<a href="http://www.mbl.is/“> mbl.is </a>
Kona, sem hvarf í Kentucky í Bandaríkjunum, er fundin og er á leið heim til fjölskyldu sinnar. Svo virðist sem hún hafi verið á vergangi í borginni Nashville í átta ár en málið leystist þegar hún sá skilti verðbréfasala og mundi skyndilega að hún hefði eitt sinn keypt hlutabréf.
Alice Perley kom inn á skrifstofur A.G. Edwards & Sons í Nashville í vikunni og sagðist halda að hún ætti fé inni hjá fyrirtækinu. Michael Guess, sem tók á móti henni, sagði að konan hefði greinilega hafst við á götunni en ákvað að hjálpa henni engu að síður. Þegar Guess bauð henni peninga neitaði hún og ítrekaði að hún ætti peninga inni á reikningi fyrirtækisins.
Guess ákvað að kanna málið nánar og hringdi í höfuðstöðvar fyrirtækisins í Atlanta. Skömmu síðar kom staðfesting á að Perley væri viðskiptavinur og einnig að hennar hefði verið leitað árangurslaust í átta ár.
Svo virðist sem Perley, sem er menntaður lyfjafræðingur og á talsverðar eignir, hafi horfið af heimili sínu í Kentucky eftir erfiðan skilnað. Hún fór út úr flugvél sem millilenti í Nashville og hafðist eftir það við í skógum, á götunni og í skýlum fyrir heimilislausa.
Bróðir konunnar, sem býr í Norður-Karólínu, frétti að systir hans væri fundin og hringdi í hana. „Hún var glöð, reglulega glöð, þegar hún heyrði rödd bróður síns. Það var greinilegt að hún var tilbúin til að koma heim. Ég fór út úr skrifstofunni til að lofa þeim að tala saman í friði en ég verð að segja að mér hitnaði um hjartaræturnar,” sagði Guess.
Bróðirinn kom til Nashville í gær og sótti systur sína. „Um þetta snúast jólin, er það ekki. Við eigum ekki að dæma aðra. Við eigum að styðja hvert annað en ekki líta undan, er það ekki?" hefur Reutersfréttastofan eftir verðbréfasalanum hjálpsama.
