Ég er í réttaskapi! Á mánudaginn mun ég, ásamt fleirum úr sveitinni, hreppnum og víðar; standa inní hlaðinni-grjót-rétt og reyna að handsama kindur og sortera þær í hólf.

Þetta sama mun svo endurtekið á þriðjudegi í allt annarri rétt!

En á föstudaginn mun ég fara upp að Hítarvatni og fara í leitir! Tja.. Eða svona.. Ég mun fara í fjallhúsið og gista þar, ásamt öllum öðrum sem fara í leitirnar en við munum vakna fersk [og flest allir timbraðir, ekki ég samt.. eh] á laugardagsmorgni [um sexleytið], borða hafragrautinn okkar [nema matvendingar, þeir borða bara flatkökur] áður en við leggjum á reiðskjóta okkar og skjótumst uppí fjöll að næla okkur í kindur. Komum væntanlega til baka, milli 6-7-8 um kvöldið. Þá byrjum við á að fá okkur kjötsúpu. Svo ef einhver tekur uppá því að villast og týnast, þá verðum við áhyggjufull, þangað til hann finnst en byrjum svo að gera grín að honum.

Daginn eftir er smá meiri smalamennska áður en við rekum rollurnar að réttinni, verðum komin heim seinnipart sunnudags, en þá er það besta eftir!

RÉTTIR! Sem ég lýsti í grófum dráttum hér fyrir ofan.

Svo vil ég benda ykkur á að tala hvorki um dráttarvélar né handrið fyrir framan litla krakka. Það er dónaskapur.

Réttir.. Ahh..