Það atvik varð við einn söfnunargáminn, að lítið barn, með aðstoð leikfélaga, gat troðið sér ofan í gáminn, sennilega til að skoða innihald hans nánar. Ekki vildi þó betur til en svo, að barnið komst ekki til baka úr gámnum, þótt félagarnir reyndu að hjálpa til. Kalla þurfti til fullorðna til aðstoðar. Barnið slapp með skrekkinn og engum varð meint af. Í framhaldi þessa atviks og enn alvarlegra tilfellis, sem gerðist erlendis, var tekin ákvörðun um breytingu á stærð lúganna á öllum söfnunargámum á höfuðborgarsvæðinu og er verið að ljúka því þessa dagana . Þetta kann að auka á fyrirhöfn þeirra, sem flokka og skila dagblöðum og drykkjarfernum, en á að koma í veg fyrir óhöpp af fikti barna. Þeim sem að skila dagblöðum og tímaritum til endurvinnslu í stærra magni, er bent á að á enduvinnslustöðvum SORPU, eru gámar, sem eru mjög aðgengilegir og fljótlegt að losa þessi efni í.