Einu sinni var lítill plebbi sem þótti gaman að fljúga. Og alltaf þegar hann flaug, klessti hann á rjóma. Og af því að plebbinn var Bambi í anda og af því að árekstrar hans ollu alltaf þvílíku fimbulfambi, þá var hann kallaður Bambi Fimbulfambi.

Bambi litli Fimbulfambi steikti sér egg einn morguninn en áður en hann náði að éta það, öskraði það á hann og rifnaði svo í tætlur. Þá fór hann í fýlu út í eggið. Og eins gott að Bambi Fimbulfambi var ekki egg, þá hefði hann nefnilega þurft að þola viðurnefnið ‘fúlegg’. Því nennti hann ekki.

Fyrst hann gat ekki fengið egg í morgunmat ákvað hann að fara út og borða eitthvað þar. Eftir sjö og hálfrar mínútu göngu rakst hann á hornstein með jarðarberjabragði og át með næstbestu lyst (hann ákvað nefnilega að geyma bestu lystina fyrir stráin sem hann ætlaði að láta ofan í sig í kvöldmat).

Núna var Bambi Fimbulfambi orðinn saddur. En svo rak hann tána í dáið reiðhjól og hún brotnaði svo hann þurfti að líma hana saman með tonnataki.

Þetta var nú ekki alveg það stórt áfall, svo hann ákvað að leggjast ekki inn á Klepp.

Þegar kvöldmaturinn gekk í bakgarð, fékk Bambi Fimbulfambi sér fullt af stráum. Hann beit í eitt þeirra og það bragðaðist eins og hefti, svo hann ældi því út úr sér á póstberann, sem þá orgaði af bræði, og fannst það svo sniðugt, að hann ákvað að stofna heimasíðu og nefna hana póstmanns.org. Þannig að Bambi Fimbulfambi ákvað að athuga hvort smjér myndi breyta einhverju um bragðgæði stráanna. En hann setti svo mikið smjér, að smjérið draup af hverju strái. Í eftirrétt fékk Bambi Fimbulfambi sér sykraða steypu með litarefni (nokkuð hefur borið á því að fólk kalli þennan rétt skyr, en hann heitir í rauninni SteypuKlíningur með Yfirþyrmandi Rykbragði).

Síðan fór Bambi Fimbulfambi á bókasafnið og sauð súpu úr gólfteppinu þar. Svo rak hann höndina í bók sem hét Brunnlaugs saga Gormssonar og fékk ælupest sem drekkti öllum Bandaríkjunum og þá komu SÞ með sleikjó handa öllum og það varð heimsfriður og fegurðarsamkeppnastelpurnar vissu ekkert hvers þær ættu að óska sér.

Bambi Fimbulfambi fór heim til sín að búa til snjókall, svo bjó hann til prestakall og þar á eftir tíkall. Þetta reyndi svo á hann að hann varð þreyttur og fór að sofa í hálfu rúmi með 0.7sængurfötum.

Weeeehehehehehhehe var fyrsta orðið sem Bambi Fimbulfambi kom upp úr litla Bambakjaftinum sínum næsta morgun. Því alltaf þegar Bamba Fimbulfambi langaði til að fljúga, fékk hann óstjórnlega löngun til að segja þetta. Nú, hann rúllaði sér út á flugvöll og skreið upp í flugvél. Þar var nú þegar flugmaður sem gegn loforði um eiginhandaráritun frá Bamba Fimbulfamba samþykkti að fljúga vélinni fyrir hann meðan hann fyndi sér stað til að fljúga niður.

Þeir voru komnir í loftið. Bambi Fimbulfambi sagði blæblæ því hann gat ekki gert upp við sig hvort hann langaði meira til að segja bless eða bæ, skrifaði eiginhandaráritunina, fyrir flugmanninn og svo flaug hann út úr vélinni. Eftir nokkurra mínútna flug, klessti Bambi Fimbulfambi á rjóma sem var á toppi Hallgrímskirkju. Þá gerðist það fimbulfamb að hún tók að hristast ofsalega og eftir hálftíma, þegar Bambi Fimbulfambi var lentur, lék hún enn á reiðiskjálfi.

Bambi Fimbulfambi fékk sér ís með gervirjóma í dós þegar hann kom heim. Hann var dálítið ógeðfelldur á bragðið svo að hann fór út.

Eftir fimm kílómetra göngu kom Bambi Fimbulfambi að kaffihúsi í bænum og þar fékk hann sér ‘heitt Kakó með rjóma’ og það var ekki gervirjómi heldur ekta þeyttur rjómi úr skál eldhússins “Umm, humm” sagði hann, “þessi rjómi er sko miklu betra en þetta dósadrull!” Svo sofnaði hann úr góðu bragði.