Ragnar, frændi Palla Ragnar frændi hans Palla í Englum Alheimsins er harður nagli.

—–

Öll hersveitin lá sofandi í skálanum okkar, við jaðar Valencia, þegar skyndilega glumdi við gífurlegur hávaði og skálinn skalf á undirstöðunum. Þegar í stað stökk ég fram úr rúminu, teygði mig í vestið mitt og M1 Garand riffilinn sem hafði oft bjargað mér úr honum kröppum. Ég klæddi mig í vestið á hlaupum og skutlaði rifflinum yfir öxlina á meðan ég kom restinni af hersveitinni á fætur.

“Drullist á lappir helvítis landkrabbar! Repúblikanarnir eru að gera árás!” öskraði ég þó að ég vissi að þeir hefðu ekki hugmynd um hvað ég væri að segja. En þó skildi þeir orðið repúblikanar og við það þutu þeir á lappir og herbjuggust á meðan handsprengjunum rigndi niður í kringum skálann.

Þegar við komum út sáum við flesta félaga okkar í hersveit 446 fallna en þeir sem eftir stóðu voru búnir að koma sér í var á bakvið skriðdreka. Ég leiddi sveit mína yfir til þeirra. Þegar við vorum hálfnaðir lenti handsprengja rúma tvo metra frá okkur og hún drap tvo menn. Við komumst að lokum í var bak við skriðdrekann og ég spurði skriðdrekastjórann: “Why you not in tank?” og svarið sem ég fékk, fékk mig til að langa að skjóta þá á staðnum. “The keys are locked inside it”

Ég lamdi sjálfan mig í hausinn og reyndi að upphugsa áætlun. Ég leit í kringum mig og sá sprengivörpu liggjandi við hlið hermanns. Það var hann Hermann vinur minn.

Ég skutlaði mér á eftir henni með kúlnaregnið dynjandi í kringum mig, greip hana og rúllaði mér undir stóran jeppa. Þaðan skreið ég að skálanum aftur og læddist meðfram jaðri vegatálmanna sem við höfðum sett upp fyrir hálfu ári. Ég stökk yfir nokkra steypuklumpa og skreið undir nokkrar gaddavírsgirðingar þangað til að ég kom að hlið repúblikananna sem voru að ráðast að okkur sunnan megin frá.

Ég kom mér fyrir í hæð hægra megin við þá og miðaði sprengivörpunni á staðinn sem að flestir hermenn stóðu á. Ég tók í gikkinn. Eldflaugin þaut út úr hlaupinu og lenti í miðjum hópnum sem varð að dufti á örfáum sekúndubrotum. Ég henti sprengivörpunni frá mér og sveiflaði Garand rifflinum fram. Ég skaut á hlaupum niður hæðina og drap fjóra menn áður en þeir höfðu fattað hvað gerðist. Mér leið eins og Buster Keaton í Convict 13, uppáhalds myndinni minni.

Nú höfðu þeir séð mig og ég sá mann taka upp handsprengju og kasta beint á mig. Ég teygði upp höndina, greip sprengjuna og grýtti henni aftur að helvítinu um leið og ég öskraði ,,Hafðu þetta andskotans afglapinn þinn!”

Ég fleygði mér niður um leið og það dundi á hlíðinni kúlnahríð úr vélbyssunni sem var uppi á skriðdrekanum sem kom fyrir hornið. Ég fékk bylmings högg í öxlina og rúllaði niður hæðina. Þegar ég kom niður sá ég hringlaga gat á vestinu mínu og rauðan blett sem fór stækkandi.

Ég hló nú bara og hljóp inn á veginn og skaut á allt sem hreyfðist. Eftir örfáar sekúndur lágu tuttugu menn í valnum. Ég þaut að stað í átt að skriðdrekanum, tók upp hnífinn minn og kastaði honum í átt að manninum á vélbyssunni. Hnífurinn stoppaði á milli augnanna á honum. Ég sá handsprengjubelti á jörðinni og fékk hugmynd.

Ég greip beltið og þaut undir hlaupið á skriðdrekanum, sveiflaði mér upp á það og tók alla pinnana úr handsprengjunum á tveim sekúndum. Ég tróð beltinu inn í hólkinn og stökk af skriðdrekanum og skutlaði mér ofan í skurð sem var við hlið vegarins.

BÚMM! Heyri ég tæpri sekúndu eftir að ég lenti í skurðinum.
Ég klifra upp úr skurðinum og sé skriðdrekann tættan í sundur. Allir óvinirnir eru loksins dauðir. Ég gekk rólegur eftir veginum og að skálanum. Þegar ég kem þangað ætla sjúkraliðarnir að lappa eitthvað upp á mig en ég bendi þeim að fara í burtu.

,,En þú ert með kúlu í öxlinni!” sagði annar þeirra.
Ég leit niður á öxlina, stakk fingrunum inn í sárið og gróf kúluna út.
,,Hana, þetta er bara smá skeina” sagði ég, rétti sjúkraliðanum kúluna og fór inn í skála til að vinna upp svefninn sem ég missti vegna repúblikananna.
—–
,,Jæja Palli minn, nú þarf ég að fara en þú færð aðra sögu næst þegar ég kem í heimsókn."