Einu sinni var lítill, þunglydur kanínuungi. Hann át eitt sinn stökkbreyttan snigil, en hann hafði þau áhrif að kanínuunginn læknaðist af þunglyndinu. Hann vildi ekki alveg strax deila þessu litla leyndarmáli með heiminum og langaði líka að gera með þetta hinar ýmsu tilraunir og sjá hvort stökkbreyttir sniglar virkuðu einungis sem þunglyndislyf fyrir kanínuunga eða hvað.

Hann gekk um Öskjuhlíðina og Alþingishúsið og fann fjöldann allan af stökkbreyttum sniglum sem hann síðan geymdi í plastklefum á neðanjarðarrannsóknarstofu sem hann kom sér upp í kjölfarið. Sniglana fóðraði hann á semi-mygluðu bananahýði.

Að því búnu dáleiddi hann 2 af þunglyndum eftirfarandi: Kanínuunga, gíraffa, menn, seli og kíví. Hann setti fórnarlömbin í sin klefann hvorn (að þessu sinni tréklefa), vakti þau af dáleiðslunni og huggðist svo gefa þeim öllum einn snigil hverju. Og þá gerðist eftirfarandi: Kanínuungarnir læknuðust og menntuðu sig og urðu farsælir bókasafnsverðir. Gíraffarnir dóu og urðu að veislumat hjá japönskum nýnasistum. Mennirnir rugluðust og fóru í ævilangt frí til Tælands þar sem þeir eru nú enn og standa í þeirri trú að þeir séu gólfmottur keisara nokkurs í Róm sem átti að hafa dáið úr hausverk árið nítjánhundruðfimmtíuogsjö eftir bylinn. Áður en kanínuunginn náði að gefa selunum snigla átu þeir hvor annan. Kívíin sýndu hins vegar mismunandi viðbrögð; stærra kívíið læknaðist alveg en hið minna fékk flog, þar á eftir ofsalegt krampakast og dó að því búnu.

Niðurstöðurnar túlkaði kanínuunginn svo: Það er hægt að lækna kanínuunga af þunglyndi með því að gefa þeim stökkbreytta snigla, eins er því farið um stór kíví. Öðru gildir hins vegar um lítil kíví, gíraffa og menn. Ef þú gerir þau mistök að nálgast seli með stökkbreytta snigla í höndinni, éta þeir hvor annan. Óljóst er enn hvað gerist ef þú nálgast aðeins einn sel með stökkbreyttan snigil í hönd. Undirrituðum hefur ekki vaxið kjarkur til að gera þá tilraun.

Þessa skýrslu sendi kanínuunginn inn á einhverja nördastofnun og fékk fyrir það Nóbelsverðlaun og fullt af pening. Honum eyddi hann í kúrekahattaverksmiðju sem fór á hausinn eftir fjögur hundruð ár en það var í lagi fyrir kanínuungann því þá var hann löngu dauður. Af jarðarför hans er það að segja að hann bauð aðeins Björk og kengúrukeisaranum í Kúala Lúmpúr.