Við vorum látin gera verkefni í stjórnmálafræði í skólanum. við áttum að búa til ríki og segja frá öllu þar.
Þetta er það sem ég og vinur minn gerðum.

Fjarskanistan er lítil eyja norður af Langtíburtistan.
Íbúafjöldi er 537 frá og með gærdeginum er ung stúlka fæddist. Foreldrar hennar eru í minnihlutahópnum Vesenistar sem eru um 15% af samfélaginu.
Eyjan öll er um 21ha og er aðalatvinnuvegur sandútflutningur og var eyjan 25ha þegar útflutningur hófst fyrir einu ári síðan. Og er útflutningnum stjórnað af tveimur doktorum í jarðfræði með sérhæfingu í sandi.
Aðaltrúarbrögð eru dverghamstratrú og eru báðir dverghamstrarnir á eyjunni í guðatölu, og er búist við því að þriðji guðinn verði sendur til landsins von bráðar. Eru þeir taldir beinir afkomendur hinna heilögu naggrísa.
Forseti landsins er kosinn til 17 ára og vill svo til að núverandi forseti er líka borgarstjóri höfuðborgarinnar sem er eini bærinn á eyjunni og nefnist Höfuðborg.
Forsetinn rekur einnig vefnaðarvöruverslunina sem er einnig kjörbúðin og er bókasafn á háaloftinu.
Mikil togstreita er milli vesenista og fjarskanista þar sem vesenistar neita að tilbiðja dverghamstrana. Þeir trúa á hið heilaga pálmatré sem er á miðri eyjunni og vegna þess er ekki hægt að byggja á því svæði. Búa allir vesenistarnir umhverfis tréð og eru þeir mjög fátækir. Vinna þeir aðallega við skipulag gatnakerfisins, enda er mikið vesen með það.
Aðrir atvinnuvegir eru sauðfjárrækt, fiskeldi og mansal.
Einnig þá stunda þeir íkornarækt og er grillaður íkorni á teini marinerður upp úr kókosmjólk þjóðarréttur landsins. Veldur það miklum deilum því eini staðurinn sem hægt er að fá kókosmjólk er af hinu heilaga pálmatré og eru vesenistar æfir í hvert sinn þegar fjarskanistar ná í kókoshnetur.
Dagleg mótmæli eru haldin fyrir utan ráðhúsið, sem er einnig í vefnaðarvöruverslunninni, af vesenistum. Gera þeir þetta af aldargamalli hefð sem enginn veit hvernig byrjaði. Mótmæla þeir öllu frá hvernig himinninn er á litinn til þess að sjórinn sé blautur.
Eyjan var áður hluti af Sovétríkjunum þó að sovétmenn hafi jafnan gleymt því þannig að eyjan var í raun sjálfstjórnarhérað innan Sovétríkjanna.
Her og lögregla er í raun sami hluturinn og samanstendur hann af 7 mönnum, einum hundi og rollu.
Forsetakosningar verða haldnar í vor og hefur núverandi forseti gefið í skyn að hann ætli ekki að sækjast eftir endurkjöri og hefur enginn annar lýst áhuga á framboði. Búist er við að herinn þurfi að neyða einhvern til að taka starfið að sér.
Núverandi forseti er duglegur að halda ræður og er skylda samkvæmt stjórnarskrá landsins að halda ræðu einu sinni á dag. Einnig er honum skylt að hitta þegnana að minsta kosti einu sinni í viku.
Ekkert rafmagn er á eyjunni en samningar eru í gangi um að fá rafmagn frá Langtíburtistan.
Tvö klósett eru á eyjunni. Eitt karla og eitt konu og myndast oft mjög langar biðraðir og slær oft í slagsmál milli fjarskanista og vesenista.