[sögukeppni] Illur hinn illi – Sagan um Illskuna
Í myrku herbergi í húsi númer 666 á Vondugötu býr náungi svo illur að Hitler hefði verið ofboðið, þessi náungi heitir því einfalda en orkumikla nafni Illur. Hann Illur er heilir 140 cm. á hæð og fölur eins og nár. Ég vara ykkur við hér á eftir munu “sjást” viðbjóðslegir, illir hlutir sem sum ykkar munu ekki geta afborið svo ég vil biðja alla viðkvæma, hjartveika, með magasár og þá sem eru með ofnæmi fyrir humri að fara frá tölvunni nema þið viljið hætta lífi ykkar. *Nokkrir standa upp frá tölvunni og ganga út*. En áður en haldið verður inn í hið myrkra herbergi vil ég kynna fyrir ykkur fortíð Ills svo þið skiljið alvöru málsins.
Illur ólst upp í Villainiu, landi langt í austri sem aðeins fáir hafa stigið fæti í. Foreldrar hans voru Skúrks-hjónin, voru þau virt af öllu dísentlí illu fólki í Villainiu.
Það var þann sjötta júní klukkan sex eitt árið að Skúrks hjónunum fæddist drengur sem þau skírðu Illann og segja þau fáu vitni sem hafa séð hann að þetta hafi verið það allra versta barn sem nokkurn tímann hafði sést í Villainiu.
Þegar Illur var aðeins þriggja mánaða gamall rændi hann sína fyrstu búð, hann rændi sinn fyrsta banka hálfs árs gamall og framdi sitt fyrsta morð tveggja ára að aldri. Sögur herma að ef Illur hefði aldrei fæðst inn í þennan heim væru íbúar jarðarinnar helmingi fleiri.
Nú þegar þið hafið fræðst aðeins um fortíð Ills ætti að vera óhætt að skyggnast inn í myrka herbergið á Vondugötu 666.
“URR ég er rosalega vondur” sagði Illur.
“Já, enginn kemst nálægt illsku þinni meistari” sagði Jósef, heimskur en jafnframt vondur aðstoðarmaður hans.
“Þögn dauðlega fífl” sagði Illur þá og benti á Jósef. “Ég veit hversu illur ég er.”
“Auðvitað meistari” sagði Jósef þá.
“Náðu í vondu aðstoðarmenn mína” öskraði Illur.
Jósef hljóp út og kom stuttu seinna aftur inn með þrjá aðstoðarmenn, hver verri en sá fyrri.
“Ég hef boðað ykkur hingað til að tilkynna ykkur að ég hef planað rosalegt plan til að eyða heiminum…” sagði Illur stoltur.
“Vá rosa” sagði einn illu aðstoðarmananna.
“Ég veit” sagði Illur. “…og ég þarf á öllum ykkur að halda.”
“Hvernig er planið” spurði Jósef.
Allir aðstoðarmennirnir og Illur horfðu illu augnaráði á Jósef. “Aldrei grípa fram í fyrir meistaranum þegar hann er að fara að útskýra planið” sagði einn aðstoðarmannana.
“Drepiðið fjölskylduna hans” kallaði Illur.
“Já en þú ert búinn að drepa fjölskylduna hans” sagði einn aðstoðarmaðurinn.
“Nú … drepið þá hamsturinn hans.”
“Þú ert líka búinn að því.”
“Er það? … jæja drepið hann þá bara.”
“Nei, nei, NEI” sagði Jósef þegar aðstoðarmennirnir gripu hann og fleygðu út um gluggann. *einn lesandinn fær hjartaáfall*.
“Já og nú að planinu” sagði Illur (sem var illur). “Jæja, fyrst þá fara ég og illir aðstoðarmenn eitt og tvö yfir í Alþjóðlega Dósasafnið þar sem verið er að halda sýningu á frægustu gosdósum heims, við rænum einni dósinni hugsanlega þeirri sem Sean Penn drakk úr, hlaupum út og dritum alla niður sem standa í vegi okkar.
Næst fer aðstoðamaður tvö dulbúinn sem gamall bóndi til Perú og selur dósina á svarta markaðinum þar, einn heimskinginn kaupir dósina og ætlar að fara með hana heim til sín en stígur á tyggjóklessu á leiðinni og dettur fram fyrir sig ofan í læk. Nokkrum dögum seinna finnur eitthvað fólk líkið hans sem hafði skolast upp við húsið þeirra. Eftir langa og stranga leit mun fólkið finna út að frænka mannsins og eini núlifandi ættingi hans býr í Rússlandi. Frænkan erfir því allar eigur mannsins þar á meðal dósina sem hann fannst með. Frænkan sem vill svo til að á hund gefur honum dósina og festir í ólina hans.
Stuttu seinna er hundurinn valinn í mikilvægt verkefni og sendur út í geim til að gá hvort líf finnist á Mars eða eitthvað í þá áttina, þá kemur Jósef (sem hafði falið sig inn í dósinni allan tímann) út og tekur yfir geimskipið og beinir því yfir til tunglsins.
Þar byggir hann risastóra leiserbyssu úr eigin eyrnamerg og beinir á jörðina og sprengir hana í loft upp. Hinsvegar verðum við alveg óhultir því að við munum fela okkur undir illu regnhlífinni minni sem ekkert getur unnið á.
Þannig mun heimurinn eyðast og ég verða krýndur konungur illskunnar.”
“Þetta er fullkomið plan herra” sagði aðstoðarmaður eitt.
“Já, nánast ekkert getur farið úrskeiðis” sagði aðstoðarmaður tvö.
“Vá þú ert alger snillingur” sagði aðstoðarmaður þrjú.
“Já allir hafið þið rétt fyrir ykkur sérstaklega illur aðstoðarmaður númer þrjú en þú hefðir mátt bæta við “og ótrúlega myndarlegur” rétt eftir að þú sagðir að ég væri snillingur.”
“En það er bara eitt að” sagði aðstoðarmaður eitt. “Við vorum að fleygja Jósefi út um gluggann.”
“Já það er satt” sagði Illur. “Hver átti hugmyndina að því?.”
“Það varst þú herra” sagði aðstoðarmaður númer tvö.
“Þei heimski lúði” sagði Illur. “Það varst þú og þess vegna skal þér refsað … refsað með verstu refsingu sem til er.”
“Brokkólí?” spurði aðstoðarmaðurinn vongóður.
“Nei, dauða.”
“Oh shoot ….”
Illur stökk fram í áttina að aðstoðarmanninum og hóf stærðarinnar illskuregnhlíf sína á loft. SJÚNG. Höfuð aðstoðarmannsins féll á gólfið og blóð slettist um allt teppið. *það lýður yfir nokkra viðkvæman lesendur* . “Ó, sjáið hann hefur útatað gólfið mitt” sagði Illur móðgaður.
“Skepnan” sagði einn af aðstoðarmönnunum.
“Jæja nú eru tveir af mönnum mínum dauðir, ég get varla framkvæmt planið núna” sagði Illur fúll. Síðan settist hann niður og fór að borða papriku, mat illskunnar. “Næst mun það takast … næst, HEIMURINN VERÐUR MINN!”


Nokkrum dögum seinna fékk Illur illskuáfall við það að vera of illur og var sendur á gjörgæslu. Læknirinn ráðlagði honum að taka því rólega og hætta allri illsku í nokkra mánuði. Illur skaut lækninn í fótinn en gerði sér svo grein fyrir því að kannski væri illska ekki eina leiðin til að lifa svo hann stofnaði anti-illsku klúbb og heitir nú Sómi.

Aðstoðarmaður eitt flutti til Flórída og gerðist stjórnandi í spurningaþætti. Hann var seinna rekinn en hélt ennþá áfram að hósta þættinum í herberginu sínu fyrir framan ósýnilegu myndavélina sína.

Aðstoðarmaður þrjú keypti dósina hans Sean Penn á uppboði og eyddi þannig öllum peningnum sínum. En honum var sama.

Jónas vann í lottóinu og keypti sér draumahúsið.


Jæja ég vona að þeir sem lifðu af hafi haft gaman af sögunni.