Af hverju er öskudagur haldinn hátíðlegur Öskudagur er upphafsdagur lönguföstu, miðvikudagurinn í 7. viku fyrir páska. Dagsetning hans getur sveiflast á milli 4. febrúar til 10. mars.

Nafnið öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14. öld og leiða má líkum að því að það sé enn eldra. Þar má sjá að dagurinn gegnir sama hlutverki hér og í öðrum katólskum sið í Evrópu, hann er dagur iðrunar fyrir gjörðar syndir.

Í Evrópu tíðkuðust, og tíðkast enn þar og víða í heiminum, sérstakar kjötkveðjuhátíðir síðustu dagana fyrir lönguföstu, miklar útihátíðir og skemmtanir. Föstuinngangur fer saman við vorkomu í suðlægari löndum og þar hafa heiðin hátíðahöld örugglega haft áhrif sem síðan hafa borist til norðlægari landa. Dagarnir fyrir upphaf föstu voru líka hefðbundnir uppgjörsdagar skatta víða í Evrópu, sem gjarnan voru greiddir í búfénaði og matvælum.

Strjálbýli og veðurfar hafa að öllum líkindum komið í veg fyrir að útihátíðahöld næðu fótfestu á Íslandi á þessum árstíma en skemmtunin haldist innan veggja heimilanna, búanna. Eins og venjan á sprengidag gefur til kynna, saltkjöt og baunir í mál, hefur eitthvað verið gert til að breyta til í mataræði við upphaf föstu hér á landi. Þó ekki hafi tekist að rekja sögu þessara hefða langt aftur í tímann, má gera ráð fyrir að siðbreytingin hafi haft mikil áhrif á hvernig menn höguðu sér á lönguföstu og við upphaf hennar. Trúarleiðtogar mótmælenda lögðu minni áherslu á föstuna sjálfa og töldu hana koma illa við vinnusemi fólks sem var mikilvæg í augum þeirra. En jafn illa var þeim við kjötkveðjuhátíðarnar miklu, sem stóðu kannski í marga daga og gerðu fólk óvinnufært í fleiri daga á eftir.

Þótt hátíðleiki öskudagsins hafi minnkað og jafnvel horfið hér á landi við siðbreytinguna hélt fólk áfram að gera sér glaðan dag síðustu dagana fyrir lönguföstu og hér hafa þróast ýmsir siðir kringum bolludag, sprengidag og öskudag. Athyglisvert er að bolludagur (sem væntanlega fékk ekki nafnið fyrr en snemma á 20. öld) og öskudagur hafa að nokkru leyti skipt um hlutverk. Lengi vel var mánudagurinn í 7. viku fyrir páska hefðbundinn frídagur barna í skólum og þá tíðkaðist víða um landið að “marséra” í grímubúningum og að slá köttinn úr tunnunni, seint á 19. öld. Þeir siðir hafa væntanlega borist frá Danmörku eða Noregi. Árið 1917 hafði frídagurinn verið færður yfir á öskudaginn víðast hvar á landinu og siðirnir fluttust með. Að “marséra” og slá köttinn úr tunnunni datt þó víðast hvar uppfyrir á 20. öld, en hélst þó við á Akureyri og hefur þaðan breiðst út á ný.

Ein hefð sem er bara til á Íslandi er pokasiðurinn sem skiptist í tvennt
eftir kynjum: konur hengdu öskupoka á karla en karlar poka með steinum á konur. Líklegt er að ólík kynjahlutverk og aðgengi að hlutum hafi þar skipt máli, en lykilatriði hjá báðum kynjum var að koma pokunum fyrir svo að fórnarlambið tæki ekki eftir því.


Snemma á 20. öld þróaðist öskupokasiðurinn í þá átt að verða nokkurs konar Valentínusarbréf. Ungar stúlkur sendu ungum piltum sem þeim leist vel á poka til að gefa áhuga sinn til kynna.

Heimildir: http://visindavefur.hi.is/