Árið er 2015. Eða öllu heldur árið 6, því eftir að geimverurnar gerðu innrás og lýstu sig leiðtoga jarðar létu þær marka tímatal jarðarbúa við komu þeirra. Geimverurnar voru frá plánetunni Verzló en þar búa hinir illu og herskáu Hnakkar. Hnakkar eru mjög frumstæð þjóð en fengu geimskip sín frá brjálaða vísindamanninum Stephen Hawking*, sem lofaði þeim besta brúnkukremi alheimsins gegn því að þeir myndu taka yfir jörðina.
Þegar Hnakkarnir komu til jarðar fór allt í bál og brand. Hver borgin og hvert landið af öðru féll undir ógnarstjórn þeirra, enda hafði Hawking útbúið þá með háþróuðum vopnum og skotheldu brúnkukremi. Síðasta vígið til að falla var Ísland, en það var aðallega af því að Hnakkarnir tóku ekki eftir því fyrr en árið 2010.
En að sögunni. Við erum stödd í Reykjavík. Hann gekk hægum skrefum að manninum, á meðan hann dró sverðið sitt úr slíðrum (byssur voru úreltar þar sem þær bitu ekki á þykku lagi af skotheldu brúnkukremi). Með eldsnöggri hreyfingu lagði hann sverðið að hálsi mannsins, en eins og hann vissi það fyrir fram vatt hann sér fimlega frá.
“Hver ert þú?” spurði hann.
“Nafn mitt er Lobsterman. En hver ert þú, sem ræðst aftan að mér óviðbúnum?” svaraði maðurinn.
“Ég er Svarti Sauðurinn, en þú mátt kalla mig Sauð,” sagði Svarti Sauðurinn og slíðraði sverðið.
“Töff,” sagði Lobsterman “en hvað ertu að gera með sverð?”
“Þú lítur út fyrir að vera traustsins verður svo ég get sagt þér það.” sagði Sauðurinn “ég er meðlimur uppreisnarmannanna. Ég hef verið sendur til að leita að hinum heilaga gral. Viltu joina?”
“Sure,” svarar Lobsterman “Afhverju ertu samt að leita að hinum heilaga gral?”
“Við teljum að hinn heilagi gral sé í raun öflugt vopn sem mun hjálpa okkur í baráttunni gegn Hnökkunum,” svarar Svarti Sauðurinn.
“Næs, veistu eitthvað hvar hann er?”
“Ég hef heyrt að það sé einstaklingur sem viti um hann, en ég veit ekki hvar hann er að finna,” segir Sauðurinn, “svo ég ætla að fara aftur til höfuðstöðvanna og sjá hvort einhver þeirra veit eitthvað meira.”
“Töff, en hvar eru höfuðstöðvarnar eiginlega?”
“Þær eru í MH. Fylgdu mér.”

*Nei ég var ekki að tala um hinn jarðneska Stephen Hawking. Þeir heita bara það sama af algerri tilviljun.


Framhaldið kemur seinna.