Mér datt í hug að gera uppskrift að rugli fyrir ykkur ævintýragjörnu Íslendinga/sorpara. Stefnið ykkur í voða, komist lifandi af eða deyjið ella. Uppsetningin er ekki ósvipað því og þegar þið lesið mataruppskrift; auðvelt í notkun og þægilegt. Án frekari tafa (ef þú ert lengi að lesa) ætla ég að birta ruglið.


Grandalausi Akureyringurinn
Þú þarft: 16 þúsund og 500 krónur eða meira inn á banka, veski, ullarpeysu, ullarhúfu, ullarbrók (ekki nauðsynlegt), ódýrar buxur og hræódýra skó, kreditkort/visa/debet/mastercard o. sv. frv., harðmælgan framburð (Þetta er KHaKHa sem LáKHi BaKHari á.), þykka húð undir fótum, reynslu af því að „juggla“, þrjár teygjur, heftara, hagkaupspoka og áfengi. Það bætir úr skák ef þú ert Akureyringur en það er alltaf hægt að leika.
Sérskilyrði: Upphæðin af peningnum þínum þarf að ganga upp í 500. Eftir að upphæðinni hefur verið deilt með 500 þarf hún að ganga upp í þrjá. Sbr: 16500/500 = 33 og 33/3 = 11
Staður: Reykjavík
Aldur:16-29 ára
Kyn: Helst karlkyns
Dagur/Dagsetning: Partýhelgi með mikið af fólki
Tími: 22:00 – 03:00
Framkvæmd: Áður en byrjað er skal gæta þess „þú þarft“ hluti þessa leiðbeininga sé uppfylltur. Finndu þér góðan stað nálægt miðbæ Reykjavíkur og byrjaðu að drekka þangað til að þú finnur að þú ert kominn á það stig að þú myndir, fyrir eina sígó, ljúga í barnið þitt að það væri ættleitt. Þegar þú ert kominn á þetta stig skalt þú byrja á því að girða hægt og rólega niður um þig án þess að horfa í kringum þig. Farðu úr skónum næst og eftir það ræður þú hvort þú ferð úr (ullar)brókinni þinni líka. Nú ert þú kominn úr buxunum og skaltu því setja allt þitt farteski í hagkaupspokann (hægt er líka að geyma hlutina inn á brókinni ef þú vilt). Fyrir alla muni skaltu halda peysunni og húfunni á líkamanum þar sem að fólkið verður að geta ályktað að þú sért að norðan (það hjálpar ef þú notar blótar á borð við: ReyKHvíKHingar eru eKKHert nema helvíTHis pylsur (ekki bera fram sem pulsur) sem eiga sKHilið að deyja. HelvíTHis).
Byrjaðu nú á því að reika erindalaust um miðbæinn í rúman klukkutíma og endaðu síðan á því að staðnæmast fyrir framan hraðbanka, helst nálægt skemmtistað. Taktu núna út pening á mjög einkennilegan hátt. Eflaust ert þú búinn að vekja athygli um þetta leyti þar sem að þú ert búinn að vera ber að neðan í rúman klukkutíma þannig að fólk gæti verið að fylgjast með þér. Láttu það ekkert á þig fá. Í þessu dæmi geri ég ráð fyrir að þú hafir nákvæmlega 16.500 kr inn á kortinu. Taktu út 500 kall. Taktu við kortinu og snúðu þér í heilhring. Taktu út annann 500 kall. Endurtaka skal þetta skref þar til peningurinn er uppurinn. Það er jákvætt ef það byrjar að safnast löng röð fyrir aftan þig. Hugsanlega er þetta fólk sem ætlar að kaup áfengi af vini sínum eða eitthvað álíka. Vínbúðin er lokuð og barirnir eru ekki svo ódýrir. Þegar þú ert búinn skaltu fara örlítið afsíðis. Skiptu 500 köllunum í þrjá jafnstóra bunka og strengdu teygju fyrir miðjuna á hverjum og einum. Núna skaltu beygja seðlana þannig að hliðarnar til hvors enda snertist og hefta saman. Núna ertu með þrjá frekar kúlulaga (og ef til vill þunna) seðlabunka. Núna er ráð að losa sig við pokann og halda þétt um peningabúntin. Hlauptu inn á næsta skemmtistað án þess að borga þig inn (ef þess er krafist). Ef það eru dyraverðir fyrir innganginum skaltu ná í heftarann. Á tilþrifaríkan hátt skaltu blinda dyraverðina með heftaranum. Skelltu þér núna á mitt dansgólfið og byrjaðu að syngja krummavísur af alefli. Nú er ráð að juggla. Fólk mun mjög líklega reyna að stöðva þig. Nú er áskorunin þessi: Reyndu að ná sem flestum „djöggl“-köstum áður en einhver nær að fella þig eða koma þér úr jafnvægi á annan hátt. Þú mátt hlaupa, stökkva, skríða eða bara hvað sem er á meðan þú „djögglar“. Ef þú ert rændur peningnum þá núllast stigin þín.

Djöggl: 1-5 = Lúsablesi.
5-10: Fiskur
11-20: Svalur
21-50: Ískaldur
51-100: Djögll meistari
101-10.000 : Þú náðir að læsa þig inn á klósettinu svindlarinn þinn.