í hámarki.

Ég hef unnið sem afgreiðsludama í um 3 ár núna og yfirleitt hefur allt gengið vel hjá mér. Ég er alltaf kurteis við alla, býð ávallt góðan dag, brosa og þakka fyrir.

En hvað er málið með dónalegt fólk? Ég veit ekki með ykkur en ég hef oft lent í því að mér líði eins og ég sé að tala við sjálfa mig. Eins og ég sagði býð ég alltaf góðan dag en mér finnst fáranlegt þegar fólk horfir á mann eins og maður sé fáviti, brosir ekki einu sinni og svarar engu. (Og svona til þess að nefna það fyrir fram tala ég ekki lágt, þannig að fólkið heyrir alveg pottþétt hvað ég er að segja).

Svo er það líka ákveðið fólk sem er alltaf með stæla. Ég sé bara einfaldlega um það að afgreiða. Ég ákveð ekki verðið í sjoppunni eða hvað er til og hvað ekki, og þar af leiðandi á ég ekki skilið það að fólk sé að rífa kjaft yfir því hvað allt er dýrt. Kennið kreppunni um, eða verslunarstjóranum.

En nóg af mínum biturleika. Ég ætlaði ekki að hafa þessa grein leiðinlega. En málið er sem sagt það að eftir það að hafa kynnst því að vera að afgreiða er ég alltaf mjög almennileg við annað afgreiðslufólk, því ég veit sjálf hvað það er leiðinlegt að lenda í einhverju veseni.

Vildi endilega vekja athygli fólks á því að það er ókeypis að brosa, sama hvort þú sért að upplifa einn af “þessum dögum”. Afgreiðslumaðurinn/konan hefur örugglega ekkert með þín vandamál að gera.

Og já, ég vissi ekkert hvar ég átti að láta þetta þannig að sorpið varð fyrir valinu!